Verstu vegfarendurnir eru gangandi

Þó maður sé stundum dálítið skelkaður á hjóli í umferðinni þá eykst sífellt tillitssemi ökumanna. Flestir gefa hjólreiðamanninum forgang og þeim fækkar sem með illum vilja aka ofan í polla til þess eins að skvetta á gangandi og hjólandi vegfarendur.

Verstir eru ökumenn sem mega ekki vera að öðru en að tala í símann sinn og aka. Þeir taka ekki eftir neinu í kringum þá, lulla á sínum hraða, beygja til og frá innan akreinar og þá er auðvitað stórhættulegt að vera á götunni. Best er að vera á gangstígum en það getur stundum verið slæmt því næst verstu vegfarendurnir eru gangandi fólk. 

Gangandi fólk fer fæst eftir umferðareglum. Engu að síður gildir hægri reglan alls staðar. Allir, gangandi, akandi og hjólandi eiga að víkja til hægri. Allir eiga að halda sig hægra megin á gangstétt eða göngustíg. Fáir átta sig á þessu.

Sérstaklega er óþægilegt að hjóla upp að einhverjum sem gengur á miðjum göngustíg. Þá hringir maður bjöllunni og auðvitað lítur viðkomandi um öxl og flytur sig oft merkilega oft yfir á vinstri helminginn, þann sem hjólreiðamaðurinn ætlaði að nota til að fara framúr.

Og svo eru það þeir sem ganga tveir eða fleiri saman og taka alla gangstéttina eða göngustíginn. Þá er bara vissara að stoppa og leiða hjólið framhjá.

Allra verstir eru þó þeir sem maður mætir. Furðulegt að þetta fólk skuli ekki víkja til hægri, frá því séð. Nei, það þrýstir sér eins langt til vinstri og það getur, það er á hægri hluta akvegar hjólamannsins. Þetta er afar algengt meðal unglinga og barna.

Þrátt fyrir allt er óskaplega gaman að hjóla. Ég hjólaði í seinni partinn í dagheiman frá mér í sundlaugarnar og þá snjóaði, nei þetta var slydda, stærðar hundslappadrífur settust á mig. Ég var rennblautur þegar ég kom í Laugardalinn en náði hrollinum úr mér í heita pottinum og spjallaði við gott fólk.

Svo fór í blautu fötin aftur og hjólaði heim. Og enn var slydda. Þegar heim var komið var ég gegnblautur og kaldur og hefði þurft að komast aftur í heita pottinn eða fá mér nokkur glös af koníaki. Hvorugt var til og enn er ég kaldur. Það er hins vegar allt í lagi, maður er einfaldlega kaldur kall.


mbl.is Með dýrara stell milli fótanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það eru durtar  allsstaðar, gangandi, hjólandi og akandi. Oftast hjóla ég og geri eins og þú, ég nota bjölluna til að láta vita af mér, en stundum geng ég og þá gerist það næstum því alltaf að það kemur einhver hjólandi fram úr mér á mikilli ferð, mjög nálægt  án þess að láta vita af sér þannig að manni bregður við.

Einnig eru þeir slæmir sem hjóla  í hópum og taka allan stíginn og vilja ekki gefa tommu eftir. Þegar maður mætir þeim  er bara um að gera að halda sínu striki og hringja bjöllunni án aflláts loka augunum, það virðist virka þeir gefa þá eftir.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 18.4.2013 kl. 08:06

2 Smámynd: eir@si

Hundur öðrum megin við stíginn, hundeigandi hinum megin og band á milli.

Það reyndar truflar mig ekk neitt í hvaða átt fólk fer svo framarlega sem það er ekki dreift yfir allan stíginn og tekur ekki uppá einhverjum snöggum hreyfingum rétt áður en ég kem að þeim.

Hjólreiðamenn þurfa líka að muna að á göngustíg þá hafa  gangandi allan forgang og hjólandi þurfa bara að taka tillit til þeirra.

eir@si, 18.4.2013 kl. 15:53

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Góð bjalla skiptir öllu. Gangandi eiga allan rétt, nema kannski ef þeir eru með hund og bandið er yfir göngustíginn ... ;-)

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 18.4.2013 kl. 15:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband