Almenningur tapaði alla tíð á einokun Ríkisútvarpsins
27.12.2013 | 16:10
Ég vaknaði við rödd Péturs Péturssonar og Jóns Múla Árnasonar í morgunútvarpinu, fylgdist með morgunleikfimi Valdimars Örnólfssonar svo ekki sé talað um barnatíma Skeggja Ásbjarnarsonar. Í gegnum Ríkisútvarpið kynntist ég m.a. Gunnari Gunnarssyni, Jóni Trausta og Halldóri Laxness. Á kvöldin hlýddi ég á þjóðlegan fróðleik á kvöldvökum, fylgdist með útvarpsleikritum og missti aldrei af Sunnudagskvöldi með Svavari Gests.
Þetta segir Ragnheiður Davíðsdóttir í grein í Fréttablaði dagsins. Hún mærir Ríkisútvarpið óhóflega mikið, lætur eins og það hafi verið upphaf og endir allrar menningar í landinu. Við erum á svipuðum aldri en þegar ég komst til vits fannst mér Ríkisútvarpið ekki svo merkilegt sem Ragnheiður lætur. Síðar uppgötvaði ég hvers vegna. Staðreyndin er einfaldlega sú að ein útvarpsrás getur aldrei fullnægt áhugamálum allra. Hún er aðeins ein rödd, byggð upp af örfáum mönnum sem töldu sig hafa höndlað þá visku sem þjóðinni dygði. Hún varð því aðeins meðalmennskan uppmáluð og síst af öllu menningarstarf.
Ríkisútvarpið var einokunarstofnun sem mataði landslýð á því sem starfsmenn hennar töldu rétt. Þeirra var valdið og óskeikull rétturinn. Á æskuárum mínum var dægurtónlist ekki leikin í útvarpinu nema í sérstökum þáttum sem voru í tæpan klukkutíma á dag einu sinni eða tvisvar í viku. Þeir hétu Lög unga fólksins og Óskalög sjómanna eða sjúklinga. Hlustendur áttu ekkert val um annað en að hlusta eða slökkva á íslenskri nútímatónlist eftir Atla Heimi eða Þorkel Sigurbjörnsson.
Ég þurfti ekki Ríkisútvarpið til að kynnast bókmenntum þjóðarinnar. Þær voru meira eða minna til á æskuheimilinu. Mér nægði að hlusta á foreldra mína eða afa minn segja frá til að kynnast þjóðlegum fróðleik og bækur um slíkt voru á heimilinu og mikið lesnar.
Ríkisútvarpið er ekkert annað en fólkið sem vinnur þar. Nú hefur verið vegið illa að þessum heimilisvini þjóðarinnar sem hefur ekki lengur burði til þess að færa okkur ómetanlegar gjafir sínar.
Þetta segir Ragnheiður Davíðsdóttir í grein sinni rétt eins og fólk sem tekur til starfa hjá Ríkisútvarpinu verði um leið snarheilagt og viska þeirra aukist margfalt. Maður veit ekki hvort þetta er háð hjá Ragnheiði eða hún raunverulega meini það sem hún ritar.
Einokun er aldrei af hinu góða, skiptir engu hvort ríkið standi að henni eða einstaklingar eða fyrirtæki. Sá sem tapar er neytandinn, almenningur í landinu. Samkeppni er hrundið og þess vegna varð Ríkisútvarpið meðalmennskunni að bráð. Dagskráin sem átti að vera fyrir alla varð að ólystugri blöndu sem litlu skilaði en var engu að síður troðið upp á landsmenn, hvort sem þeir vildu eða ekki. Ekkert annað var í boði og því var fólk þakklátt fyrir að minnsta kosti fréttir og veður.
Einokun Ríkisútvarpsins var hins vegar algjört hryðjuverk gagnvart íslenskri þjóðarsál, svo gripið sé til orðalags Ragnheiðar Davíðsdóttur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.