Þrjár einstakar en ólíkar myndir
25.12.2012 | 12:26
Jóladagsmorgun er alltaf einstaklega fallegur í hógværð sinni og kyrrð. Hvergi heyrist hljóð, þögn ríkir, jafnvel hér í Reykjavík. Þessar fyrstu stundir eru yndislegar og sú spurning dettur inn í kollinn, af hverju getur þetta ekki verið svona á hverjum degi ...? Svarið er afar einfalt. Þá myndi jóladagsmorgun ekki lengur skera sig úr öllum öðrum 365 dögum ársins.
Ég hef búið við Húnaflóa. Þar finnast mér fallegt. Skýjafar við flóann eru stórkostleg og engin hógværð í tilbrigðum náttúrunnar á þeim slóðum. Fyrsta myndin er af bát sem siglir inn flóann í október árið 2009 og ég tók myndina frá Spákonufellshöfða á Skagaströnd. Þarna var kyrrðin algjör og þó langt væri í bátinn mátti heyra lávært vélarhljóðið. Þetta myndu einhverjir kalla stemmingsmynd og vissulega er hún það.
Margir halda að ég hafi eitthvað fiktað í næstu mynd og breyta henni. Það kann ég ekki. Hún er eins sönn og aðstæður voru á þessum degi í nóvember 2010. Ég var á leiðinni til Skagastrandar og þarna ólmuðust skýin í skammdeginu fyrir ofan bæinn og fjær sést engu að síður yfir til Stranda. Myndina tók ég út um bílgluggann og dauðsé eftir því að hafa ekki stillt upp með þrífót.
Þriðja og síðasta myndin er ekkert merkileg ljósmynd sem slík en hún sýnir skemmtilegt fyrirbrigði. Þarna er horft inn eftir Húnafirði. Regnþrungin ský hanga yfir hafi og landi en svo gerist það smám saman að skýr fellur á og þá er eins og himinn og haf tengist.
Man ekki hvort ég hef birt þessar myndir áður en mér þykir afar vænt um þær. Lesendur gætu haft gaman af því að smella á myndirnar og stækka þær allt upp í skjástærð. Þannig njót þær sín ágætlega.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:28 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.