Grófur glæpamaður gróf sig út og skildi eftir gat
30.3.2014 | 11:55
Stundum er maður hissa á að börnum sé treyst til að skrifa fréttir í fjölmiðla. Hér er alveg undarlega rituð frétt í mbl.is. Hún er afar stutt en villur, missagnir og klúður eru í henni allri (feitletranir eru mínar):
Lögreglan í Stokkhólmi í Svíþjóð leitar nú að manni sem tókst að flýja úr fangelsi með því að grafa sig út. Maðurinn sat inni fyrir gróf rán og lögreglan lítur á hann sem hættulegan glæpamann.Í veggnum í klefa hans fann lögreglan stórt gat sem leiddi út úr byggingunni. Þar fyrir utan hafði hann klippt í sundur girðingu sem umlykur fangelsið. Líklegast hefur hann fengið aðstoð að utan og verið sóttur á bifreið.Fangelsið sem hann flúði úr er í svokölluðum 2. flokki öryggisfangelsa, næsti flokkur fyrir neðan hæsta öryggisflokk. Mikill fjöldi lögreglumanna tekur nú þátt í leitinni að manninum.
Maðurinn (ekki fanginn) gróf sig út en sat inni fyrir gróf rán. Þetta lyktar af nástöðu sem er alltof algeng og setur ljótan svip á jafnt ritað mál sem talað.
Löggan fann gat í klefa fangans, ekki göng, holu eða brotinn vegg. Gatið leiddi út úr byggingunni, ekki þannig að göngin (holan) hafi legið út úr húsinu, nei hún leiddi ...
Venjulega er girðing eða múr í kringum fangelsi, ekki þarf að tíunda það. Það er þó sérstakt að segja að girðing umlykur fangelsið.
Svo mun hann (ekki fanginn) fengið aðstoð að utan ... Hafi nú maðurinn verið sóttur þá hefur hann væntanlega ekki pantað leigubíl heldur fengið aðstoð af öðru tagi.
Gera má ráð fyrir að 2. flokkur öryggisfangelsis sé fyrir neðan fyrsta flokk og þannig sé talið niður. Ekki þekki ég svona flokkun en finnst þó undarlegt að hættulegur glæpamaður sé í 2. flokki öryggisfangelsis. Mikið helv... hljóta þeir að vera hættulegir sem eru í 1. flokki öryggisfangelsa í Svíþjóð.
Hverjir skyldu nú leita að manninum (ekki flóttafanganum)? Jákvætt er að mikill fjöldi lögreglumanna hafi takið þátt í leitinni. Orðalagið er svona eins og að björgunarsveit hér heima taki þátt í leit að týndum fjallamanni þegar staðan er einfaldlega sú að björgunarsveitin er sú eina sem leitar. Í Svíþjóð er það ábyggilega þannig að eingöngu lögregla leitar að hættulegum glæpamanni.
Niðurstaðan er að þetta er illa samin frétt.
Gróf sig út úr fangelsi í Svíþjóð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:23 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Sigurður,
Hvað hefur þetta með börn að gera? Dóttir mín sem er 13 ára gæti skrifað þetta svo margfalt betur (reyndar á ensku) Málkunnátta hefur ekkert með aldur að gera.
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 30.3.2014 kl. 20:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.