Moggin með safaríka fréttaskýringu um kröfuhafa bankanna
12.12.2013 | 11:57
Fyrir leikmenn er fréttaskýring Harðar Ægissonar, blaðamanns Morgunblaðsins í blaði dagsins, afar upplýsandi og raunar magnaður lestur. Þarna sést hversu ósvífinn fjármálabransinn er og hvílíkar fjármuni um er að ræða.
Þeir meta stöðuna þannig að þeir séu dálítið að missa tök á atburðarásinni, segir einn viðmælandi blaðsins. Fulltrúar kröfuhafa hafi misreiknað þá stöðu sem kæmi upp með stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Þeir héldu að þrátt fyrir allt þá yrði auðveldara að setjast niður með slíkri ríkisstjórn og ná einhvers konar samkomulagi. Það hefur ekki gengið eftir.
Það hefur vakið undrun almennings hversu lengi slit bankanna hefur tekið og margir velta því fyrir sér hvenær þetta klárast. Sumir héldu því fram að kröfuhafarnir hafi reynt að þreyja þorrann og bíða eftir nýrri ríkisstjórn í þeirri von að hún myndi skilyrðislaust afnema gjaldeyrishöftin. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra sagði einfaldlega að það væri ekki ríkið sem skuldaði kröfuhöfum neitt og þar af leiðandi væri ekki von á neinum viðræðum við þá. Snöfurmannlega sagt hjá Bjarna.
Í fréttaskýringunni er getið um það sem viðbúið er að gert væri ef slitastjórnir og kröfuhafar fallist ekki á nauðsamninga. Þetta er verulega athyglisvert:
Búin tekin til gjaldþrotaskipta í samræmi við íslensk lög. Kröfuhafar missa allt forræði yfir þeim í gegnum slitastjórnirnar og skipaður verður skiptastjóri. Allar erlendar eignir og gjaldeyrir sem búin eiga í reiðufé seldur í gegnum íslenskan gjaldeyrismarkað í skiptum fyrir krónur. Seðlabankinn eignast umtalsverðan óskuldsettan gjaldeyrisforða en um leið margfaldast krónur í eigu erlendra aðila sem eru fastar á bak við höft.
Ofangreint hræðast kröfuhafar og eru án efa tilbúnir til samninga frekar en að lenda í þessum ósköpum. Vandinn er hins vegar eins og segir í fyrri tilvitnuninni: Þeir meta stöðuna þannig að þeir séu dálítið að missa tök á atburðarásinni.
í upphafi fréttaskýringarinnar segir frá því að þann 26. september 2012 hafi efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis boðað til fundar um framkvæmd gjaldeyrishafta:
Á fundinn mættu meðal annars slitastjórnir föllnu bankanna ásamt lögmönnum og ráðgjöfum erlendra kröfuhafa samtals ellefu manns. Allt stórskotaliðið var ræst út, segir heimildarmaður Morgunblaðsins sem sat nefndarfundinn.
Þetta var líklega stundin sem allir kröfuhafar héldu að nú yrði allt breytt og þeir fengu sínu framgengið með hagstæðum nauðasamningum. Þeir ætluðu að ganga frá málunum í lok þessa árs. Þá gerist þetta sem segir í fréttaskýringunni á svo dramatískan hátt:
Eftir að slitastjórnir og fulltrúar kröfuhafa höfðu fundað með nefndinni í nærri klukkutíma, ásamt öðrum sem voru boðaðir á fundinn, óskaði Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, eftir því að fá að sitja einn með nefndinni í tíu mínútur. Hann var ómyrkur í máli. Skilaboð hans, rifjar þingmaður upp sem sat nefndarfundinn, voru skýr: Þið látið ekki þessa menn komast upp með að fara á brott með gjaldeyrisforða þjóðarinnar.
Hvað svo sem átti að vera niðurstaða fundarins þá breyttist allt, líklega vegna einræðu forstjóra Bankasýslunnar.
Hvað sem gerist á næstunni er ekki vitað. Ljóst má þó vera að kröfuhafar munu halda áfram að suða í stjórnvöldum og almannatengslamenn þeirra reyna að spilla þeirri samningsaðstöðu sem ríkisvaldið hefur komið upp. Spurningin er aðeins sú hvort að stjórnvöld, þing og ríkisstjórn hafi bein í nefinu, geti unnið að málinu og lokið því á farsælan hátt fyrir þjóðina eins og segir í niðurlagi fréttaskýringarinnar:
Háttsettur embættismaður í stjórnkerfinu segir hins vegar í samtali við Morgunblaðið að rétt sé að hafa í huga að kröfuhafar eigi aðeins kröfur í íslenskum krónum, með engan gjalddaga og bera enga vexti. Staða þeirra er því ekki sterk. Haldi Seðlabankinn og stjórnvöld rétt á spilunum er ekki ástæða til annars en að þetta risavaxna mál verði leyst á farsælan hátt fyrir Ísland.
Herra Ísland ræður ferðinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er gott að sjá að við eru farnir að skilja peningakerfið.
Alls ekki losa höftin, og muna að bankarnir lánuðu aldrei neitt.
Síðan náðu þeir eignum fólksins með KREPPUFLÉTTUNNI.
http://jonasg-egi.blog.is/blog/jonasg-egi/
Egilsstaðir, 13.12.2013 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 13.12.2013 kl. 10:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.