Er kominn tími á breytingar í Seðlabankanum?
19.2.2014 | 09:00
Er nokkur ástæða til að gera breytingar á yfirstjórn Seðlabankans? Þessu kunna ýmsir að velta fyrir sér og einnig hvort bankinn hafi barasta ekki staðið sig bærilega í efnahagslegum ólgusjó síðustu fjögur árin.
Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, svarar þessu í ágætri grein í Morgunblaðinu í morgun og telur upp örfá atriði:
- Sala meirihluta í Sjóvá með tapi. Tilraun til að fela raunverulegt tap hans.
- Framkvæmd fjármálahafta. Innlendir fjárfestar sitja ekki við sama borð og erlendir eða íslenskir fjárfestar sem eiga erlent fé. Þeir síðarnefndu fá 20% forskot. Eftirlit með höftunum hefur vakið upp efasemdir um að jafnræðis sé gætt og kærum Seðlabankans vegna meintra brota hefur verið vísað frá.
- Peningastefna Seðlabankans sætir einnig stöðugt meiri gagnrýni enda eiga margir erfitt með að skilja hávaxtastefnu bankans með krónu í höftum og litla fjárfestingu.
- En hörðust hefur gagnrýnin á Seðlabankann verið vegna þess hlutverks sem forráðamenn bankans ákváðu að leika í Icesave-deilunni. Þá fór hnífurinn vart á milli bankans og vinstriríkisstjórnarinnar í viðleitninni við að koma Icesave-skuldum Landsbankans yfir að herðar íslensks almennings.
Þetta eru nú talsverða ávirðingar á stjórn Seðlabankans og telja margir, meðal annars Óli Björn Kárason, að kominn sé tími til að ráða nýjan bankastjóra.
Því til viðbótar sem Óli Björn nefni má telja upp ýmislegt annað eins og til dæmi afstöðu Seðlabankans vegna gengislánadóma Hæstaréttar í júní og september 2010. Þá tók bankinn eindregna afstöðu með bönkum og fjármagnsfyrirtækjum gegn hagsmunum skuldara. Hann mælti með því að lög yrðu sett um vexti á öll í stað gengistryggingarinnar. Þetta fannst honum þjóðráð enda gætu fjármálafyrirtækin illa þrifist eftir dóminn. Sem sagt, Hæstiréttur dæmdi lánasamninga ólöglega og í stað þess að hlíta því var með lögum settir vextir í alla gengislánasmaninga. Hagsmunir almennings voru þannig fyrir borð bornir og bankarnir settir í jafngóða ef ekki betri aðstöðu eftir dóminn, því síðasta ríkisstjórnin setti lög um málið og eru af endemum sínum kölluð Árna-Páls-lögin.
Vandamálið með Seðlabanka Íslands eru allir heimsendaspádómarnir sem hingað til hafa ekki gengið upp, s.s. Icesave og gengislánadómurinn. Steingrímur J. Sigfússon, allsherjarmálaráðherra vinstri stjórnarinnar sálugu (blessuð sé brottför hennar) þurfti aðeins að hósta hljóðlega til að Seðlabanki Íslands vaknaði af værum blundi og hrópaði í svefnrofanum: Úlfur úlfur, eða allir út að ausa. Fátt eitt gekk þó eftir af spám bankans þó hann telji sig hafa miðilshæfileika.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:40 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.