Rassbagan -valkostur-
17.1.2014 | 09:43
Allir skilja sögnina 'að velja' og hvað hún merkir. Nafnorðið 'kostur' getur haft svipaða merkingu sé það ekki skilið sem matur eða nesti. Margir geta valið um tvo eða fleiri kosti í lífi sínu en að segja að í boði séu valkostir er dálítið mikið af því góða. Rétt eins og að segjast ætla að ganga fargötu eða skrifa á skrifblað.
Afar auðvelt er að taka sér tak, hætta að reykja, drekka og segja 'valkostur' ... nema að rétt sé sem sagt er að ekki sé hægt að strengja nein heit nema um áramóti.
Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er að ég fékk villu fyrir þetta orðskrípi í ritgerðasmíð í MR. Ég man þetta eins og það hefi gerst í gær að Ólafur Oddsson, íslenskukennari, benti mér á þetta ... eða var það Ólafur M. Ólafson ... hmmm. Má vera að það hafi verið einhver annar.
Hvað sem því líður er íslenskan uppfull af rassbögum eins og faðir minn heitinn orðaði það stundum eða var það afi eða einhver annar ...
Þetta datt mér í hug er ég las Moggann minn í morgun. Segi ekki hver átti fyrirsögnina: Tími skýrra valkosta runninn upp. Hún er einfaldlega of vandræðaleg fyrir þann sem á hlut að máli.
Sá sem þetta sagði hefði allt eins getað orða hugsun sína á annan hátt og til dæmis sagt:
Fleiri kostir eru í boði er þetta bölvaða drullumakerí sem vinstri flokkarnir í borgarstjórn hafa staðið fyrir.
.... en líklega er það of langt.
Nú segir lesandinn ábyggilega að upprunaleg fyrirsögn sé betri, allir skilja hugsunina. Nema auðvitað ég sem átta mig ekki á því hvort tími óskýrra 'valkosta' sé liðinn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:48 | Facebook
Athugasemdir
Sigurður, það er stafsetningarvilla í nafni Ólafs M. Ólafssonar. Þú hefðir verið krossfestur fyrir þetta!
Ég var í MR líka og man vel eftir því hvað sumum íslenskukennurum þar var uppsigað við orðið „valkost". Þeir eyddu óhemju tíma í svona hluti, hluti sem oft voru álitamál en ekki spurning um rétt eða rangt. Tungumál breytast, íslenskan er ekki undanskilin því, og orð eru ekki alltaf fullkomlega rökrétt. Svo þegar maður kom í háskóla kom í ljós að þessir meistarar, sem mér er hlýtt til, höfðu ekki kennt manni ýmis grunnatriði, eins og t.d. hvað lykilsetning [thesis) er.
Wilhelm Emilsson, 17.1.2014 kl. 21:01
Sannar bara eitt, Wilhelm. Maður er alltaf sami tossinn.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 17.1.2014 kl. 21:33
Heh heh. Ef ég man rétt sagði Pétur Gunnarsson að í MR hafi ritgerðunum hans verið „drekkt í rauðu".
Wilhelm Emilsson, 17.1.2014 kl. 22:06
Líklega er það huggun í mínum harmi að fleiri hafi fengið álíka útreið sem ég. Hins vegar sögðu Ólafarnir báðir að ritgerðirnar væru svo sem góðar en stafsetningin ... Eftir að ég komst til, tja, segjum vits, og líka ára, hef ég aldrei getað skilið samhengið á milli ritgerðasmíða og stafsetningar. Vond ritgerð verður aldrei góð vegna stafsetningar. Annars þótti mér alltaf verulega varið í þá báða, sérstaklega Ólaf Oddsson, hann kenndi mér mikið.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 17.1.2014 kl. 22:30
Takk fyrir skemmtilega athugasemd. Maður á fullt af góðum--og líka nokkrum pínlegum!--minningum frá árunum í MR.
Wilhelm Emilsson, 18.1.2014 kl. 22:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.