Valdsvið forseta túlkað frjálslega
28.6.2012 | 10:27
Forsetakosningar eru hins vegar ekki réttur vettvangur til þess að gera út um valdsvið forseta og þaðan af síður að það geti farið eftir því hver kjörinn er forseti hverju sinni, hvert valdsvið hans er talið.
Mér finnst þetta afar skynsamlega mælt og hefði nauðsynlega þurft að hafa komið fram fyrr í aðdraganda forsetakosninganna. Þannig er ritað, og mun meira af svipuðum nótum, í grein í Morgunblaðinu í morgun eftir sjö manns. Suma þeirra kannast ég dálítið við og ber mikla virðingu fyrir þeim. Höfundarnir heita: Áslaug Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Garðabæ, Benedikt Jóhannesson, stæðrfræðingur, Hallgrímur B. Geirsson, hrl., Hörður Sigurgestsson, rekstrarhagfræðingur, Jarþrúður Ásmundsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, Styrmir Gunnarsson, fyrrv. ritstjóri, og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi.
Þarna er tekið á umræðu sem fleirum en mér hefur gramist. Ég hef ekki getað skilið hvernig forsetaframbjóðendur geta túlkað stjórnarskránna eftir vild, leyft sér jafnvel að fullyrða að vald embættisins leyfi afskipti af löggjafarvaldinu. Rétt eins og sjömenningarnir segja í grein sinni þá verður forseti að gæta að þingræðisreglunni:
Samkvæmt þessu getur forseti yfirleitt ekki beitt valdi nema með atbeina ráðherra. Fljótt á litið mætti ætla að forseti réði nokkru um stefnu og aðstöðu ráðherra, þar sem hann samkvæmt 15. gr. stjskr. skipar ráðherra og veitir þeim lausn. En hér verður að gæta þingræðisreglunnar, sem áður hefur verið minnst á. Samkvæmt henni ber forseta, þrátt fyrir 15. gr. stjskr. að skipa ráðherra og veita þeim lausn í samráði við Alþingi eða meirihluta þess. Stjórnarathafnir ráðherra, sem tækju við skipun í ráðherraembætti eða sætu í ráðherrastóli andstætt vilja meirihluta þings yrðu að vísu formlega gildar en þeir mundu baka sér ábyrgð. Kæmi þá auðvitað til árekstra á milli þings og forseta og er hugsanlegt að þeir leiddu til frávikningar hans, ef þrír fjórðu þingmanna yrðu honum andstæðir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.