Er presturinn of gamall til að skrifa í Fréttablaðið?
21.3.2013 | 11:35
Ástæða uppsagnar var ekki að pistlar mínir væru lélegir og ekki heldur að ég væri prestur. Ástæðan var aldur minn. Blaðið þyrfti að sækja inn á æskumarkaðinn. Lesendum Fréttablaðsins í hópi 50 ára og eldri hefur fjölgað, er stærsti lesendahópurinn og er þar með mikilvægur markhópur auglýsenda. Í stað þess að styrkja þjónustuna við þetta fólk ætlar blaðið aðallega að sækja inn í æskugeirann með yngri höfundum. Skýringin er trúverðug en ég hræðist inntak hennar. Stækkandi kúnnahópur fær verri þjónustu! Hvers konar afstaða er það?
Svo skrifar Sigurður Árni Þórðarson, prestur í Neskirkju, í Fréttablaðið í dag og er greinin líka birt á visir.is.
Ég les mikið, bækur, dagblöð, tímarit, ársrit, netmiðla, blogg og eiginlega hvað sem ég kem höndum yfir. Þetta er einhvers konar árátta. Alltaf verð ég glaður þegar ég næ að lesa vel skrifaða grein, þá líður mér vel í hjartanu og hugsa innst inni hvað það væri nú gaman að geta skrifað eins.
Þó ég þekki hann nafna minn, prestinn í Neskirkju, þokkalega, þá er það ekki þess vegna sem ég hef lesið greinarnar hans í Fréttablaðinu. Þær eru bara góðar og hann tekur á hinu daglega lífi með jákvæðni og oft glettni. Hann er bara ansi góður penni.
Nú hefur hann fengið sparkið frá ritstjóra Fréttablaðsins. Breytingar eru í sjónmáli og ætlunin er að poppa upp blaðið, gera það verðugra fyrir þá sem enn hafa ekki safnað árum eins og hann nafni minn. Þetta er svo merkilegt vegna þess að árafjöldi er afstæður. Ungt fólk getur verið afgamalt í skoðunum og hegðun meðan það eldra er frískara og kátara. Á þessu er sumsé allur gangur.
Bestu ráðgjöf hef ég jafnan fengið frá þeim sem eru mér eldri. Mestu mistökin hef ég gert þrátt fyrir ráð mér eldra fólks. Þannig er það að ungur nema það sem gamall temur.
Ef Fréttablaðið ætlar að vera froðan ein, mata ungt fólk með því sem talið er að ungt fólk vilji þá er það einfaldlega röng stefna. Slíkt getur ekki verið farsælt til lengdar. Þó hægt sé að sýna fram á að tiltekin hegðun sé aldurshópatengd þá skiptir það ekki öllu máli. Jú, nema að því leytinu til að markaðshyggjan taki algjörlega völdin og ekkert sé rétt nema það sem nákvæmar demógrafískar rannsóknir segja. Þá er það vindáttin sem ræður ekki blaðamennskan.
En að móta ritstjórnarstefnu eftir markaðnum, ekki upplýsingamiðlun verður einfaldlega til þess að menn eins og Sigurður Árni Þórðarson hverfa af síðum Fréttablaðsins og lesendur þess verða fátækari í anda.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.