Stórgölluð lagafrumvörp ríkisstjórnarinnar gagnrýnd
19.3.2013 | 09:41
Frumvarpinu var dreift á Alþingi 14. mars sl., einum degi áður en þingi átti að ljúka eftir því sem sagði í starfsáætlun þingsins.
Teljast það vera góð vinnubrögð að leggja framfrumvarp degi áður en þingi á að ljúka og ætlast til að það sé afgreitt? Þannig vinnur ríkisstjórnin og um leið ásakar hún stjórnarandstöðuna um að tefja mál.
Mörg góð mál sem verið er að tefja, segja stjórnarþingmenn. Þeir skrökva. Vinnubrögðin eru með þvílíkum endemum að lagafrumvörpin eru ótæk til meðferðar. Fjöldi stofnana gerir athugasemdir við þau. Frumvarpið um lánsveð er unnið með handarbakinu á þann hátt að stofnun Ríkisskattstjóra gerir athugasemdir við það.
Hvernig verður staðan ef ónýt lög verða samþykkt frá Alþingi? Ég býð ekki í það. Vonandi stendur stjórnarandstaðan í lappirnar og notar allar aðferðir til að koma í veg fyrir samþykkt þessara frumvarpa. Mín vegna má hún nota málþóf, lengri ræðutíma, athugasemdir við athugasemdir og hvað sem er.
Virðing Alþingis byggist ekki einungis á framkomu þingmanna í fjölmiðlum eða á þingfundum, meiru skiptir að framleiðslan sé holl, þau lög og ályktanir sem samþykkt eru séu gallalaus. Svo má endalaust gagnrýna pólitískt innihald.
Aðferðin er óvenjuleg og fáheyrð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hver skyldi nú vera ástæðan fyrir framlagningu frumvarps sem þessa, mínútu fyrir þinglok?? Það liggur í augum uppi að engin meining er á bak við þetta frumvarp. Hefði einhver vilji verið til staðar hjá ráðherranum að hjálpa þeim sem eru svo sannanlega í erfiðri stöðu þegar kemur að lánsveði hjá foreldrum eða öðrum ættingjum og vinum, þá væri ráðherrann löngu búinn að leggja slíkt frumvarp fram og búið að afgreiða það og fólk nú þegar farið að njóta góðs af.
Sjáum til í kosningabaráttunni sem framundan er, hvort ráðherrann komi ekki fram og segist hafa lagt þetta frumvarp fram en það ekki náð framgang, sennilega vegna þess að stjórnarandstaðan hafi staðið í gegn því.
Nei, ríkisstjórnin dælir inn allskonar málum eftir eindaga sem þau þykjast vilja ná í gegn en vita að of skammur tími er til að vinna faglega að þeim málum. Þetta eru sýndartillögur (frumvörp) mörg hver, ætluð til að blekkja kjósendur.
Það er þjóð okkar til háðungar að vinnubrögð sem þessi skuli vera viðhöfð á Alþingi Íslendinga. Er að furða að virðing Alþingis sé í lágmarki??
Tómas Ibsen Halldórsson, 19.3.2013 kl. 10:06
Sammála þér, Tómas.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 19.3.2013 kl. 10:41
Þetta er ekki neitt.
Í dag, fjórum dögum eftir að starfsáætlun Alþingis rann út, lagði framsóknarþingmaður fram tillögu til þingsályktunar um að ráðist verði í sérstakt til eflingar íslenska geitastofnsins.
Það sem var líklega hvað merkilegast við hana var að með henni fylgdi löng, ítarleg og vönduð greinargerð þar sem eru færð afar sannfærandi rök fyrir nauðsyn þess að ráðist verði í átak sem þetta.
En á meðan brenna heimilin...
Guðmundur Ásgeirsson, 19.3.2013 kl. 14:24
sérstakt átak til eflingar íslenska geitastofnsins - átti það að vera
Guðmundur Ásgeirsson, 19.3.2013 kl. 14:25
Í sjálfu sér hef ég ekki nokkrar athugasemdir við ályktun framsóknarmannsins. Sjónarmið hans eru eflaust góð og gegn. Hins vegar vantar samræmt átak löggjafarvaldins til að losa heimilin út úr þeirri kreppu sem þau eru mörg hver í. Sama er með atvinnuleysið. Þetta tvennt er til stórskaða fyrir íslenskt samfélag, hefur gríðarleg slæm efnahagsleg áhrif. Það breytir því þó ekki að ýmislegt annað má föndra með í daglegu lífi samhliða þessum tveimur knýjandi verkefnum sem ekkert hefur verið gert til að leysa.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 19.3.2013 kl. 15:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.