Hel og víti eru nánast út um allt land ...

Heljar„Ferðu til helv…“, getur stundum hrokkið út úr þeim sem við annan deilir. Það er ekki fallega sagt. Engu að síður er leiðin þangað sögð bein og greið, en á móti kemur að þar mun vistin flestum vera ill nema innrætið sé þeim mun verra.
 
Grundarfjörður
Hvaðan kemur svo þetta „hel“ eða „víti“ sem hefð er fyrir að tvinna saman í eitt orð og lengi vel var haft yfir það hræðilegasta sem sannkristinn maður gat hugsað sér.
 
Undirheimar 
 
Jú, hún hét Hel sem áður réði fyrir þeim vonda dvalarstað er kallaðir voru undirheimar. Stundum voru þeir kallað Hel, hugsanlega eftir forstöðukonunni. Eftir því sem segir í fornri goðafræði var hún að hálfu blá og víst ekki geðug frekar en sá sem síðar er sagður hafa tekið þar við búforráðum. Þá var líka nafni staðarins breytt í Helvíti af því að straffið þurfti að koma vel fram í nafninu, kristnum til varnaðar.
 
Hornbjarg
Hjá Hel voru þeir sagðir vistast sem ekki dóu í bardaga. Hinir fóru til Valhallar og áttu þar eilífa sæluvist meðal Einherja í margvíslegri karlmannlegri skemmtan, svo sem bardaga, drykkju, áti öðru annað álíka.
 
Í Hel var vistin slæm og forstöðukonan tók starf sitt alvarlega. Hjá henni var salur einn mikill er nefndar var „Eljúðnir“. Hún snæddi af disk sem kallaðist „Hungur“ og hnífur hennar nefnist „Sultur“.  Henni til þjónustu var ambáttin „Ganglöt“ og þrællinn „Ganglati“. Rúm hennar kallast „Kör“ og vill enginn leggjast í það, jafnvel enn þann dag í dag og enn síður ef rúmnauturinn heitir Hel.
 
Heljarstaðir 
 
Heljarmýri
Af þessu má ráða að ekkert jákvætt var við Hel og því ekki furða þótt nafnið festist á þá staði sem þóttu með afbrigðum slæmir umferðar. Þeir finnast um allt land. Sumir virðast afar meinlausir en aðrir hrópa nánast á vegfarendur að halda sig fjarri. Þetta gætu verið staðir eins og Heljardalsheiði, Heljarfjall eða Heljarfjöll, Heljargnípa eða jafnvel Helkunduheiði.
 
Á heljarslóðum þótti hættulegt að fara. Þokan villti mönnum sýn, veður voru einatt vond og vofur og óvættir gátu sprottið upp úr landinu og þeir þrifust á illvirkjum enda áttu þeir ættir að rekja til heljar …
 
30 Hel og vítis staðir
 
Áður en lengra er haldið er hér listi yfir þá staði á landinu sem bera nafnið „Hel“ sem forlið og til að yfirlitið verði enn meira er getið um örfáa staði sem bera nafnið „Víti“, eitt sér eða með öðru.
 
Listinn er ábyggilega ekki tæmandi og varla eru allir staðir sem standa undir nafninu en munum að þetta er aðeins gert til skemmtunar. 
  1. Heljarkinn, hólar suðaustan við Viðeyjarstofu
  2. Heljarkinn sunnan í Þúfufjalli við norðanverðan Hvalfjörð
  3. Helgrindur, nes sunnan við Akra á Mýrum
  4. Heljarkinn, hlíðin norðvestan í Stapafell, suðaustan við Snæfellsjökul
  5. Helgrindur,  fjöllin ofan við Grundarfjörð að suðvestan
  6. Heljarmýri, landspilda á Þórsnesi, sunnan Stykkishólms, við Nesvog
  7. Heljarmýri, á Skógarströnd, norðan Straumsfjalls, ekki langt frá Álftafirði og Stykkishólmi
  8. Heljargil, í Skorarhlíðum sem eru austan Rauðasands
  9. Heljarurð, fremst á Þernuvíkurhálsi við Ísafjarðardjúp
  10. Heljarurð, norðaustan í Hælavíkurkambi
  11. Heljarsíki, í Víðidal við Víðidalsá, skammt norðaustan við Víðigerði
  12. Heljarsíki, sunnan við Hóp, austan við ósa Víðidalsár.
  13. Heljardalshnjúkur, 660 m og Heljardalur eru skammt norðan Vatnsskarðs í Austur-Húnavatnssýslu
  14. Heljardalsheiði er á milli Svarfaðardals og Heljardals, skammt norðan við Hóla í Hjaltadal. Við heiðina eru fjölmörg önnur heljar-nöfn: Heljarskál, Heljarfjall, Heljará og Heljarbrekkur.
  15. Heljarskál í norðvestanverðu Landafjalla við Öxnadal
  16. Víti er nafn á gíg við Kröflu og þar við er Vítismót
  17. Litlavíti og Stóravíti eru nöfn á gígum sunnan Þeystareykjabungu.
  18. Helkunduheiði er á milli Finnafjarðar og Þistilfjarðar, sunnar en Brekknaheiði
  19. Heljardalsfjöll eru austnorðaustan við Mývatn. Þar er Heljardalur, Heljardalsá, og Heljardalseyrar
  20. Heljardalsfjall og Heljardalur eru rétt við þar sem gamli þjóðvegurinn lá yfir Möðrudalsfjallgarð.
  21. Víti er stór sprengigígur í Öskju.
  22. Heljará er við norðanverða Fáskrúðsfjörð og rennur í hann ofan úr Kerlingarfjalli.
  23. Víti og Vítisbrekkur eru innst inni í Laxárdal í Hornafirði, norðan við Höfn.
  24. Heljargnípa er sker í Öræfajökli, norðvestan við Breiðamerkurfjall.
  25. Heljarkambsgljúfur er við Skaftá, norðaustan í Granahaugi í Skaftártungu
  26. Heljargjá er löng sprunga sem gengur í gengum Gjáfjöll en þau eru vestan við Tungnárjökul og Jökulheima. Þar er einnig að finna örnefnið Helgrindur.
  27. Heljarkambur er á milli Fimmvörðuháls og Morinsheiðar.
  28. Heljarkinn er fjall norðvestan við Þjórsárdal, vestan við Fossárdal
  29. Heljarkinn er suðaustan í Kotsfjalli, ekki langt austan við Geysi í Haukadal.
  30. Heljarbrú er í Básagili, suðvestan við Bjarnafell sem er skammt frá Geysi í Haukadal
Ekki er um auðugan garð að gresja í þessu öllu. Heljarkinnarnar eru fjórar, tvær eru Helgrindur og einnig eru tvær Heljarmýrar, einnig síkin, urðirnar og svo eru Vítin þrjú og til viðbótar eitt af hvoru, Stóra- og Litlavíti.
 
Heljarkambur 
 
5VH
Flestir þekkja Heljarkamb. Hann  þótti forðum daga mikill og hræðilegur farartálmi á leiðinni yfir Fimmvörðuháls. Í bók Þórðar Tómassonar um Þórsmörk segir að fé hafi verið rekið yfir Hálsinn. Eftirsóknarvert var að komast með sauðfé í hið góða Goðalandi þar sem hagar voru miklir og smjör draup af hverju strái. Til mikils var að vinna að geta alið fé á slíkum slóðum og fá það heim feitt og sællegt. Fimmvörðuháls og Heljarkambur voru hættulegir farartálmar og enginn leikur að fara þar um og sögur eru um hrakninga fjárrekstrarmanna. Þannig er það enn í dag. Á Hálsinum er enn allra veðra von og illt að villast þar. Og enn í dag hræðast margir Heljarkamb.
 
Nafnið eitt ber með sér hættu á hræðilegum afdrifum ef eitthvað bregður út af. Sitjandi í örygginu heima í stofu veltir maður því fyrir sér hvort fleiri örnefni á landinu beri með sér svo óttablandið nafn eins og Hel, forlið vítis.
 
Hrollkaldir staðir
 
Hugsanlega stendur mönnum enginn ótti af Heljarmýri, Heljarkinn eða Heljará. En svona nöfn kom ekki fyrir misskilning, það eitt er víst.
 
Heljardalsheiði þekkja margir en hún er á Tröllaskaga, liggur á milli Svarfaðardals og Heljardals, sem er innan af Kolbeinsdal, ekki langt frá Hólum í Hjaltadal. Þó heiðin nái upp í 865 m hæð var hún forðum daga fjölfarin en þar gerðust slys, fólk varð úti og týndist. 
 
Heljardalsfjöll eru upp frá Þistilfirði, raunar afar fjarri allri byggð og vegum. Þar eru sögur um að fólk hafi búið meðal annars meðan svartidauði geisaði. 
 
Helkunduheiði er innaf Lónafirði sem er innst í Þistilfirði og Bakkafirði þar fyrir sunnan. Þetta er blaut heiði og þokusæl en ekki veit ég hvaðan nafnið kemur. Það ber hins vegar með sér ógn.
 
Heljargjá er vestan Vatnajökuls, ekki langt frá Jökulheimum og sporði Tungnárjökuls. Þar er eyðilegt um að litast og land allt mótað af eldsumbrotum, landið sprungið og hrikalegt. Heljargjá er talin hluti af eldstöðvarkerfi Bárðarbungu og hugsanlegt er talið að þar hafi hraun átt upptök sín sem rann allt til sjávar milli Ölfusár og Þjórsár. Gjáin er talin vera um þrjátíu km löng, þó ekki djúp, yfirleitt um tíu metrar en getur þó verið um eitthundrað metrar.
 
Ofangreindir staðir eru áhugaverði þó ekki sé annars en vegna nafnsins. Tímarnir hafa þó breyst og það sem áður fyrr vakti ótta vegna umhverfis og aldarháttar er allt annað í dag. Hins vegar er þarf að umgangast landið með varúð. Veður geta breyst snögglega til hins verra og því er betra að vera vel undirbúinn fyrir útvist.
 
Myndirnar
Auðvitað á maður ekki myndir á lager af öllum þeim heljarins stöðum sem hér hafa verið taldir upp. Við stutta leit fann ég þessar fjórar myndir:
  • Efsta myndin er af Grundarfirði og þar fyrir ofan er hinn mikilúðlegi fjallaklasi Helgrindur, nr. 6 á kortinu.
  • Þá er mynd af Hælavíkurbjargi og utarlega í því á þessari mynd er skriðan sem nefnd er Heljarurð, hún er nr. 10 á kortinu.
  • Á næstu mynd er útsýni yfir eyjar á Breiðafirði. Ég held að Heljarmýri sem landið sem er næst sjónum á þessari mynd, nr. 7 á kortinu.
  • Loks er mynd af Heljarkambi, nr. 27 á kortinu. 
Gaman væri nú ef einhver gæti bætt fróðleik í pistilinn. Því myndi ég fagna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband