Vífilsfell er stórkostlegt fjall en getur verið hættulegt

IMG_0047 Vífilsfell, undirhlíð, Bubbi - Version 2

Eftir myndinni að dæma hefur snjóflóðið orðið í bröttu hlíðinni sem flestir fara á fjallið. Snjórinn hefur brostið í hlíðinni rétt fyrir neðan hraunlagið sem er efst í þeim hluta fjallsins sem kenndur er við hásléttu eða stapann. Þetta er afar vinsæl leið en viðsjálverð að vetrarlagi eins og víða er á fjöllum. 

Þarna háttar þannig til að gönguleiðinni liggur yfir litla lægð eða grunnt gil. Þar safnast alltaf mikill snjór fyrir jafnvel þó autt sér sitt hvorum megin. Stundum er harðfenni þarna og erfitt að fóta sig. Þess vegna er bráðnauðsynlegt að vera með ísexi og brodda á fjallinu að vetrarlagi. Og það sem skiptir öllu máli, að kunna að beita hvoru tveggja.

Á meðfylgjandi mynd til hægri er göngustígurinn ofarlega á leiðinni upp á sléttu og hægra megin efst má sjá mosabreiðu. Á henni og allt út að staðnum þar sem maðurinn er fyllist allt af snjó. Þarna efst uppi varð snjóflóðið eftir því sem ég fæ best séð.

DSC_0183 - Version 2

Myndin vinstra megin er tekin að vori til og sýnir norðurhlið Vífilsfells. Gönguleiðin sem áður er nefnd er merkt inn á myndina með rauðri línu. Leiðin liggur framhjá skaflinu sem þarna safnast í litla gilið og þar var snjóflóðið.

Þessi atburður minnir á annan og öllu alvarlegri sem líka gerðist í Vífilsfelli.

Dauðaslys í Vífilsfelli

Þann 1. janúar 1983 voru þrír menn á gangi í Vífilsfelli. Hálka var og erfitt að fóta sig ofarlega í fjallinu. Þá gerist sá hörmulegi atburður að tveir ungir menn hrapa í klettunum, að öllum líkindum í móbergshryggnum sunnan við tindinn.

Þriðji maðurinn kemst niður að félögum sínum helsærðum, hlúir að þeim og fer af fjallinu. Hann stoppar bíl og er ekið að lögreglustöðinni í Árbæ. Á þessum árum voru ekki til gsm símar og talstöðvar frekar fágætar. Hjálpin kom því miður of seint og dóu tvímenningarnir áður en hægt væri að koma þeim á sjúkrahús.

Mér þykir Vífilsfell afar fallegt og tilkomumikið fjall. Það hefur þó sínar dimmu hliðar og því afar mikilvægt að vera vel búinn áður en farið er í vetrarferðir á það. Og stundum dugar það ekki einu sinni til eins og fram kemur í fréttinni um snjóflóðið. 


mbl.is Sluppu úr snjóflóði á Vífilsfelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband