Ráðherra Sjálfstæðisflokksins vill skerða frelsi landsmanna

Að undanförnu hefur verið nokkuð mikið rætt um svokallaðan náttúrpassa sem ferðamálaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, vill að verði tekinn upp til að fjármagna skemmdir vegna átroðnings ferðamanna og uppbyggingu á ferðamannastöðum.

Náttúrpassinn hefur nú verið kynntur fjölmörgum hagsmunaaðilum. Hann á að gilda á tilteknum landsvæðum sem lokað verði öðrum en þeim sem hafa passan.

Þeir umsjónarmenn landsvæða eða landeigendur sem leggjast gegn passanum verða sjálfkrafa undanskildir fjármagni úr þeim sjóði sem ætlunin er að mynda. Þetta er svona mafíuaðferð til að knýja fólk til undirgefni.

Ljóst er að útfærslan á náttúrupassanum er með því versta var hægt að hugsa sér. Ætlunin er að almenningur geti keypt sé tímabundna passa og fái með því leyfi til að ferðast.

Lögreglunni er ætlað að kanna hvort fólk sé með þá og væntanlega sekta eða kæra þá sem eru án þeirra. 

Þetta er versta mögulega leiðin sem hægt er að fara. Vilji menn endilega afla fjár með þessu móti hefði verið miklu skynsamlegra að rukka útlenda ferðamenn við komuna í landið eða brottför. Þetta er hægt að gera í gegnum farmiðasölu.

Íslendingar munu aldrei sætta sig við að þurfa að afsala sér fornum réttindum um frjálsa ferðir um landið. Ekki einu sinni á erfiðustu tímum íslenskrar þjóðar hafa verið settar slíkar takmarkanir á ferðir Íslendinga sem núna er ætlunin að gera.  

Í raun og veru er óskiljanlegt að ráðherra Sjálfstæðisflokksins skuli ætla að fara fram með þessum hætti.

Við, þúsundir Íslendinga, höfum staðið við bakið á Sjálfstæðiflokknum, starfað innan hans og styrkt hann eins og framast hefur verið unnt. Jafnvel þegar hann hefur átt í sinni mestu kreppu höfum við staðið vörðum um hann.

Að mínu áliti og fjölda annarra kemur ekki til greina að flokkurinn taki upp aðferðir sem kenndar eru við Stóra bróður í skáldsögu Orwells. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hingað til stutt frelsi og lagst gegn helsi. Nóg var nú að gert þegar flokkurinn stóð að setningu nefskatts til fjármögnunar á Ríkisútvarpinu.

Frelsi almennings verður aldrei skert á þennan hátt. Tekjur ríkissjóðs af ferðamönnum eru gríðarlegar og stjórnvöldum er engin sæmd í því að setja á skatt á okkur til að afla enn meiri tekna.

Ég spái því að þúsundir manna spígspori um landið eftir gildistöku náttúrupassans og ögri einfaldlega lögreglu og stjórnvöldum og mótmæli þannig þessari aðferð til skattheimtu. Samtök útivistarfélaga hafa þegar lýst yfir óánægju sinni og næst koma einstaklingar sem taka afstöðu með fótunum.

Sjálfstæðisflokkurinn var ekki kosinn í síðustu þingkosningum til að skerða frelsi fólks né heldur til skattlagningar. Ég vara ráðherrann eindregið við þessum náttúrupassa. Nóg eru vandræði flokksins um þessar mundir svo ekki bætist verri vandamál við. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Því má halda fram að þessi passi sé í anda við frjálshyggjuhugmyndir MIltons Friedmans, þ.e.a.s. að þeir borgi sem njóti. En ég er fyllilega sammála þér að þessi passi sé slæm hugmynd. Ef Íslendingar eiga landið saman, þurfa þeir þá að borga fyrir að skoða það sem þeir eiga?

Wilhelm Emilsson, 12.3.2014 kl. 15:46

2 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Það er í eðli pólitíkusa að vilja skerða fralsi fólks.

Ásgrímur Hartmannsson, 12.3.2014 kl. 16:42

3 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Sigurður, ég er þér hjartanlega sammála, þetta er hið versta mál og ekki í anda sjálfstæðisstefnunnar.  Þetta er miklu frekar í takt við það sem hefði mátt búast við af hálfu Vinstri grænna.  Auk þess efast ég stórlega um að þeir fjármunir sem koma í ríkissjóð með sölu þessara passa, fari til uppbyggingar og umhirðu þeirra svæða sem ferðamenn eru að troða niður.

Auðvitað á að heimila þeim sem sjá um náttúruperlur að innheimta aðgangseyri að þeim og fá þannig fé til uppbyggingar, umhirðu og öryggiseftirlits, svo eitthvað sé nefnt, eins og landeigendur vilja gera hjá Geysi.

Tómas Ibsen Halldórsson, 12.3.2014 kl. 16:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband