Aðlögunarviðræðurnar teyma Ísland inn í ESB
27.12.2012 | 11:18
Fékk þessa grein birta í Morgunblaðinu í morgun.
Við greiðum atkvæði um það á eftir hvort rétt sé eftir sem áður að láta reyna á í viðræðum hvers konar samningi sé hægt að ná til þess að þjóðin geti að því loknu hafnað honum eða samþykkt hann komi til niðurstöðu.
Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna og þáverandi fjármálaráðherra, 16. júlí 2009 þegar Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu.
Samþykkt aðild
Um hvaða samning og hvaða niðurstöðu er Steingrímur að tala? Hvað erum við að láta »reyna á«? Annað hvort fór maðurinn þarna með rangt mál eða hann vissi ekki betur.
Staðreyndin er sú að ekki er verið að semja, enginn samningur verður lagður fram. Þetta eru langt í frá samningaviðræður við ESB heldur er verið að aðlaga stjórnskipun, lög og reglur íslenska lýðveldisins og gera landið betur í stakk búið til að vera aðili að bandalaginu.
Í þessu er alvarlegasti misskilningurinn um ESB fólginn. Búið er að sækja um aðild og hún hefur í raun og veru verið samþykkt.
Viðræðurnar núna eru um þá þrjátíu og fimm kafla sem ESB krefst að við aðlögum okkur að. Þeir fjalla t.d. um fiskveiðar, landbúnað, flutninga, orkumál og fleira og fleira.
Aðlögunin
Utanríkisráðherrann og nefnd embættismanna íslenska ríkisins eru núna að telja embættismönnum ESB á skýran og skilmerkilegan hátt trú um að við höfum tekið upp skilyrði ESB í öllum þessum köflum. Þetta er rætt á svokallaðri ríkjaráðstefnu og þar samþykkja ríki ESB hvern áfanga aðlögunarinnar fyrir sig.
Þegar Noregi, Austurríki, Finnlandi og Svíþjóð var boðin innganga var einn samningur látinn duga fyrir þau öll, merkilegra var það nú ekki. Noregur felldi aðildina í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1992 en hin ríkin urðu meðlimir 1995. Síðan hefur inntökureglunum verið breytt og nú er enginn samningur í boði. Fyrir alla muni ekki rugla gamla umsóknarferlinu saman við aðlögunarferlið.
Enginn samningur
Að loknum aðlögunarviðræðunum gerist tvennt. ESB samþykkir að Ísland verði fullgildur aðili og hins vegar samþykkir Ísland boðið, annað hvort að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu eða án hennar. Þá rennur Ísland smurt inn.
Hingað til hafa engar sérkröfur verið lagðar fram af Íslands hálfu. Ef slíkar kröfur koma fram verða þær ræddar á næstu ríkjaráðstefnu og útkljáðar þar.
Steingrímur mun því miður ekki fá neinn samning til að velta fyrir sér og ekki heldur þjóðin.
Þjóðin á móti
Meirihluti ríkisstjórnarinnar á Alþingi hló þegar Sjálfstæðisflokkurinn lagði til að aðildarumsóknin væri fyrst lögð fyrir þjóðaratkvæði. Ríkisstjórnarmeirihlutanum fannst alveg ómögulegt að fara í tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, gerði í bjartsýni sinni ráð fyrir að þjóðin legðist ekki gegn aðildinni. Annað hefur þó komið á daginn.
Ekki er nokkur möguleiki á að þjóðin samþykki aðild að ESB, allar skoðanakannanir benda í þá átt að aðildin verði kolfelld. Í raun skiptir ímyndaður samningur Steingríms engu máli.
Svik
Niðurstaðan er einfaldlega sú að ríkisstjórn Íslands sagði þjóðinni ósatt. Aðildarumsókninni fylgja ekki samningaviðræður og enginn samningur verður í boði. Þess í stað er gengið frá inngöngunni með hverjum kafla sem lokið er að ræða um, að því þó tilskildu að ríki ESB hafa látið sannfærast um að Ísland hafi breytt stjórnsýslu sinni, lögum og reglum til samræmis við þeirra eigin.
Ég hef rætt við fjölda fólks úr öllum stjórnmálaflokkum um aðildina. Fjölmargir halda því blákalt fram að ríkisstjórnin sé að semja við ESB um einhvern pakka sem getur verið afar fýsilegur fyrir Ísland. Þetta fólk heldur að enn sé gamla umsóknarferlið í gangi sem endar með snyrtilegum samningi sem aðilar pára nafn sitt á undir húrrahrópum aðkeyptra skemmtikrafta.
Þjóðaratkvæðagreiðsla
Við erum hins vegar komin langleiðina inn í ESB og ég sé ekki hvers vegna núverandi ríkisstjórn muni sætta sig við þjóðaratkvæðagreiðslu að lokinni aðlöguninni.
Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að hætta aðlögunarviðræðunum og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið samhliða þingkosningum í apríl 2013.
Aðildin að ESB á að vera kosningamál og í því verður hið mikla fall Steingríms og Jóhönnu Sigurðardóttur fólgið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.