Hornvík að vetrarlagi
31.3.2013 | 08:17
Hornstrandir eru heillandi landsvæði en um leið harðbýlt og erfitt yfirferðar, sérstaklega að vetrarlagi. Mestöll byggð lagðist þarna af á fyrri hluta síðustu aldar og má segja að langflestir væru farnir í lok fimmta áratugarins. Af því er dálítil saga sem ég hef kynnt mér, skrifað um og jafnvel gert heimildarmynd fyrir sjónvarp. Hún fjallaði um Aðalvík og var um landið sem tæknin bókstaflega lagði í eyði.
Við gerðum myndina í félagi, Guðbergur Davíðsson, kvikmyndagerðarmaður, og ég. Við áttum nokkra spretti saman í heimildarmyndagerð í lok síðustu aldar. Gerðum sjónvarpsþætti sem nefndust Áfangastaðir og fjölluðu um fallega staði hér innanlands, til dæmis tröll í landslaginu, það sem var óteljandi og margt, margt fleira.
Við fórum í óskaplega eftirminnilega vetrarferð í Aðalvík og upplifðum snjóinn og einangrunina. Það var óskaplega gaman en þegar öllu var á botninn hvolft er Aðalvík aðeins um 22 km norður af Bolungarvík og þar af leiðandi er veðurfarið frekar svipað.
Hornvík er hins vegar um 47 km í beinni loftlínu frá Bolungarvík og ef til vill eru aðstæður þar aðrar, svona veðurfarslega. Þangað er ferðinni heitið í dag ásamt fyrrnefndum Guðbergi. Hann er enn að gera heimildarmyndir og ég fæ að fljóta með fyrir þrábeiðni því mig langar svo til að sjá Hornvík í vetrarbúningi. Verkefni hans er heimildarmynd um Hornstrandarrefinn, einstaklega áhugaverða mynd um dýr sem var komið til landsins löngu fyrir landnám.
Við ætlum að gista í húsi og með okkur verður húsráðandi og hann Jón Björnsson, landvörður á Hornströndum. Hann gat ekki sleppt tækifærinu og vildi endilega koma með og það var auðsótt enda hafsjór af fróðleik um Hornvík og strandirnar allar.
Meðfylgjandi myndir tók ég í lok apríl 1995 í Aðalvík. Sú efsta er svona klassísk mynd tekin í Vestur-Aðalvík, Sæbólsmegin eins og oftast er sagt, og horft er til Straumnesfjalls.
Næsta mynd er tekin á hinni fögru skeljasandsströnd í Miðvík og er Mannfjall í baksýn.
Þriðja myndin er af sviðsetningu á útræði úr Aðalvík.
Þegar ég kem aftur stendur til að birta hér vetrarmyndir úr Hornvík. Hvenær það verður veit ég ekki. Við höfum gert nokkrar tilraunir til að fara vestur en ekki tekist vegna veðurs í mars. Ótrúlegt að sjólag skuli vera þannig að bátar komist ekki langtímum saman á veiðar, hvað þá að nokkrir kallar komist ekki í Hornvík.
Og þó maður komist á leiðarenda er óvíst með heimkomuna. Kóngur vill sigla en byr hlýtur að ráða. Ef til vill er þetta dálítil dramatík hjá mér en það helgast nú af því að ég er alltaf spenntur fyrir að komast í ferðir á fjarlæga staði. Og ef allt gengur að óskum verðum við komnir í Hornvík að kvöldi páskadags.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Óska ykkur félögum giftusamlegrar ferða og ánægjulegrar. Leyni því ekki að ég blóðöfunda ykkur.
Árni Gunnarsson, 31.3.2013 kl. 14:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.