Orustan um hin ósnortnu víðerni
13.11.2012 | 10:28
Friðurinn er úti á Kili ef við samþykkjum að gera þar heilsársveg, hraðbraut sem fer skemmstu leið frá norðri til suðurs. Þetta er dýr framkvæmd en tæknilega sér er hún afar auðveld. Hugmyndin heillar mig alls ekki, síður en svo.
Látum okkur ekki detta það í hug eitt einasta andartak að nýr vegur yfir Kjöl verði lagður eftir þeim gamla. Nei, reynslan sýnir að vegir eru lagðir eftir hagkvæmnissjónarmiðum, þar sem styst er og þá horfir enginn í aðra hagkvæmni en þá fjárhagslegu.
Vegurinn yrði byggður hátt til að hann safnaði ekki á sig snjó að vetrarlagi. Og það hátt yrði hann lagður að hann væri sjáanlegt lýti á landslaginu hvaðan sem litið er, ekki síður úr loft en af fjöllum og jöklum og láglendi.
Með heilsársvegi yfir Kjöl mun verða stórkostleg breyting á afstöðu stjórnvalda til vega og mannvirkjagerðar annars staðar á hálendinu. Um leið má leggja af aðra ferðaþjónustu en þá sem byggir á akstri og gluggagóni. Hið ósnortna víðerni verður ekki nema svipur hjá sjón og kröfur verða gerðar um heilsársveg yfir Sprengisand og þá verður áreiðanlega gerð krafa um tengingar þessara tveggja vega, annars vegar sunnan Hofsjökuls og hins vegar norðan hans.
Í öllu þessu felst sú reginskyssa að Norðurland sé alltof langt frá Reykjavík og þá landfræðilegu staðreynd þurfi að leiðrétta með öllum tiltækum ráðum. Fæstum dettur í hug að spyrja sig þeirrar spurningar hvers vegna Reykjavík sé upphaf og endir alls þess sem sé eftirsóknarvert hér á landi. Svarið er tiltölulega einfalt og felst í misheppnaðri byggðastefnu þjóðarinnar síðustu áratugi.
Verði af heilsársvegi yfir kjöl munum við eflaust fá þann dóm í framtíðinni að kraftur tæknivits nú á dögum hafi verið mikill en af öðru viti höfum við verið hræðilega laus og þar með talin heilbrigð skynsemi.
Ég tek heilshugar undir herhvöt í leiðara Morgunblaðsins 5. febrúar 2007 og vona að Morgunblaðið sé enn þessarar skoðunar. Leiðarinn er ritaður fyrir hrun og varar eindregið við þeirri heimsku okkar að við getum einfaldlega gert það sem vil viljum án þess að hugsa út í afleiðingarnar:
Það á að vera erfitt að ferðast um íslenzkar óbyggðir. Það er hluti af þeimtöfrum, sem fylgja því að ferðast um þessi landsvæði, að þau séu erfið yfirferðar, að það þurfi að hafa fyrir því að fara um þau. Að þar séuekki malbikaðir vegir. Að við þá vegi séu ekki benzínstöðvar og sjoppur. Það er óskiljanlegt að menn láti sér detta þetta í hug.
Flest bendir til að stjórnvöld muni ekki taka upp sjálfsagða baráttu gegn slíkum hugmyndum. Það er óskiljanlegt að þeir stjórnmálamenn, sem eru nýkomnir út úr hörðum átökum vegna Kárahnjúkavirkjunar, láti sér til hugar koma að stuðla að því að malbikaðir vegir verði lagðir um hálendið.
Hvar er Framtíðarlandið nú? Hvar eru náttúruverndarsamtökin nú? Skilja þessir aðilar ekki sinn vitjunartíma? Þeir töpuðu slagnum um Kárahnjúkavirkjun en þeir geta unnið þessa orustu, sem nú er augljóslega að hefjast. Hvar er Andri Snær nú? Hvar er Ómar Ragnarsson nú? Snýst barátta þessa fólks bara um virkjanir? Er þeim alveg sama þótt hálendi Íslands verði eyðilagt með malbikuðum vegum?
Átökin um vegina um hálendið eru að hefjast. Núna. Þetta er síðasta orustan um hin ósnortnu víðerni milli jöklanna, þar sem hvítir jöklar, svartir sandar og fagurbláar ár kallast á. Verði malbikaður vegur lagður um Kjöl er orustan töpuð.
Ég er á móti heilsársvegum á hálendinu og mun berjast gegn þeim.
Kristján vill veg yfir Kjöl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:30 | Facebook
Athugasemdir
Það er ekki spurning hvort, heldur hvenær þessi vegur verður lagður. Ég styð hugmyndina heils hugar. Þessi "rykvegur" sem fyrir er leggst þá af.
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.11.2012 kl. 10:33
Væri ekki nær að byrja á að uppfæra úrelta vegakerfið sem liggur um láglendið áður en við förum að ráðast á hálendið?
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 13.11.2012 kl. 10:42
Gunnar, kosturinn er sá að enginn þarf að fara „rykveg“ nema hann vilji.
Kristján, ég er sammála þér en ég hefði sett punkt á eftir láglendið og sleppt niðurlaginu.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 13.11.2012 kl. 10:44
Heils árs vegur yfir Kjöl yrði mikil bót fyrir láglendisvegakerfið vegna minni umferðar, álags og slysahættu.
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.11.2012 kl. 11:15
Góð skrif eins og alltaf Sigurður!
Ég vann við það í nokkur ár frá 2000 að taka á móti erlendum ferðamönnum á Keflavíkurflugvelli, sem allir vilja komast á þessi svæði og fara þangað í stórum hópum.
Ég býst við að það sjónarmið muni fljótt koma fram að það þjóni hagsmunum ferðaþjónustunnar í landinu að hið minnsta, einn af þessum hálendis stofnvegum verði lagaður verulega, hugsanlega malbikaður. Var á ferð um Svissnesku Alpana í haust ... þar eru flestir stígar lagðir tilhöggnum steini, malbikaðir eða á annan hátt varanlegir.
Ástæðan er fjárhagslegs eðlis. Eyðileggingin á ökutækjum sem farið er á inn á þessa F-merktu vegi er svo umfangsmikil að það vegur oft að rekstrargrundvelli margra fyrirtækja sem byggja afkomu sína á slíkri útgerð. Þetta sjónarmið ætti líka að heyrast frá tryggingafyrirtækjum sem fá þessi tjón til skoðunar og bóta í tugatali í hverri viku sumarið á enda. Við erum að tala um stórfellda eyðileggingu á ökutækjum að hluta eða að fullu sem stafar frá ástandi veganna sem mest eru eknir, sérstaklega Kjalvegar sem þrátt fyrir góða viðleitni Vegagerðarinnar er nánast ófær öllum venjulegum ökutækjum viku eða tíu dögum eftir að hann er opnaður.
Flottir pistlar hjá þér og ég óska þér góðs gengis í því sem framundan er. G.
Guðmundur Kjartansson, 13.11.2012 kl. 12:02
Bestu þakkir, Guðmundur. Ætli það sé ekki einfaldar að koma fyrir einhvers konar „sensorum“ í bílum og á vegum . Um leið og farið er inn á veg sem bílaleigubílar eru ekki tryggðir til að vera inni á þá drepist sjálfkrafa á þeim og djúp rödd og mikilúðleg glymji í hátölurum bílsins skýri út ástæðuna ...
Svona grínlaust, þá hljóta að vera einhver ráð með að skýra út fyrir leigutökum hvernig landið liggur - svona bókstaflega.
Ég hef nokkrum sinnum lent í því að stoppa bílaleigubíla á fjallvegum og reynt að benda fólki á villur þeirra vegar. Man eftir einum síðasta sumar sem var á leið inni í Þórsmörk eða Goðaland og þóttist vera á fjórhjóladrifnum bíl, þetta var bíll með sídrifi og bílstjórinn vissi ekkert út í hvað hann var að fara, afði enga reynslu eða þekkingu í vatnaakstri.
Bestu þakkir fyrir góðar óskir.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 13.11.2012 kl. 13:33
Góð skrif.
Hjartanlega sammála.
Marta B Helgadóttir, 14.11.2012 kl. 00:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.