Eftirlaunaþegi gagnrýnir Sjálfstæðisflokkinn harðlega

Til að öðlast trúverðugleika, til að hann verði talinn marktækur, til að nýta einstakt tækifæri til að sópa að sér fylgi í komandi kosningum verður flokksforystan, flokksráð og þingflokkurinn að standa í lappirnar og fara að samþykktum landsfunda undanbragðalaust, svo sem því sem samþykkt var á síðasta landsfundi. Ótal spurningar hrannast upp. Hvað hyggst Sjálfstæðisflokkurinn gera til bjargar heimilunum? 

Þetta eru orð Ólafs Ásgeirs Steinþórssonar í grein í Morgunblaðinu í morgun og fjallar um verðtryggingu og flokkssamþykktir. Ólafur titlar sig eftirlaunaþega og ritar undir fyrirsögninni: „Loksins, loksins - Opin bréf til landsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins“.

Grein Ólafs er góð. Hann tekur þarna á málum sem við óbreyttir sjálfstæðismenn höfum lengi viljað að tekið verði á. Landsfundur flokksins er æðsta valdið, kjörnum fulltrúum flokksins á þingi og í sveitarstjórnarmönnum er hollast að hafa það hugfast.

Síðastliðið haust gafst fólki kostur á að hringja í Valhöll og fá viðtöl við þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Mér var úthlutað Kristjáni Þór Júlíussyni. Ég spurði hverju það sætti að ekkert hefði heyrst um samþykktir og tillögugerð þingflokksins varðandi einróma samþykkt síðasta landsfundar Sjálfstæðisflokksins um tafarlaust afnám þeirrar lögvernduðu eignaupptöku, með öðrum orðum, grófasta stórþjófnaði í allri Íslandssögunni úr vösum almennings, sem nefndur er verðtrygging. Svar hans var þetta: „Ja, sko. Við höfum ekki haft tíma til að reikna það út hvaða áhrif það hefur á ríkissjóð.“ Hafið þið ekki haft allt kjörtímabilið til að reikna þetta dæmi? spurði ég á móti. „Ja, þetta er nú bara svona, kallinn minn“ var svar hans. Aumara gat svar hans ekki verið.

Já, aumara gat svar hans ekki verið. Þó Kristján Þór sé mætur maður má hann skammast sín fyrir þetta svar. Hann hefði átt að segja sem var: Við höfum ekki tekið nægilega vel á þessu máli og ég bið þig afsökunar á því. Þannig eiga höfðingjar að svara, en ekki láta hrekja sig út í horn.

Ólafur gagnrýnir Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins harðlega m.a. fyrir stefnuleysi í málefnum eldri borgara, afnám verðtryggingarinnar og skuldavanda heimilanna. Hann segir í lokin:

Fólk mun ekki kjósa þann flokk framar sem ekki lyftir hendi til varnar heimilum sem eru að fara undir hamarinn, eiga minna en ekki neitt, hafa verið rænd sparifé sem þau áttu í formi húsnæðis á sama tíma og peningar þeirra sem eiga þá á bók eru varðir í bak og fyrir. Mér er kunnugt um fjölda sjálfstæðisfólks sem er sama sinnis. Þetta fólk mun ýmist kjósa Framsóknarflokkinn, sem einn flokka hefur tekið málstað heimilanna í landinu eða skila auðum seðlum. Það er komið að þolmörkum. Fólk á ekki að láta bjóða sér hvað sem er. Fólk er þreytt og fólk er reitt og að lokum mun það grípa til örþrifaráða með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Grein Ólafs er ein harðasta gagnrýni sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið á sig og hún kemur frá „eftirlaunaþega“. Í ljósi þess að flokkurinn hefur yfir að ráða afburða fólki, sérfræðingum af öllu tagi, hefur hann lítið sér til málsbóta.

Fólk krefst þess að flokkurinn taki afstöðu. Það mun hann aldrei gera með einhverju kjaftæði og úrtölum. á landsfundinum verður hann að setja fram stefnu sína með skýrum og afmörkuðum hætti. Hver ályktun fundarins á á byrja á þremur tölusettum liðum. Í þeim á að koma fram eftirfarandi:

  1. Hvað?
  2. Hvernig?
  3. Hvenær?

Við eigum að setja fram stefnu okkar og leggja hana óhræddir fyrir kjósendur. Afleiðingin verður þá aldrei verri en sú að við Sjálfstæðismenn getum ekki borið höfuðið hátt. En gætum okkar, Ólafur Ásgeir Steinþórsson er ekki einn. Þúsundir manna líta til landsfundarins og taka afstöðu eftir niðurstöðu hans. Þeir fylgjast vandlega með okkur ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband