Í hitbylgju á Kistufelli í Esju

Kistufellsleid

Í gær, laugardag, brá ég undir mig betri fætinum og skokkaði upp á austurhorn Kistufells í Esju. Þetta er ein af skemmtilegustu gönguleiðunum. Ég fer eiginlega ekki núorðið á Þverfellshorn vegna þess að þar er alltof mikill ágangur fólks og að auki lítur leiðin skelfilega út.

Ég ók á Toyota Yaris upp á Esjumela og þaðan austur eftir malarvegi milli Esju og Mosfells. Enginn vandi að aka þarna, fór bara varlega. Ökuleiðin sést á meðfylgjandi korti og punktaleiðin sýnir gönguleiðina upp.

Veðrið í gær var það besta sem komið hefur á höfuðborgarsvæðinu og ég hafði eiginlega mestar áhyggjur af því að hitinn væri of mikill. Sem betur fer var golan vestanstæð og kom í bakið á mér á leiðinni upp, magnaðist aðeins á uppleiðinni og kældi mann passlega.

Gönguleid

Ég mæli með því að gengið sé upp með gilinu sem sést vinstra megin á myndinni. Þar er leiðin eins auðveld og hún getur orðið. Gilið er lítið og snoturt. Í því eru um sjö litlir fossar og gaman að skoða umhverfi þeirra.

Upp á Kistufell má ætla fjóra áfanga eða fleiri ef vill. Stallar eru í hlíðinni sem ágætt er að miða við. Og ekki má gleyma að snúa sér við og skoða útsýnið eftir því sem hærra er komið.  Sérstaklega er fallegt að fylgjast með breytingum til austurs. Þar er Grafardalurinn, djúpur og fallegur, Hátindafjallið og svo Móskarðshnúkar.

Móskardshnukar

Hérna er mynd af Móskarðshnúkum sem ég tók með talsverðum aðdrætti. Tindarnir njóta sín vel, stórkostlegir í litadýrð sinni. Ef vel er að gáð má greina gönguleið sunnan í hlíð Móskarðshnúks, en svo held ég að austasti hnúkurinn sé kallaður.

Mér finnst nokkuð miður að þarna skuli vera komin stígur. Aðal uppgönguleiðin er upp eftir hryggnum en fólk gengur yfirleitt niður hlíðarstíginn. Hryggurinn ætti að duga fyrir upp- og niðurleið. 

Hnúkarnir eru fjórir og sá austasti er hæstur, 807 m hár. Fjórði hnúkurinn er eiginlega ekki neitt neitt en er þó nægilega greinilegur til að vera talinn með.

Kistufell er í rúmlega 800 m hæð og er nokkuð slétt að ofan. Þar er mikill mosi. Í gær var ábyggilega yfir tuttugu gráðu hiti uppi og hlýr andvari af vestri.

Oft hef ég gengið mér til skemmtunar með suðurbrún Kistufells og allt að Gunnlaugsskarði og síðan til baka. Nokkrum sinnum hef ég gengið yfir á Hátind og þaðan niður. Þegar ég rifja göngur mína á Esju upp held ég að ég hafi gengið um hana mestalla. Í þetta sinn var ég latur, mátti það alveg. Lagðist bara í mjúkan mosann við vörðuna, drakk sódavatn og maulaði prins póló og horfði á veröldina. Þotur flugu hátt yfir, eins hreyfils rellur flugu langt fyrir neðan og þyrla heimsótti svæðið í útsýnisflugi með ferðamenn.

Austur2b

Neðsta myndin er tekin við vörðuna á austurhorni Kistufells og er horft í austur. Strikin sem ég hef sett inn á myndina tákna gönguleiðir niður frá Hátindi og ofan í Grafardal. Ég þekki þær allar, þær eru mjög brattar og vissara að fara afar varlega á niðurleið. 

Ég er nokkuð ánægður með þessar myndir. Best er að smella á þær og þá er hægt að stækka þær nokkrum sinnum. Hvet lesendur mína til að fara á Kistufell, hætta að troða á Þverfellshorni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk, Sigurður. Maður prófar þá leið þína á Kistufellið eftir þessari ágætu mynd. Vonandi er þetta ekki einhver hetju- leiðin!

Ég geng stundum á Móskarðshnúka, en vegurinn inn að göngubrúnni er agalegur grjótbarningur, nema fyrir jeppa. Útsýnið er mun skemmtilegra en frá Þverfellshorni.

Ívar Pálsson, 28.7.2013 kl. 22:28

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Nei, það er nú öðru nær, Ívar. Engin hetjuleið, bara svona eins og á Þverfellshornið. „Hentar fyrir konur og börn“ svo fremi sem menn kunna fótum sínum forráð ... ;-). Þannig er það nú alltaf í gönguferðum.

Skemmtilegastar eru eiginlega hringleiðirnar sem Kistufell, Hátindur og Móskarðshnúkar bjóða upp á. Mögnuðust er eiginlega gönguleiði af Móskarðshnúkum og yfir á Esju. Minnir að þar heiti einhverra hluta vegna Laufaskörð en það kann að vera rangt, þar eru engin lauf né er þar skarð. Bara yndislegt þverhnípi til beggja hliða ...

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 28.7.2013 kl. 23:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband