Ungliðar VG rugla um aðildarumsóknina að ESB

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar  - græns framboðs telur nauðsynlegt að endurskoða afstöðu ríkisstjórnarinnar til aðildarumsóknar að Evrópusambandinu. Sú valdbeiting sem varð til þess að ríkisstjórnarþingmenn samþykktu aðildarumsókn á sínum tíma má ekki verða til stefnumótunar fyrir áframhaldandi samstarf félagshyggjuflokkanna. Ef möguleiki á að vera á slíku samstarfi þurfa meðlimir stjórnarflokkanna að leggja til hliðar ofstækisfulla orðræðu og taka ákvörðun um hvort halda eigi ferlinu áfram.

Ósamstaða vegna þessa máls hefur klofið hreyfinguna og bera þar óbilgirni umsóknarandstæðinga og meðfærileiki flokksforystunnar gagnvart kröfum samstarfsflokksins hvort tveggja sök. Sú málamiðlun sem var gerð á stefnu hreyfingarinnar við ríkisstjórnarmyndun hefur ekki breytt afstöðu hennar til aðildarumsóknar. Það er yfirlýst afstaða hreyfingarinnar að Íslandi sé betur borgið utan Evrópusambandsins en að aðild verði aðeins ákvörðuð með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Landsfundur telur nauðsynlegt að ákvörðun um  áframhaldandi aðildarviðræður verði lögð í dóm þjóðarinnar.
 
Þetta er tillaga ungliða í VG sem lögð verður fyrir landsfund flokksins síðar í mánuðinum. Líklegast er að leikskóladeild ungliðanna hafi samið ályktunina. Bullið í henni virðist óendanlegt og óskiljanlegt að hún skuli lögð fram nema til þess eins að gera veg flokkseigendafélagsins innan VG sem sennilegastan.
 
Í upphafi er fullyrt að valdbeiting hafi verið grundvöllur samþykkt aðildarumsóknar að ESB á þingi en í lokin er talað um aðgerð hafi verið málamiðlun. Þetta tvennt fer nú ekki saman og líklegast að hið fyrrnefnda sé réttara enda bendir ekkert til þess að samningaviðræður hafi farið fram. VG keypti ráðherrasæti og greiddi fyrir þau með því að samþykkja aðildarumsókn að ESB.
 
Rétt er að umsóknin klauf VG, raunar í herðar niður og mun kosta flokkinn meira en helming fylgis síns. Rangt er að um sé að kenna óbilgirni andstæðinga aðildarinnar.
 
Annað hvort er fólk með eða á mót aðildinni. Útilokað er að flokka aðra hvora afstöðuna sem „óbilgirni“. Í hverju ætti eiginlega málamiðlun á milli þessara skoðana að vera? Hálfkák? Raunar er stefna VG innan ríkisstjórnarinnar ekkert annað en hálfkák og til viðbótar það sem ungliðarnir kalla „meðfærileiki“ í ályktuninni.
 
VG segist í orði vera á móti aðild en engu að síður hefur flokkurinn samþykkt aðildarumsóknina.
 
Sá sem samþykkir aðildarumsókn að ESB er fylgjandi henni vegna þess að með henni fór landið í aðlögunarferli og hefur síðan í júlí 2010 verkefnið verið að aðlaga íslenska stjórnsýslu, lög og reglur að ESB. Ekki er um að ræða neinar samningaviðræður.
 
Þessa staðreynd vill meirihluti þingflokks VG ekki ræða og skrökvar því að samflokksmönnum sínum og þjóðinni allri að um samningaviðræður sé að ræða þar sem keppikeflið er að ná sem bestum samningum við ESB. Jafnvel forráðamenn Evrópusambandsins vita ekki hvernig þeir eiga að bregðast við svona vitleysu.
 
Líklegast er best að ungliðar VG fari nú að vinna heimavinnuna sína, leiti heimilda og hugsi sitt mál áður en þeir tjá sig. 
 
Ástæðan fyrir því að ég skrifa um innanflokksmál VG er að manni blöskrar framsetningin sem ekki er ætlað að gera annað en að rugla almenning í þessu mikilvæga kosningamáli.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband