Aflstöðvar almennra Sjálfstæðismanna eru orkumiklar
21.6.2013 | 13:40
Sjálfstæðisflokkurinn þarf að hafa það hugfast að við erum fjölmargir flokksbundnir sem eru mjög hlynntir stækkun friðlýsingar í Þjórsárverum. Flokkurinn hefur breyst mikið og við erum fjölmörg sem teljum Þjórsárver ekki flokkspólitískt mál heldur miklu frekar tilfinningalegt og tilfinningar eru orkumiklar.
Nýjar kynslóðir hafa allt aðrar skoðanir á umhverfis- og náttúruvernd heldur en þær eldri. Ástæðan er einfaldlega sú að fólk ferðast mikið meir um landið heldur en eldra fólk gerði. Gönguferðir eru ekki aðeins í tísku því fólk fer á fjöll af einskærri þörf fyrir að njóta landsins og reyna líkamlega á sig.
Við þekkjum mörg hver Þjórsárver, við höfum skoðað Kárahnúkavirkjun, við höfum farið um Hágöngur og við okkur blasir Hellisheiðarvirkjun. Landsvirkjun framleiðir víða rafmagn og kallar þá staði aflstöðvar og það líka með réttu.
Bjarni, Hanna Birna, Ragnheiður Elín og Illugi, munið að hafa vaðið fyrir neðan ykkur. Þið hafið verið valin í forystu fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ekki setja okkur í þá aðstöðu að geta ekki varið gerðir ykkar í umhverfis- og náttúruverndarmálum. Ég bið ykkur lengstra orða að hafa þetta í huga því aflstöðvar almennra Sjálfstæðismanna eru orkumiklar.
Boðskortið kom verulega á óvart | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.