Skotgrafir kappræðu, átaka og ófaglegra vinnubragða
25.9.2012 | 09:59
Það er mál að linni. Við getum gert mun betur og endurvakið traust til Alþingis. Það verður ekki gert nema framkvæmdavaldið umgangist Alþingi af virðingu og viðurkenni þrískiptingu ríkisvaldsins. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra af gamla skólanum, á margt ólært í þeim efnum.
Atli Gíslason, þingmaður og lögmaður, segir þetta í lok greinar sem hann birti í Morgunblaðinu í morgun. Fyrirsögn greinarinnar er Forsætisráðherra af gamla skólanum. Í henni ræðir hann um vinnubrögð á Alþingi, virðingu þess og starfshættir. hann vandar ríkisstjórnarflokkunum eðlilega ekki kveðjurnar og það er engin furða.
Eftirfarandi segir hann um þau mál sem ríkisstjórnin leggur fram á þingi:
Um nokkur þeirra hefur jafnframt verið bullandi ágreiningur innan ríkisstjórnarflokkanna. Nægir þar að nefna Icesave-málið og frumvörp um stjórnarráðið og fiskveiðistjórn. Alþingismenn hafa verið settir í óþolandi stöðu. Við höfum fyrir bragðið setið í skotgröfum kappræðu, átaka og ófaglegra vinnubragða.
Það sem skiptir þó mestu máli er eiginlega þetta sem Atli segir og sýnir að ríkisstjórnin hefur enga stjórn á sjálfri sér né umhverfi sínu:
Og ekki bætir úr skák að ríkisstjórnin hefur klofið þjóðina með umsókn að ESB þegar svo brýnt var að ná samstöðu um uppbyggingu eftir hrun og eytt milljörðum í þá umsókn o.fl., í stað velferðar,skuldavanda heimilanna og annarra forgangsmála. Og ekki er reynt að leita samstöðu um grundvallarmál, svo sem stjórnarskrána, skipan ráðuneyta o.fl. sem breið samstaða þarf að vera um.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.