Framsóknarþingmönnum og ráðherrum er hollt að þegja
20.2.2014 | 09:05
Hvar er miðjuarmur Framsóknarflokksins? Hann fyrirfinnst allavega ekki í utanríkisráðuneytinu og því síður í landbúnaðarráðuneytinu og þótt forsætisráðherra hafi ýmislegt sér til ágætis þá vakna óneitanlega efasemdir um áherslur hans. Sjálfsagt er einhver hljómgrunnur fyrir afturhaldssömum málflutningi í utanríkis- og landbúnaðarmálum hér á landi, en samt virðist líklegt að stór hluti þeirra sem kusu Framsóknarflokkinn í síðustu kosningum hafi ekki smekk fyrir því hvernig málflutningur flokksins hefur þróast. Fyrr eða síðar hlýtur fylgi flokksins að dala hraustlega.
Þetta segir Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu í snjöllum Pistli dagsins. Við spurningu hennar er aðeins eitt svar: Enginn er að leita, öllum er sama. Og flestum er til efs að til sé eitthvað sem heitir miðjuarmur Framsóknarflokksins. Hvers konar fyrirbrigði er það. Fimm hrumir kallar við morgunverðarborð á Borginni!
Framsóknarflokknum er illa stýrt. Hann nýtur slæmrar ráðgjafar í PR málum og margir þingmenn og ráðherrar tala of oft og ógætilega.
Væri ég beðinn um eitt gott hollráð fyrir þingmenn og ráðherra Framsóknarflokksins, ekki síst formann flokksins og forsætisráðherrann, væri svarið þetta: Þögn er góð meginregla fyrir stjórnmálamenn. Hættið að gefa yfirlýsingar í fjölmiðlum. Gefið almenningi frí frá stjórnmálunum og látið verkin tala.
Þegar nánar er að gáð fara fæstir stjórnmálamenn eftir þessu ráði. Sjáið og hlustið á formann Samfylkingarinnar sem hefur þann hæfileika að geta talað hugsunarlaus. Formaður Vinstri grænna er þeim kostum búin að hún getur talað endalaust um aðildarumsókn að Evrópusambandinu án þess að greina frá eigin skoðun eða flokksins síns.
Heimur versnandi fer.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.