Ofbeldi, bitlingar og sjálfshól Starfs
3.12.2012 | 11:45
Atvinnuleitendur eru ekki allir eins, segir Þorsteinn Fr. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Starfs, í grein í Fréttablaðinu síðasta föstudag. Þetta er þó aðeins í orði því í verki gengur Starf út frá því að allir atvinnuleitendur séu eins.
Fyrirtækið veit auðvitað ekki betur og kann ekki að greina á milli þeirra sem eru án atvinnu. Hvernig má annað vera? Fyrirtækið er ekkert í viðskiptum heldur tottar atvinnuleysistryggingasjóð til hagsbóta fyrir eigendur en hefur ekki úr neinum hagnýtum úrræðum að moða umfram það sem Vinnumálastofnun hafði.
Starf á að heita vinnumiðlun og ráðgjöf sem þjóna á atvinnuleitendum. Verkefnið var áður í höndum Vinnumálastofnunar. Þar var engin stjórn eða varastjórn á fullum launum né heldur framkvæmdastjóri.
Verkefnið gekk þar þokkalega fyrir sig þangað til verkalýðs- og atvinnurekendur fundu það út að þeir gætu haft persónulega einhverjann ávinning ef þeir stofnuðu fyrirtæki sem sem gerði ekkert annað en að apa eftir það sem Vinnumálastofnun hafði gert. Miðað við allt er útilokað að einhverjar aðrar hvatir hafi legið að baki.
Ekkert nýtt er í rekstri þessa fyrirtækis eða úrræðum sem ekki var hjá Vinnumálastofnun. Allt hjal framkvæmdastjórans Starfs er réttlæting og raunar ekkert nema sjálfshól.
Starf býr ekki til starf
Framkvæmdastjóri Starfs hefur ekkert fram að færa en uppdiktaða lofgjörð. Hann getur ekki fært nokkrar sönnur fyrir því að Starf geti gagnast atvinnuleitendum betur en Vinnumálastofnun. Ekki heldur getur hann sýnt fram á að ráðgjafar Starfs séu þess betur umkomnir að aðstoða atvinnuleitendur en starfsfólk Vinnumálastofnunar gat.
Framkvæmdastjórinn lítur viljandi framhjá grundvallaratriði. Starf býr ekki til störf, getur það ekki og mun aldrei geta það, hversu sennilega sem hann hælir fyrirtækinu, sjálfum sér eða öðrum starfsmönnum þess.
Úrræði vegna bitlinga
Gagnið af Starfi er alls ekkert, alls ekkert. Það er einungis tilfærsla á verkefnum frá þeim sem hafa sinnt þeim á nákvæmlega sama mátann og Starf gerir.
Hið eina sem virðist vera jákvætt er að tíu stjórnarmenn og varastjórnarmenn fá uppbót á þau laun sem þeir hafa fyrir. Bitlingapólitíkin lifir ... Auk þess fékk Þorsteinn Fr. Sigurðsson starf sem framkvæmdastjóri en hann var atvinnulaus eftir að stjórnlagaráðsverkefnið leið undir lok. Líklega er þetta eina tilvikið sem Starf getur hrósað sér af því að hafa útvegað einhverjum starf. Og það nefndi framkvæmdastjórinn ekki.
Sjálfshólið
Af grein Þorsteins lekur sjálfshólið enda getur hann ekki rökstutt mál sitt á neinn hátt:
Tilgangurinn er að þjónustan verði markvissari og er það sannfæring þeirra sem að verkefninu standa að aðkoma SA að því tryggi nánari tengingu við atvinnulífið en náðst hefur fram til þessa. Þessi samvinna heildarsamtaka stéttarfélaga (ASÍ) og heildarsamtaka atvinnulífsins (SA) í aðgerðum gegn atvinnuleysi, er sennilega einstök á alþjóðavísu.
Að hvaða leiti tryggir tengingin við SA árangur? Það hefur ekki gert það hingað til. Eða moka stjórnarmenn SA störfum inn í Starf?
Einn og aftur: Hið eina sem þetta dæmalausa fyrirtæki gerir er að hæra í sama grautarpottinum og Vinnumálastofnun gerði á sama hátt.
Samstarf ASÍ og SA í Starfi getur sannanlega verið einstakt á alþjóðavísu en það hefur ekkert komið út úr því. Hvernig ætti það að vera öðruvísi. SA á engin störf á lager.
Störf verða aldrei til fyrir atbeina Starfs heldur vegna þjóðfélagslegra aðstæðna, eins aukinnar verðmætasköpunar í þjóðfélaginu sem núna er í lágmarki. Væntanlega er því annars staðar unnið að lausn þeirra mála og skiptir engu hversu margar greinar framkvæmdastjórinn skrifar.
Þvingun og hótanir
Í tilraun til að fegra og réttlæta tilvist Starfs stendur ekkert annað upp úr en þvingunin. Allir atvinnuleitendur eru settir undir sama hatt, án tillits til þekkingar, reynslu eða menntunar. Þeim er skipað í krafti laga til að sækja námskeið. Að öðrum kosti er þeim hótað missi bóta. Engar mótbárur eru teknar gildar annars ...
Þetta, nákvæmlega þetta, telja ráðgjafar og framkvæmdastjóri Starfs sér til tekna. Með hótunum og yfirgangi eru atvinnuleitendur settir í þvingu vegna þess að þeir eru allir álitnir eins. Fullyrðingin sem vitnað er til í upphafi þessa pistils og framkvæmdastjórinn notar meira að segja í fyrirsögn er hér með afsönnuð.
Kvartanir
Í ofanálag er kvartar fólk sem skikkað er til að sækja skyldunámskeið Starfs undan ráðgjöfum fyrirtækisins og til verður þöggun. Enginn þorir að standa opinberlega upp og mótmæla óréttlæti af ótta við að verða látinn gjalda þess með bótamissi eða einhverju öðru. Leiðir Starfs til að láta kverútlanta gjalda eru óteljandi ... Í ljósi þessa er óhætt að draga í efa þessa fullyrðingu framkvæmdastjórans:
Þjónustan er því markvissari en verið hefur þar sem þekking er til staðar á faginu" og mun dýpri skilningur á þörfum, fagþekkingu og á starfsreynslu viðkomandi hóps atvinnuleitenda.
Ekki vantar gildishlöðnu orðin, en þetta er engu að síður innantómt tal og sýndarmennska. Óafvitandi eru atvinnuleitendur hér orðinn hópur ... Framkvæmdastjóri sagði þó annars staðar: Atvinnuleitendur eru ekki allir eins.
Starf er ekki betri leið fyrir atvinnuleitendur en Vinnumálastofnun. Betra hefði verið að halda sig við hana, það hefði verið ódýrara.
Enginn vill vera atvinnulaus svo ekki bætist það við að vera niðurlægður af fyrirtæki sem ekkert erindi á til atvinnuleitenda en að hrekkja þá.
Myndin er af blaðsíðu 30 í Fréttablaðinu föstudaginn 30. nóvember. Takið eftir fallegum jólatrésauglýsingum frá Byko og Sunnuhlíð ... og jú, þarna er grein framkvæmdastjóra Starfs.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.