Hverjir eiga eiginlega að móta þjóðfélagsumræðuna?

Mér finnst stundum gaman að lesa skrif Egils Helgasonar á Pressunni og fyrir kom að ég horfði á þætti hans í sjónvarpinu. Stundum kemur fyrir að hann leggur gott til málanna, það gerist líka að hann bryddar upp á áhugverðum málum en oftar en ekki er hann bara eins og við hinir, jafnvitlaust og lítt áhugaverður.

Það verður þó að segjast eins og er að mér mislíkar mikið þegar fólk er umtalsillt og rökstyður ekki skoðanir sínar eins og Egill í eftirfarandi pistli sem nefnist „Út á sprengjusvæðinu“, og er hér í heild sinni:

Er Brynjar Níelsson búinn að taka að sér að vera allsherjar nettröll eða er hlutverk hans kannski að prófa hugmyndir sem virka öfgafullar og athuga hvernig þær falla í kramið? 

Því framganga Brynjars – og að nokkru leyti Vigdísar Hauksdóttur – virðast aðallega til þess fallin að drepa þjóðfélagsumræðunni á dreif, senda hana í óvæntar og skrítnar áttir. 

En svo er náttúrlega hugsanlegt að þeim takist að færa mörk þess sem telst eðlilegt – að þau taki að sér að fara út á sprengjusvæðin, og svo má athuga hvort þau snúi aftur í heilu lagi, eða hvort vanti kannski hönd, fót eða höfuð?

Egill finnst það sök Brynjars Níelssonar, alþingismanns, að ræða um það sem einhverjir óskilgreindir gáfumenn í þjóðfélaginu vilja ekki ræða um.

Ekki má tala um Ríkisútvarpið og hversu mikið þetta ríkisbákn er orðið. Og alls ekki má gagnrýna þvingunaráskriftir þess. Einhverjir hafa fundið það út að 18.800 krónurnar sem ríkið hirðir af okkur með skattinum sé alls ekki mikill peningur og síst af öllu sé honum deilt í mánuði ársins eða daga, hvað þá klukkustundir. Skiptir þá engu hvort ég eða aðrir almúgamenn vilji spara, segja upp áskriftum og öðru því sem við teljum okkur geta verið án. Vilji einstaklingsins er virtur að vettugi vegna þess að gáfumennirnir hafa fundið það út að Ríkisútvarpið er eitthvað félagslegt sem enginn má ekki vera án.

Brynjar leyfir sér að hafa aðra skoðun á þessu og liggur ekki á henni. Þá verður allt vitlaust. Rétt eins og þegar hann viðrar skoðanir sínar á skattheimtu ríkisins, kvótakerfinu og öðrum málum. Þá rís Egill Helgason upp og kallar manninn nátttröll og hugmyndir hans öfgafullar. Og það sem verst er að hann er að hann er að „drepa þjóðfélagsumræðunni á dreif í óvæntar og skrýtnar áttir“. 

Hver er eiginlega sá sem ákveður hver þjóðfélagsumræðan á að vera? Og hvaða áttir eru óvæntar og skrýtnar? Hér á landi er málfrelsi og það er síður en svo að Brynjar Níelsson sé einn um að vilja ræða um Ríkisútvarpið. Á Egill að móta þjóðfélagsumræðuna? 

Annars eru viðbrögð Egils Helgasonar hreinn barnaleikur miðað við hvernig sumir rita í athugasemdakerfið sem fylgir jafnan öllum pistlum hans. Þvílíkur óhróður og skítkast sem þar á sér stað, raunar á báða bóga, af þeim sem eru á móti skoðunum Brynjar og einnig þeim sem eru hlynntir þeim. Þar er viðbjóðurinn mikill og vanstilltum höfundum til mikillar vansæmdar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Hvar er Móses nútímans?

Til hvers kjósum við forseta?

Þó svo að forsetinn sé og eigi ekki að taka ákvarðanir til hægri og vinstri alla daga

þá mætti hann opna einhverskonar umræðuvettvang um það sem hann telur leggja mest á þjóðinni.

=Koma með tillögur að lausnum á öllum sviðum án þess að því fylgi valdskipun.

Það heitir AÐ LEIÐA ÞJÓÐ!

Jón Þórhallsson, 31.7.2013 kl. 16:42

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Egill er ríksrekinn álitsgjafi og hefur alltaf rétt fyrir sér.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 31.7.2013 kl. 17:23

3 identicon

Kannski er ég orðinn gamall og ruglaður, en voru það ekki í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins að nefskatturinn var settur á?

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 31.7.2013 kl. 17:42

4 identicon

Heimir ... ég er nú ekki alveg sammála þér.  Egill hefur stundum rangt fyrir sér eins og aðrir mennskir menn.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 31.7.2013 kl. 17:43

5 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

H.T. Hafi hann verið settur á í stjórnartíð xDxB, voru fréttir þess tíma lesnar af fréttamönnum,ekki frétta-álitsgjöfum. þá var Ísland helgidómur. Þá var hlutleysis jafnan gætt,og aðilar deilumála,hvort sem var í pólitík eða dægurmálum,komust að til að segja sitt álit.tveir eða fleiri. Það hefur gengið ansi langt í áróðri fyrir Evrópusambandið og vegna þess eru svo margir á móti því að borga ,,nefskattinn,,.

Helga Kristjánsdóttir, 31.7.2013 kl. 20:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband