Jón og Guðni, ólíkir en góðir

Tvo ólíkari menn veit ég ekki en Jón Magnússon, lögmann, og Guðna Ágústsson, fyrrverandi alþingismann og ráðherra. Þann fyrrnefnda hef ég þekkt frá unglingsárum. Þann síðarnefnda þekki ég ekki persónulega en í langan tíma hef ég ekki komist hjá því að kynnast honum í fjölmiðlum.

Ég hef alltaf dáðst á mörgum kostum Jóns Magnússonar. Hann er afar vel máli farinn, rökfastur og skynsamur. Það er hægt að hlusta á hann og láta sannfærast. Þó er ég þannig gerður að ég spyrni oft við fótum, hef gagnrýnt Jón, oft ótæpilega, til dæmis á þessum vettvangi.

Þann 18. febrúar 2009 sagði ég þetta um Jón:

Jón Magnússon starfaði hér á árum áður mikið fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann var formaður Heimdallar, formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna, sat í miðstjórn flokksins og gegndi fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum.

Jón yfirgaf Sjálfstæðisflokkinn þegar honum fannst hann ekki ná nógum góðum árangri innan hans. Ég var mjög ósáttur við Jón á þeim tíma, taldi hann hafa hlaupist á brott vegna eigin hagsmuna, hann hafi ekki sætt sig við lélegt fylgi innan flokksins. Ég var og er á þeirri skoðun að Jón gæti bara kennt sjálfum sér um. Slakt gengi þarf ekki endilega að vera þess eðlis að flokkurinn hafi hafnað honum eða flokkurinn hafi færst frá honum svo gripið sé til útslitinna frasa.

En nú er Jón kominn aftur og veri hann velkominn. Staða hans er án efa betri innan Alþingis og væntanlega mun hann framvegis taka þátt í störfum flokksins. Það er engin ástæða að dvelja við það sem á undan hefur gengið heldur horfa fram til næsta landsfundar og svo kosninganna í lok apríl.  

Sem sagt, Jón var kominn heim eftir nokkra ára flokkaflakk og leit að sjálfum sér. Í ljós kom að hann átti að leita heima, það er í Sjálfstæðisflokknum.

Um Guðna Ágústsson hef ég nokkuð skrifað, fyrst og fremst vegna þess að ég styð hann ekki í stjórnmálum og er á móti mörgu því sem hann stendur fyrir. Stundum skrifa ég pistla sem ég einhverra hluta vegna kýs að birta ekki. Í desember 2011 ætlaði ég að birta pistil um jólahald, gerði það ekki, einhverra hluta vegna, en í honum er þessi tilvitnun:

Það er alrangt að þrjár máttugustu stoðir mannlífs á Íslandi séu heimilin, skólinn og kirkjan. Þessu heldur framsóknarmaðurinn Guðni Ágústsson fram í fúlustu alvöru. Hann veit ekki að kirkjan hefur fyrir löngu tapað orrustunni við verslunina og þar með því sem næst öllum áhrifum sínum á landsmenn. 

Held að þetta þurfi ekki neinna skýringa við. Fyrir tæpu ári skrifaði Guðni alræmda dellugrein um Jóhönnu Sigurðardóttur sem hrökklaðist úr ríkisstjórn 1994 eftir að Guðni horfði á tíu hvíta svani fljúga yfir Þingvelli ... Þetta og fleira varð mér tilefni til að skrifa eftirfarandi:

Kallinn skrifar alltaf of langt mál, setningar eru langar og oft ærið flóknar. Að auki virðist hann ekki alltaf viss hvernig hann ætlar að takast á við umræðuefni sitt. Hann fer út um víðan völl og innihaldið sömuleiðis. Hann kann alls ekki að skipuleggja hugsanir sínar og setja þær markviss í greinarform. 

Ekki svo að skilja að ég hafi aldrei verið sammála Guðna. Það var ég vissulega er hann að mínu mati flengdi Samfylkinguna með grein í Morgunblaðinu þann 5. október á þessu ári. Þá skrifaði ég eftirfarandi á bloggsíðuna:

Þetta segir Guðni Ágústsson, fyrrum þingmaður og ráðherra, í afspyrnugóðri grein í Morgunblaðinu í morgun (feitletranir og greinaskil eru mín). Auðvitað er þetta hárrétt hjá Guðna. Ábyrgir stjórnmálamenn tala ekki niður gjaldmiðil sinn. Það gera hins vegar ráðherrar Samfylkingarinnar. Þeim er ekki lengur neitt heilagt og enga virðingu bera þeir fyrir krónunni.

Og nú eiga Jón Magnússon og Guðni Ágústsson saman grein í Moggann í morgun og vilja að við Íslendingar sækjum hundraða milljarða skaðabætur á hendur Bretum.

Fínt ... ég er sammála. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sigurður; sem oftar !

Guðni Ágústson; er óþverri af 1° .

Þetta hrakmenni; stuðlaði að niðurbroti Hraðfrystihúss Stokkseyrar h/f, í minni gömlu heimabyggð, ásamt þorra samþingmanna sinna á Suðurlandi, að drengskaparmanninum Eggert Haukdal á Bergþórshvoli, einum undanskildum, árin 1987 - 1992.

Þá; kom Guðni Lánasjóði Landbúnaðrinarins á kné, árið 2005 - með því að afhenda íslenzku Banka Mafíunni sjóðinn, á Silfurfati.

Svei attan; Guðna - og öðrum, af hans meiði, Sigurður minn !

Með beztu kveðjum til þín; vitaskuld - öngvum; til Guðna og hans líka / 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 5.12.2012 kl. 12:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband