Veldur kvikuhreyfing jarðskjálftum á 0,1 km dýpi?

Jarðfræðingar Jarðfræðistofnunar eru að venju þöglir sem gröfin og þá sjaldan sem þeir tjá sig eru þeir eins og véfréttin sjálf. Við liggur að sérhæfða túlka þurfi til að skýra út það sem þeir láta stundum frá sér.

Það sem bögglast fyrir mér eru við lestur fréttarinnar á mbl.is eru þessir jarðskjálftar sem mælast á 0,1 km dýpi. Er svona stutt í kvikuna eða mælast hreyfingar á jöklinum sem skjálftar? 

Stærð þessara skjálfta eru samkvæmt jarðskjálftatöflu vedur.is frá 0,2 og upp í 2,1 sem er nú ansi mikið. Best gæti ég trúað að ef kvika er undir þá hljóti nú að sullast af og til upp úr, kitli að minnsta kosti botninn á jöklinum. Þó verður að geta þess að sumir af þessum litlu skjálftum eru stundum í skriðjöklum eins og ofarlega í Tungnakvíslajökli. Þá dettur manni í hug að íshrun mælist á ofurviðkvæmum jarðskjálftamælum.

Væri nú ekki tilvalið fyrir mbl.is að afla upplýsinga um þetta? 

---

Eftir að hafa birt þennan pistil hér að ofan sendi Vigfús Eyjólfsson mér tövlupóst og link á athyglisverða grein sem svara að nokkru því sem ég ræddi um. Færi ég honum bestu þakkir fyrir.

Um er að ræða grein úr mbl.is þann 9. desember 2007 með og er efni hennar þessi:

Skjálftarnir ótengdir kvikuhreyfingum í Kötlu 

Nýjar skýringar settar fram á jarðskjálftum í Goðabungu eftir víðtækar mælingar á vesturhluta Mýrdalsjökuls 

Skjálftarnir ótengdir kvikuhreyfingum í Kötlu

FYRSTU niðurstöður af úrvinnslu gagna úr tímabundnu jarðskjálftamælineti, sem sett var upp við vesturhluta Mýrdalsjökuls í vor, benda til að skjálftarnir í Goðabungu tengist íshreyfingum, sér í lagi í Tungnakvíslarjökli, og séu ótengdir kvikuhreyfingum í Kötlueldstöðinni eins og áður hefur verið talið.

Það er Kristín Jónsdóttir sem gerði mælingarnar í samvinnu við háskólann í Uppsölum og Veðurstofu Íslands en hún leggur stund á doktorsnám í jarðeðlisfræði við Uppsalaháskóla.

Virðast stafa af íshreyfingum

Kristín segir í samtali við Morgunblaðið að um bráðabirgðaniðurstöður sé að ræða og áfram verði unnið úr gögnunum. Kristín vann að mælingunum í apríl og maí sl. og er hún að vinna úr gögnunum um þessar mundir. „Ég fékk skjálftamæla lánaða frá Háskólanum í Uppsölum og í samvinnu við Veðurstofuna settum við út 10 stöðvar í vesturhluta jökulsins með það að markmiði að fá betri mælingar á Goðabunguskjálftunum,“ segir hún.

Kristín leggur áherslu á að þótt í ljós hafi komið að skjálftarnir í Goðabungu og vesturhluta jökulsins virðist stafa af íshreyfingum og séu ótengdir kvikuhreyfingum í Kötlu, verði að hafa í huga að langt er um liðið síðan Katla gaus síðast og hún er því komin á tíma eins og jarðvísindamenn hafa oft bent á. Það sé því full ástæða til þess að vera á varðbergi.

Eldstöðin Katla er ein virkasta og stærsta eldstöð landsins og hefur á sögulegum tíma gosið að meðaltali tvisvar á öld. Síðast gaus Katla 1918.

Gosin eru oftast basísk en ísúr gos má einnig rekja til eldstöðvarinnar.

Hún er hulin Mýrdalsjökli, fjórða stærsta jökli landsins. Vegna hinna miklu jökulhlaupa sem fylgja gosum er Katla verulega hættuleg eldstöð.

Kristín segir að skipta megi jarðskjálftum á svæðinu í tvo flokka, annars vegar eru það skjálftar sem verða innan í öskjunni og hins vegar skjálftar sem eiga upptök í vesturhlutanum við Goðabungu. Þessir skjálftahópar haga sér mjög ólíkt, segir hún. Skjálftar innan öskjunnar eru hefðbundnari, dreifast á allt að 15 km dýpi, auk þess sem þeir falla vel að líkönum skjálftafræðinnar varðandi stærð og dreifingu í tíma. Öðru máli gegnir um skjálftana við Goðabungu.

Frá því mælingar á jarðskjálftum hófumst í nágrenni Mýrdalsjökuls hafa fræðimenn tekið eftir sérkennilegum skjálftum sem eiga það sameiginlegt að eiga upptök sín í vesturhluta Mýrdalsjökuls. Kristín segir skjálftavirknina þar óvenjulega að mörgu leyti og hún falli illa að hefðbundnum líkönum skjálftafræðinnar. „Hún hefur þá sérstöðu að hún eykst verulega á haustin og nær yfirleitt hámarki í október. Þá mælist daglega fjöldinn allur af skjálftum allt upp í stærðina 3,5 en aldrei stærri. Hefðbundin líkön skjálftafræðinnar spá einum skjálfta af stærðinni 4 fyrir hverja tíu af stærðinni 3, einum af stærðinni 5 fyrir hverja tíu af stærðinni 4 o.s.frv.

Einnig kemur í ljós þegar einstakir skjálftar eru skoðaðir að þeir eru óvenju langir og sveiflan óvenju hæg. Ógreinileg byrjun skjálftanna gerir það að verkum að erfitt er að staðsetja þá.“

Skjálftavirkni jókst í takt við hlýnandi loftslag

Að sögn Kristínar mælast skjálftar sem eiga við þessa lýsingu á bylgjuformi stundum í nágrenni súrra eldstöðva, gjarnan sem undanfarar goss. Einnig þekkist að slíkir skjálftar mælist í nágrenni skriðjökla. Nýlegar rannsóknir sýni að hraðskreiðir skriðjöklar á Grænlandi mynda stóra hæga skjálfta þegar þeir skríða fram og nuddast við undirlag sitt.

Kristín kveðst hafa notað tíu hátækni-jarðskjálftamæla þegar hún réðst í það verkefni sl. vor að mæla skjálftana við Goðabungu. Markmiðið var m.a. að fá betri skilning á eðli skjálftanna. Fyrstu niðurstöður benda eins og áður segir til að skjálftarnir séu enn grynnri en áður hefur verið talið. Auk þess eiga flestir þeirra upptök ofarlega í Tungnakvíslarjökli frekar en í Goðabungu.

Jöklaskriðskjálftarnir í Grænlandi sýna svipaða hegðun og skjálftarnir í vesturhluta Mýrdalsjökuls, þ.e. árstíðabundna virkni, auk þess sem fjöldi þeirra jókst til muna eftir árið 2000 í takt við hlýnandi loftslag.

Jöklarnir í vesturhluta Mýrdalsjökuls eru mjög brattir og ekki ósennilegt að þeir geti því hreyfst tiltölulega hratt, að sögn Kristínar. Ofarlega í Tungnakvíslarjökli fellur ísinn fram af brún. Þetta íshrun virðist nægilega orkumikið til að mynda skjálfta á stærð við þá sem mælast. 


mbl.is Smáskjálftar í Mýrdalsjökli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Skjálftar eins og þessir núna eru varla vegna íshruns enda eru þeir í og við Kötluöskjuna sjálfa, en ekki í skriðjöklunum vestur af Goðabungu. En skjálftar á 100 metra dýpi í jökli sem er nokkur hundruð metra þykkur vekur samt spurningar. Eitthvað gæti samt verið að hita jökulinn neðanfrá.

Emil Hannes Valgeirsson, 30.1.2012 kl. 16:03

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll, Emil. Í Tungnakvíslajökli hefur verið viðvarandi skjalftasvæði síðustu árin, rétt þar sem hann fellur niður. Fyrst hélt ég að þetta væri vegna íshruns en nú er ég á báðum áttum. Hef engar fréttir um þetta.

Ugglaust gætu endurskoðaðar niðurstöður sjálfvirkra jarðskjálftamælinga sýnt að upptök skjálftanna séu neðar en 100 m. Fróðlegt væri að fá einhverja vitneskju um það.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 30.1.2012 kl. 17:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband