Tvær myndir sem reyndust ekkert líkar
14.9.2013 | 17:27
Ég er dálítill skýjaglópur ...hef gaman af því að taka myndir af sérkennilegum skýjamyndunum. Þegar ég bjó úti á landi var ég yfirleitt með myndavél í bílnum og því hæg heimatökin, ef svo má segja, að ná augnablikinu. Nú er maður sjaldnast með myndavélina meðferðist og því fara mörg augnablikin forgörðum.
Ómar Ragnarsson birti á bloggi sínu skemmtilega mynd af skýjamyndun við norðanverðan Vatnajökul. Hann segir þetta vera ... rotorský (snúðský?) með gríðarlegum hringsnúningi lofts og uppstreymi ... Þessi mynd er hérna til vinstri.
Hún minnti mig sterkt á mynd sem ég tók í Hornvík fyrir tuttugu og þremur árum. Sú var tekin á filmu og því get ég ekki flett upp á hvenær sólarhringsins hún hafi verið tekin. Ég var fararstjóri í gönguferð um Hornstrandir og við byrjuðum 4. júlí í Aðalvík og vorum líklega komin fjórum eða fimm dögum síðar í Hornvík. Mig minnir að myndin hafi verið tekin um kvöld, rétt eftir miðnætti.
Svo kemur í ljós að myndirnar eru ekkert líkar því engan sé ég rótor snúninginn á Hornvíkurmyndinni. Svona svíkur minnið mann. Ég gat þó ekki látið vera að sleppa því að birta þessar tvær myndir.
Hins vegar ... finnst mér skýin á myndinni minni alveg einstaklega falleg, gætu verið lógó fyrir heimsmeistarakeppnina í handbolta eða frjálsar íþróttir. En hvernig ský af þessu tagi myndast hef ég ekki hugmynd um. Hitt man ég þó glöggt að veður var gott þessa daga.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.