Við njótum útiveru og ferðalaga, tökum ástfóstri við landið
15.11.2012 | 18:55
Margir spyrja hvers vegna maður með áherslur á náttúruvernd og umhverfismál sé að bjóða sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Eru þessi mál ekki bara eitthvað fyrir vinstra liðið?
Nei, ekki mínu mati. Ég hef lengi ferðast um landið, oft með allan farangur á bakinu, mat, tjald og svefnpoka. Við sem þannig njótum útiveru og ferðalaga lítum ekki á landið með tilfinningalausum gagnaugunum. Við tökum ástfóstri við það, viljum vernda það og verja. Ekki síst til að börnin okkar og óbornar kynslóðir geti notið þess á sama hátt og við gerum. Kannski hallærislega sagt, en er þetta ekki rökrétt afstaða?
Vatnsaflið
Ég hef haldið því fram að við þurfum að fara varlega í mannvirkjagerð. Við gætum hæglega breytt Langasjó og Hólmsárlóni í miðlun fyrir vatnsaflsvirkjun, hækkað yfirborð Þingvallavatns og kaffært hinn forna þingstað. En þetta gerum við ekki, við fórnum ekki náttúruperlum eða sögustöðum til þess eins að safna kílóvöttum. Ég veit að sjálfstæðismenn eru mér sammála.
Það er varla forsvaranlegt að eitt hundrað árum eftir að Einar skáld Benediktsson hvatti til vatnsvirkjana skuli tækniþróunin ekki lengra komin en svo að enn er land kaffært í vatni til að gera miðlunarlón fyrir virkjun.
Gufuaflið
Jú, gufuaflsvirkjun var byggð við Hellisheiði og menn héldu að nýir tímar væru framundan. Flest hefur þó farið í kaldakol á Kolviðarhóli. Öll mannvirki þar eru í hróplegu ósamræmi við umhverfið.
Stöðvarhúsið lítur út eins og misheppnuð flugstöð, vegir hafa verið lagðir út um allt, rör liggja sem lýti á landinu og borholur eru uppi á fjallstindum. Og vegna niðurdælingar kælivatns verða jarðskjálftar sem enginn bjóst við eða skilur til hlítar.
Sjálfstæðismenn eru eins og aðrir landsmenn. Við göngum um fjöllin, tökum ástfóstri við landið, höfum lært að njóta þess. Viljum varðveita það rétt eins og allir aðrir, en við þurfum að segja það upphátt, taka afstöðu.
Ég vona að sjálfstæðismenn í Reykjavík séu mér sammála, taki þátt í prófkjörinu og styðji mig í sjötta sætið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þú hefur væntanlega séð mig endurtaka það nokkrum sinnum í bloggi mínu, að það eigi ekki að draga samasemmerki á milli Sjálfstæðisfólks og forystumanna flokksins og fyrir þessu hef ég fært þau rök, að í áhugaverðum skoðanakönnunum um umhverfismál hefur stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins verið stærsti flokkspólitíski hópurinn að höfðatölu, sem hefur stutt náttúruverndar- og umhverfissjónarmið sem eru á skjön við stefnu flokksforystunnar.
En þarna er um að ræða þá, sem gefa það upp í skoðanakönunum, að þeir myndu kjósa flokkinn, væri gengið til kosninga.
Þeir, sem hafa kosningarétt í prófkjörum flokksins, eru hins vegar aðeins brot af þessum breiða hópi stuðningsfólks, og við sjáum jafnvel í síðasta prófkjörinu í Kraganum, að aðeins þriðjungur kosningarbærra tók þátt.
Mér þykir þú kjarkaður að fara af stað í prófkjör í Reykjavík eftir að hafa séð hvernig þeim, sem þorðu að hafa "óæskilegar" skoðanir í umhverfismálum, s. s. Ólafi F. Magnússyni og Katrínu Fjeldsted, var refsað harðlega.
En einmitt þess vegna tek ég ofan fyrir þér að leggja upp í þessa vegferð og ætla ekki að draga úr þér með það.
Ómar Ragnarsson, 15.11.2012 kl. 20:06
Þakka þér fyrir innlitið. Hvað á ég eiginlega að gera annað en að standa við sannfæringu mína og reyna að afla henni fylgis?
Hugsanlega næ ég árangri. Það veltu á þeirri kynningu sem ég fæ. Góð orð frá þér hafa til dæmis mikið vægi meðal Sjáflstæðismanna af þeirri ástæðu sem ég gef í pistlinum.
Það er að verða kynslóðabreyting og fleiri og fleiri gera eins og ég, ferðast um landið. Þá er óhjákvæmilegt að fólk taki ástfóstri við það.
Það eru nefnilega ekki allir eins og ráðherra framsóknarflokksins sem sagði á sínum tíma að henni fyndist Eyjabakkar ekki tilkomumiklir. Hún lét aka sér þangað og fór akandi í burtu.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 15.11.2012 kl. 23:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.