Eru einhver álitamál pólitík höfuðborgarinnar?
19.1.2014 | 12:57
Hver eru ágreiningsefnin í borgarstjórn Reykjavíkur? Eru þau ekki til? Snúast þau bara um Hofsvallagötu? Eru engin álitamál í málefnum höfuðborgarinnar önnur en þau hvar byggja eigi næsta hótel í miðbænum?
Þetta segir Styrmir Gunnarsson í stuttum pistli á Evrópuvaktinni í dag. Hann nefnir hótelbyggingar, vanda leigjenda, fátækt og spyr hvað borgarstjórn ætli að gera í þeim.
Fyrsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík lætur sér sæma að gera tillögu um akbraut yfir Skerjafjörð sem fer rakleiðis yfir Gálgahraun. Það ber ekki skynsamleg stefna að efna til framhaldsátaka á því svæði. Raunar væri áhugavert að fræðast eitthvað um afstöðu mannsins í umhverfis- og náttúruvernd.
Hitt er svo annað mál að framboðslisti Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar þarf að marka sér ákveðna stöðu og í framhaldi af því kynna hana af afli. Kosturinn við listann er örugglega sá að þarna hefur komið saman hópur fólks sem vinnur af samstöðu og dugnaði að framboði sínu.
Núverandi meirihluti í borgarstjórn hefur komist upp með að vinna það sem þeim hefur sýnst án nokkurrar gagnrýni. Hann hefur forðast samskipti við borgarbúa og látið þau embættismönnum eftir.
Eflaust bíða margir eftir stefnu Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Víst er þó að fjöldi borgarbúa hefur gefist upp á stjórnmálaflokkunum og þar af leiðandi þarf mikið að gerast til að vekja athygli þeirra.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.