Eyja í Breiðafirði sem ekki verpti í fyrra ...

Ánægjulegt er að sjá að arnarpar á eyju í Breiðafirði sem ekki verpti í fyrra vegna skemmdarverka er nú að reyna aftur og hefur byggt nýjan hreiðurlaup.

Þegar tilvísunarfornafn er ekki rétt staðsett verða oft til skrýtnar málsgreinar á borð við þessa hérna fyrir ofan. Á henni mætti skilja að eyjan hafi ekki verpt í fyrra. Tilvísunin er því röng, beinist að eyju en ekki arnarpari.

Þetta gerist oft þegar höfundurinn er óþolinmóður og ætlar að segja svo margt án þess að nota punkt. Í sjálfu sér er í lagi að hafa punkt á þegar heil hugsun er komin. Stundum er þó nauðsynlegt að umorða setningu eða málsgrein svo boðskapurinn komist heill til skila. Þannig gæti textinn að ofan verið eitthvað á þessa leið:

Í fyrra var arnarhreiður á eyju í Breiðafirði skemmt og er talið að þess vegna hafi arnarparið ekki verpt þar. Fuglafræðingar og fleiri gleðjast nú yfir því að arnarparið hefur byggt nýjan hreiðurlaup og virðist ætla að reyna að verpa aftur.

Margvísleg vandamál hrjá þá sem stunda skriftir. Í flestum tilvikum er auðvelt að hreyta orðum á blað en á eftir tekur við yfirlestur og lagfæringar. Þá verður höfundurinn að vera gagnrýninn. Fljótfærnin er þó versti óvinurinn. Á honum er hægt að vinna bug með því að hvíla texta í nokkrar mínútur, lesa hann síðan yfir aftur, breyta eða laga, og þá loksins birta.

Þess má geta að ég er búinn að endurrita ofangreint þrisvar sinnum og er ekki enn ánægður með textann. Hef ekki þolinmæði í að bíða lengur ... Wink


mbl.is Arnarparið reynir varp á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband