Farsæll stjórnandi að engu metinn hjá FME

Lítil frétt á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu á laugardaginn vakti athygli mína. Sagt er þar frá Sigurði Jóhannessyni, stjórnarmanni Stapa lífeyrissjóðs, sem Fjármálaeftirlitið taldi ekki nægilega hæfan og rak úr stjórninni. Ennfremur kemur fram að í tilkynningu Samtaka atvinnulífsins að Sigurður hafi verið í varastjórn og samtökin telji hann fullkomlega hæfan til stjórnarsetu.

Sigurður Jóhannesson sat í aðalstjórn lífeyrissjóðsins Stapa en í maí síðast liðinn hætti hann sem stjórnarmaður en var þess í stað kjörinn sem varamaður í stjórn.  

Mér finnst þetta mál kalla á dálitla skoðun. Hvernig getur það verið að Fjármálaeftirlitið hafi vikið manni úr stjórn lífeyrissjóðs þegar sá sat í raun og veru í varastjórn. Menn í varastjórn hafa hingað til ekki þurft að gangast undir hæfismat og því engar forsendur til að reka þann sem þar situr vegna forsendna sem gerðar eru til stjórnarmanna.

Svo er það hitt sem er jafnvel enn áhugaverðara. Sigurður Jóhannesson er framkvæmdastjóri SAH afurða ehf. á Blönduósi sem er sláturhús og kjötvinnsla og veltir tæplega tveimur milljörðum króna á ári. Þar hefur Sigurður verið við stjórnvölinn í nærri tuttugu ár og er þar af leiðandi að vera kominn með margvíslega reynslu og þekkingu í fjármálum hald er í, jafnvel fyrir lífeyrissjóð. Annars væri hann í öðrum störfum.

Fjármálaeftirlitið gerir slíkar kröfur að reyndur stjórnandi stórfyrirtækis er talinn óhæfur. Hvernig getur það verið? Gæti verið að vandinn liggi í hæfnisprófinu sem slíku, það geri óhæfilegar kröfur um bóklega þekkingu á fjármálalegum skilgreiningum á erlendum málum en leggi minna úr almennri skynsemi og reynslu í rekstri og fjármálum? Er fjármálavit ekki þekking?

Nú verður því eflaust svarað á þann veg að lagt er samskonar próf fyrir alla og niðurstaðan sé einhlít, þeir sem ekki ná tilskyldum árangri, skiptir engu á hvaða sviðum prófsins, þeir falla. Þeim er boðið að taka prófið aftur og samkvæmt upplýsingum FME ná flestir prófinu í annað sinn. Hins vegar hefur enginn varamaður í stjórn lífeyrissjóð hingað til verið kallaður í prófið, aðeins Sigurður Jóhannesson. Og enginn varamaður hefur verið með valdi settur úr varastjórn, nema Sigurður Jóhannesson. FME svara engum spurningum um þetta.

Þegar öllu er á botninn hvolft er fer ekki hjá því að menn velti því fyrir sér hvort það sé einhver ástæða til þess fyrir fólk að gefa kost á sér í stjórnir lífeyrissjóða. Svo strangar og jafnvel óeðlilegar reglur gilda um hæfi að vart er við því að búast að reynt og gott rekstrarfólk gefi kost á sér. Þar að auki eru laun fyrir stjórnarsetu ekki slík að þau heill neinn.

Fyrir vikið er líklegast að þurrð verði á fólki með góða stjórnunarreynslu úr viðskiptalífinu í stjórnum lífeyrissjóða og tímabil reynsluminna fólks taki við, fólk sem tileinkar sér réttu svörin en því miður er ekki spurt um skynsemina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband