Ófrægingarherferðin gegn Ríkisendurskoðun

Nú er hafin ófrægingarherferð á hendur Ríkisendurskoðun enda ljóst að stofnunin hefur gert í brók sína vegna endurskoðunar á kaupum á bókhaldskerfi. Viðbrögð fjárlaganefndar eru þó í engu samræmi við ávirðingarnar. Í raun verður henni á svo mikið glappaskot að líkja má því við að veiðimaðurinn skjóti sig í fótinn í upphafi veiðiferðar. Það veit ekki á gott. 

Hafi rofnað traust á milli Ríkisendurskoðunar og fjárlaganefndar er það undarlegt vegna þess að það þarf meira en eitt glappaskot til að löggjafarþingið lýsi frati í eigin stofnun. Öllum verður á, mismikið að vísu.

Glappaskot ríkisstjórnarinnar svo dæmi sé tekið eru orðin svo mörg að það ætti að hafa orðið til þess að milli löggjafarvalds og framkvæmdavald ríkti ekkert traust.

Og sé út í það farið ætti ekkert traust að ríkja á milli löggjafarvaldsins og þingmannsins Björns Vals Gíslasonar, svo mikil hafa glappaskot þess síðarnefnda verið. Hann var líka settur af sem þingflokksformaður Vinstri grænna til og endurunninn til að ráðast á Ríkisendurskoðun sem formaður fjárlaganefndar.

En bíðið við. Saga samsæri ríkisstjórnarinnar gegn Ríkisendurskoðun er ekki öll. Á næstu dögum eða vikum verður tekin fyrir tillaga til þingsályktunar um að stofnuð verði rannsóknarnefnd til að fara ofan í saumana á einkavæðingu bankanna. Í þeim umræðum munu koma fram mótrök þess efnis að Ríkisendurskoðun hafi fyrir mörgum árum framkvæmt slíka rannsókn og ekkert sérstakar ávirðingar fundið. Hvers vegna að rannsaka það mál aftur, mun stjórnarandstaðan spyrja?

Og hverju heldur þú, lesandi góður, að þeir sem standa að tillöguflutningnum muni svara?

Jú, þeir munu segja eftirfarandi: Það er ekkert að marka það sem Ríkisendurskoðun gerir. Sjáið bara hvernig stofnunin sinnti rannsókninni á bókhaldskerfinu. Dettur einhverjum í hug að rannsókn stofnunarinnar á einkavæðingu bankanna hafi verið eitthvað skárri?

Og þar með er leiðin greið fyrir meirihluta Alþingis. Ekki bara til að berja á þeim stjórnmálamönnum sem nú eru hættir heldur einnig til að breyta umræðugrundvellinum. Á kosningavetri mun ríkisstjórnin beita öllum þeim ráðum sem hugsast getur til að koma í veg fyrir að umræðan fjalli um ríkisstjórnina og mistök hennar.


mbl.is Treystir ekki Ríkisendurskoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

Já það er eitthvað bogið við þetta og ekki eins og á að vera, Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri virðast hafa fengið allar upplýsingar um þetta allt saman árið 2004.

Eftir að hafa lesið svörin sem Jóhanna Sigurðardóttir fékk við fyrirspurn sinni um þetta mál 2004 þá vaknaði sú spurning hvort þetta kerfi gæti verið of sjálfstætt byggt upp fyrir okkur í heild sinni og þar af leiðandi gæti sú staða verið komin upp að okkar kerfi hentar ekki inn í kerfi ESB án þess að ég viti nokkuð um það en þá vaknaði þessi spurning upp í huga mér...

Ég treysti ekki fjárlaganefnd lengur eftir allt þetta sukk á fjármunum okkar eins og hækkun launa forstjóra Landsspítlans gat gengið án þess að nokkur segði nokkuð fyrr en Þjóðin setti út á það þá var brugðist við...

Ríkisendurskoðun þarf vissulega að útskýra seinagang þennan á þessu og af hverju, en að fjárlaganefnd skuli ekki hafa vitað neitt er erfitt að trúa og auðveldara að trúa því að sú staða sé frekar komin upp að  fjárlaganefnd þoli kannski ekki endurskoðun og Ríkisendurskoðun meiri mannskap...

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 29.9.2012 kl. 00:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband