Grjóthrúgur í algjöru tilgangsleysi
12.9.2013 | 08:40
Vörðurnar hjá áningarstaðnum við Þingvallaveg eru bara dálítið flottar eins og sjá má (smellið nokkrum sinnum á myndina og stækkið). Held þó að þessi siður hafi orðið til þegar ferðamenn sáu Laufskálavörður og halda að það sé einhver siður að hlaða þær og helst setja einhver orð á blað og koma fyrir í þeim.
Gamall og góður siður er að setja stein í vörðu og sagt var að það væri til fararheilla. Engum datt í hug að tugþúsundir ferðamanna, og í ofanálag útlendir rútuferðamenn, myndu rífa upp allt lauslegt grjót í kringum Beinakerlingu á Bláfellshálsi og henda í hrúgu. Grjóthrúga getur aldrei verið varða en varða getur orðið að grjóthrúgu. Raunar er umhverfi kerlingarinnar grátbroslegt
Öllu má nú ofgera og þegar ferðamenn eru komnir nærri einni milljón á ári og stór hluti þeirra druslast á einhvern hátt út um þjóðvegi getur verið að einhverjir þeirri haldi að grjót sé öllum frjálst til afnota og helst til mislukkaðrar mannvirkjagerðar sér til fararheilla. Þvílíkur misskilningur hjá þeim.
Ég held að öllum sé hollt að minnast þess að vörður eru vegvísar, margar þeirra eru afar gamlar og í raun ekkert annað en fornminjar og margar skráðar sem slíkar. Höfuð þetta hugfast og hvetjum ekki til slíkrar steinaldar sem útlendir ferðamenn hafa gerst sekir um. Ekki búa til gangslausar hefðir.
Jú, litlu vörðurnar virðast flottar við fyrstu sýn, en eru algjörlega úr takti við íslenskar hefðir. Þar að auki er bölvað landrask af þeim. Er ekki betra að afhenda ferðamönnum poka með nokkrum lúpínufræjum og biðja þá um að koma fyrir á þar sem ekki finnst stingandi strá. Jæja ... eða að fá þeim í hendur tré og biðja þá um að gróðursetja t.d. við áningarstaði. Þar með væri eitthvað gagn gert.
Vörður við veginn varða engan veg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Sigurður
Þessar grjóthrúgur hist og pist um allt eru, að mínu mati, náttúruspjöll. Ég er nýfluttur til landsins eftir nokkra dvöl erlendis og tók til starfa innan ferðaþjónustunnar nú nýlega. Meðal þess sem ég geri er að leiðsegja erlendum ferðamönnum. Þegar ég, fyrir nokkrum vikum, kom að þessu tjéða svæði var mér hálf hverft við; hvernig í ösköpunum byrjaði þetta og af hverju heldur þetta áfram ? Er virkilega enginn sem tekur á sig rögg og upplýsir fólk um það hverslags skekkja þessar grjóthrúgur eru ? Ég gerði það við mitt fólk og var svo grófur að segja að þetta væru hrein og bein náttúruspjöll...
Mér líst líka vel á hugmyndina með lúpínufræin, þó að þau eigi kannski ekki við á ofannefndum stað, en vissulega gætu þau komið að góðum notum víða.
Kveðja
Steinmar
Steinmar Gunnarsson, 12.9.2013 kl. 08:57
Það er einhver andsk... árátta hjá fólki að þurfa endilega að setja mark sitt á staðinn þar sem það stoppar hverju sinni, svona rétt eins og hundar sem þurfa að míga utan í hvern staur, bíl eða annað sem á vegi þeirra verður. Meðfram vegarslóðum á hálendinu er þetta hrein plága þar sem fólk og þá sérstaklega erlendir ferðamenn hafa hlaðið upp nokkrum steinum þar sem þeim hefur orðið á að stoppa. Þetta kalla ég náttúru-veggjakrot og skora ég á alla sem um véla að stöðva fólk þegar sést til þess að hlaða þessum "ég var hér" hrúgum út um allar trissur. Sjálfur legg ég það á mig að stoppa við svona hrúgur og jafnvel ganga töluverðar vegalengdir til að sparka þeim um koll og dreifa þannig að ummerkin sjáist ekki. Hef ég t.d. sérstakt dálæti á því að ganga brúnir Hverfjalls síðsumars og sparka um öllum þeim steinahrúgum sem sumargestir hafa komið þar upp. Reyndar eru nokkur ár síðan ég fór þar síðast um í þessum tilgangi.
corvus corax, 12.9.2013 kl. 10:40
Sæll Sigurður, almennt á þessi athugasemd þín rétt á sér, en þó verð ég að segja að varðan stóra á Bláfellshálsi er núna hluti af athafnasögu Íslendinga í amk. áratugi, sérstaklega þegar hún tók að stækka með ferðunum í Skíðaskólann í Kerlingarfjöllum á 7. og 8.áratugnum, enda stoppuðu rúturnar þarna. Hvert grjót í þessa vörðu er sett þangað af ferðalangi, sem gerir þetta skemmtilegt. Ég var þarna á ferð í sumar og sagði sögu vörðunnar og samferðafólki mínu þótti gaman að þessu. Miklu betra en að hafa enga svona sögulega vörðu, sem sést mjög langt að.
Ívar Pálsson, 12.9.2013 kl. 12:26
Ég man eftir Beinakerlingunni þegar hún var slank og þokkaleg á þeim tíma sem þú nefnir. Þó var húna neitt augnayndi, en sjarminn var fólginn í sögunni. Tek fyllilega undir það.
Núna finnst mér nærri því hlægilegt að sjá umhverfi hennar. Hver einasti steinn í stórum radíus út frá hrúgunni hefur verið rifinn upp og hent í hana og rún er hún orðin eins og risastór hrúga, svipuð og þær sem Vegagerðin eða verktakar eru með við þjóðvegi og ætla í mulning og í vegagerð.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 12.9.2013 kl. 13:09
Flestir erlendir ferðamenn, sem fara í ferðir um landið byrja á að fara ,,Gullhringinn".
Fyrsta stoppið hjá þeim er einmitt útsýnisplanið umrædda. Og hvað sjá þeir ? vörður í hundraðatali !
Ég tel þetta afar slæmt, og þetta gefur þeim þá hugmynd að hér sé þetta leyfilegt og sjálfsagt. Margir hafa spurt mig, hvort þetta sé gert í nafni ,,gömlu guðanna" eða hvað ?
Fyrir um það bil þrjátíu árum stofnaði ég (ég var lengi eini félaginn) ,,Vörðuvinafélag Íslands". Tilgangurinn var að vernda gömlu og gagnlegu vörðurnar okkar, og henda um koll þessum ,,túristavörðum"
Ég átti fund með þjóðgarðsverði um einmitt þetta svæði í vor, og þar benti hann á, að þetta er utan þjóðgarðs, og í einkaeigu.
Ég sting uppá að einhver taki sig til, og stofni til ferðar til að tína allt þetta grjót í burtu, og láta fjarlægja það. Síðan verði girt eins og 50 metra í hvora átt frá stæðinu, og sett upp skilti sem banna hleðslu varða. Einar þjóðgarðsvörður hefur hannað fyrirtaks góð skilti, það þarf bara að prenta út, og setja niður.
Börkur Hrólfsson, 12.9.2013 kl. 21:39
Sammála með smávörðurnar sem farnar eru að sjást út um hvippinn og hvappinn.
Hinsvegar er ég á því að kenna ætti ferðamönnum að slíta upp lúpínuna frekar en að sá henni þar sem hún á ekki heima.
Emil Hannes Valgeirsson, 12.9.2013 kl. 22:42
Líst vel á þetta hjá þér, Börkur.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 12.9.2013 kl. 23:14
Lúpínan er ekki á stóru svæði, Emil. Sjá til dæmis þetta: https://www.facebook.com/media/set/?set=oa.717112774971888&type=1
Skemmtilegar myndir af lúpínu.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 12.9.2013 kl. 23:16
Ég er sammála Emil.
Elle_, 13.9.2013 kl. 11:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.