Til hamingju, Hornfirðingar

P0005651

Árangur íþróttaliða frá landsbyggðinni vekja alltaf athygli og varla er hægt að hugsa sér jákvæðari auglýsingu fyrir sveitarfélag en þróttmiklir íþróttamenn á öllum aldri sem sameinast í að láta að sér kveða, hver í sinni grein.

Að mörgu leyti standa Hornfirðingar framar öðrum landsmönnum. Nefna má að óvíða er fegurri fjallasýn en frá Höfn, nema ef vera skyldi frá öðrum stöðum í Austur-Skaftafellssýslu. Þarna gleður allt augað. Veðráttan þarna er með afbrigðum góð.

Nú, og svo má nefna að íbúarnir eru einstaklega gott fólk. Það get ég borið vitni um eftir að hafa búið á Höfn í nokkur ár og kynnst fjölda manns, allt frá Skaftafelli í vestri og yfir til Lóns í austri. 

Dugnaði þessa fólks er viðbrugðið. Sést best á fjölhæfni atvinnulífsins, styrk sjávarútvegs, lífvænlegri ferðaþjónustu, blómlegum landbúnaði og jafnvel er þarna iðnaður og hátækniiðnaður.

Samfélagsleg ábyrgð er mikil. Skinney-Þinganes ákvað að gefa þessu góða samfélagi íþróttahús sem verður vígt í dag. Þetta er stórkostleg gjöf. Með þessu segir fyrirtækið einfaldlega: Við þrífumst ekki nema samfélagið sé gott og við leggjum okkar til að fólki geti liðið vel.

Þess vegna er ástæða til að fagna með Hornfirðingum og óska þeim til hamingju með nýja íþróttahúsið. Framar öllu ber þó að taka ofan fyrir Skinney-Þinganesi. Fordæmi þeirra er mikið og vonandi öðrum fyrirtækjum til eftirbreytni. 

Ég er þess fullviss að eftir nokkur ár verður Sindri kominn með fótboltalið í efstu deild og í frjálsum íþróttum munu fjölmargir Hornfirðingar láta að sér kveða. 


mbl.is Hornfirðingar fá veglega jólagjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband