Tveir skýrir kostir ...
27.11.2013 | 10:13
Þegar valið stendur á milli þess að eiga ríkisbanka eða auka möguleika ríkisins til að standa undir öflugu velferðar- og menntakerfi, er auðvelt að komast að niðurstöðu. Mikill meirihluti landsmanna mun styðja slíkt. Með sama hætti og landsmenn munu styðja sölu á Isavia og helmingshlut í Landsvirkjun til lífeyrissjóðanna sem dæmi séu nefnd.
Þetta segir Óli Björn Kárason, varaþingamaður Sjálfstæðisflokksins, í grein í Morgunblaðinu í morgun. Hann ræðir þá kosti sem þjóðin stendur frammi fyrir og kemst að þeirri niðurstöð að valið stendur á milli tveggja kosta (framsetningin er mín):
- Við getum ákveðið að hefja umfangsmikla sölu eigna ríkisins og greitt niður skuldir, lækkað þar með vaxtagreiðslur og nýtt fjármunina sem sparast til að byggja upp heilbrigðis- og menntakerfið og lækkað skatta.
- Eða: Við getum tekið ákvörðun um að eiga áfram fyrirtæki, fasteignir, jarðir og fleira, reynt að tryggja hallalausan rekstur ríkissjóðs, sætt okkur við gríðarlegar vaxtagreiðslur en vonast til að hægt verði að lækka skuldir hægt og bítandi. Þar með erum við sammála um að skattar verði hærri en ella, ekki verði hægt að reisa heilbrigðiskerfið við með þeim hætti sem við teljum nauðsynlegt og að möguleikar til sóknar í menntamálum verði takmarkaðir.
Kostirnir eru ekki góðir og varla möguleiki á að þriðji kosturinn leynist einhvers staðar. Því er hægt að spara sér pólitískar yfirlýsingar og einhenda sér í þau mál sem skipta öllu fyrir framtíð þjóðarinnar, leysa úr skuldamálunum og lækka vaxtagreiðslur.
Hvers vegna verður að gera þetta? Jú, Óli Björn bendir á hrikalega stöðu ríkissjóðs:
- Heildarskuldir ríkissjóðs eru 1.932 þúsund milljarðar króna, jafngildi 24 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu.
- Vaxtagjöld ríkissjóð voru 86 milljarðar króna á síðasta ári, jafngildi ein milljón á hverja fjögurra manna fjölskyldu.
- Frá árinu 2008 hafa verið greiddar 494 milljarðar krónur í vexti, þ.e. sex milljónir króna á hverja fjölskyldu.
Þetta eru sláandi tölur og eins og Óli Björn bendir á. Hann leggur til að ríkisstjórnin taki saman hvítbók:
Á komandi mánuðum er mikilvægt að fram fari hreinskiptin umræða um stöðu ríkissjóðs og hvernig hægt er að lækka skuldir og draga þar með úr lamandi vaxtagreiðslum.Ein forsenda þess er að ríkisstjórnin láti taka saman sérstaka hvítbók um lækkun skulda ríkisins. Þar er nauðsynlegt að bera saman þá kosti sem Íslendingar standa frammi fyrir og bent var á hér að ofan. En einnig þarf að fylgja með ítarleg úttekt á þeim fyrirtækjum og öðrum eignum sem til greina kemur að selja.
Þessu er ég sammála enda gjörsamlega vonlaust að takast á við skuldir og vaxtagreiðslur ríkissjóðs á annan hátt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.