Fallegir siðir um jól

Dagurinn er búin að vera fallegur í Reykjavík. Veðrið er milt og kyrrt og svo virðist sem jólin læðist inn hægt og hljótt. 

Við feðgar, Bjarki og ég, höfum verið á ferðinni um bæinn síðustu stundirnar. Útréttað og gengið frá því sem þarf að klára. Fórum í hádeginu til mágkonu minnar, Helgu Sveinsdóttur, ekkju Sigfinns, bróður míns. Hún fær jafnan til sín gott fólk og býður upp á möndlugraut, alveg fáránlega góðan. Hefðin hefur breyst á undanförnum árum. Maður ólst upp við heitan grjónagraut sem forrétt á aðfangadagskvöld og í honum faldi mamma möndluna. Þegar ég fór að búa hélt ég þessum sið í mörg ár.

Aðfangadagskveldi eyðum við feðgar að venju hjá Grétari syni mínum, Sonju konu hans og börnunum fjórum, Írisi, Rakel, Unni og Vilhelm. Get ekki hugsað mér neitt betra.

Bjarki hefur verið við nám í Hollandi undanfarin ár og þangað fer hann aftur milli jóla og nýjárs og hittir þar sambýliskonu sína, hana Önnu.

Heiðrún dóttir mín býr í Noregi ásamt Sigmari Ólfjörð Kárasyni, sambýlismanni sínum. Fékk að vita það rétt fyrir jól að hún er kona eigi einsömul og væntir sín líklega í maí. Þetta var besta jólagjöfin að þessu sinni.

Og nú rölti ég inn í rökkrið, fer út í kirkjugarð og kveiki á kertum á leiði foreldra minna. Finnst þetta alltaf fallegur siður.

Óska lesendum mínum gleðilegra jóla. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Það er rétt hjá þér, Sigurður, þessi aðfangadagur er einn sá fallegasti sem ég man eftir - og hef ég þó lifað þá marga.

Óska þér einnig gleðilegra jóla.

Kolbrún Hilmars, 24.12.2012 kl. 16:49

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Satt er það, Kolbrún. Allt verður svo yndælt og fallegt á aðfangadag. Jafnvel Esjan brosti í dag til sólar. Og mannfólkið dregur upp sitt besta bros og sem logar bjart eins og kerti í snjó. Svona hrekkur maður í jólastuðið.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 24.12.2012 kl. 17:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband