Ólík nálgun innanríkisráðherra og lagaprófessors
17.1.2012 | 16:00
Ólíkt hafast menn að. Innanríkisráðherrann lýsir því yfir í Morgunblaðinu í dag að hann hafi gert mistök og ekki hafi átt að draga Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra, einan fyrir Landsdóm. Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor, ritar einnig grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann fer málefnalega yfir grundvöll kærunnar og kemst að þeirri niðurstöðu að kæran á hendur Geir fyrir landsdómi sé ekki trúverðug, vikið hafi verið frá mikilvægum reglum um höfðun sakamála.
Þó báðir virðist á sama máli um að draga beri kæruna til baka er mikill munur á rökfærslu þessara tveggja manna. Annar er pólitíkus og veður á súðum, kjaftar um allt sem honum dettur í hug í einhvers konar söguskýringum sem þó halda ekki vatni. Hinn er fræðimaður, nálgast umræðuefni á akademískan hátt, er rólegur í frásögn sinni, setur fram rök og dregur ályktanir og er sannfærandi.
Auðvitað er það afar leitt að vel skynsamur maður eins og innaríkisráðherra vissulega er skuli ekki kunna rökræðuna betur en hann gerir. Fyrir því eru auðvitað margvíslegar ástæður sem eiga rætur sínar að rekja í pólitískum uppruna.
Þó ég sé fyllilega sammála ráðherranum um að rétt sé að hætta við ákæruna þá er afskaplega margt í blaðagreininni sem orkar tvímælis og margt tel ég beinlínis rangt. Að auki hefði hún mátt vera helmingi styttri en að móti kemur sú staðreynd að greinin er öðrum þræði málvörn gegn samherjum sem hann vissi að myndu missa stjórn á sér vegna afstöðu hans.
Ég er til dæmis ekki á því að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis hafi í öllu verið jafn góð og margir vilja vera láta. Siðfræðihluti skýrslunnar er til dæmis ekki arfaslakur. Höfundar eru taka þar beinlínis pólitíska stöðu sem bitnar á Sjálfstæðisflokknum og frjálslyndum stjórnmálaviðhorfum. Skýrslan sú skýrir fátt.
Ögmundur heldur því fram að veðsetning kvótans marki upphaf útrásarævintýrisins sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi kynnt undir. Þetta er beinlínis rangt. Með þessu er Ögmundur einfaldlega að lýsa því yfir að Íslendingar geti ekki rekið skammlaust sinnt fyrirtækjarekstri nema hann sé undir stjórn ríkisins. Þarna skilur mikið að í viðhorfi. Veðsetningin er einfaldlega hluti af rekstrargrundvelli útgerðarinnar.
Menn þekkjast af orðtaki þeirra, ekki síst ef þeir segjast vera alþýðumenn, sósíalistar. Frasamenningin getur hins vegar leitt mann í ógöngur. Ögmundi virðist sem að fjármálakerfið sé orðin einhvers konar afl í þjóðfélaginu sem lúti einni stjórn og einum vilja og það helst glæpsamlegum. Hann virðir að vettugi þá staðreynd að Ríkisendurskoðun hefur farið ofan í saumanna á einkavæðingum helstu fyrirtækja í eigu ríkisins og komist að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir einhverja annmarka hafi hún farið mjög eðlilega fram. Þrátt fyrir það hefur Ögmundur og liðið í kringum hann og Samfylkinguna reynt að gera einkavæðinguna tortryggilega. Raunar hefur markmiðið hans verið að því lengra sem líður frá einkavæðingartímanum því glæpsamlegra á hann að hafa verið.
Hafi Ögmundur ekki trú á samlöndum sínum til að eiga og reka símafyrirtæki, mjölvinnslufyrirtæki, banka og annað þá á hann bara að segja það hreint út. Staðreyndin er hins vegar sú að Ögmundur er uppalinn sem kommi, vinstrimaður, sem bregst ekki uppruna sínum. Hann og aðrir slíkir munu aldrei samþykkja að einkaaðilar hafi með höndum nokkurn rekstur. Helst af öllu vildi hann að ríkið sæi um sölu mjólkur í sérstökum mjólkurbúðum, setjarar væru enn í prentun, ríkið sæi um útvarpsrekstur ... Æ, fyrirgefið. Þannig er það víst enn í dag en sem betur fer er ríkið ekki eitt á þeim markaði þó það gíni yfir honum öllum.
Fyrir hrun mátti ekki styggja á nokkurn hátt bankanna sem höfðu verið einkavæddir. Enginn vissi hvað þar var að gerast innandyra. Þeir hótuðu að yfirgefa landið væri snert við þeim á einhvern hátt og pólitískir varðhundar og fjölmiðlar í pólitískum leik pössuðu upp á bankamenn og útrásarvíkinga.
Þrátt fyrir allt get ég tekið undir með Ögmundi í niðurlagsorðum hans: Ef einblínt er á sekt einstakra manna er líklegt að við missum sjónar á flóknu samspili einstaklingsathafna við félagslega, menningarlega og efnahagslega þætti og að við förum á mis við þá lærdóma sem draga þarf af svo miklum atburðum.
Hins vegar má aldrei láta einskæra pólitík leiða dómsvaldið í landinu. Þá er gott að hafa fyrirmynd í nálgun Stefáns Más Stefánssonar lagaprófessors sem getið var í upphafi. Hún leiðir okkur nær málavöxtum en pólitískar upphrópanir sem Ögmundur freistast til að grípa til. Þær skila engu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Áður en menn lesa Rannsóknarskýrslu Alþingis er mönnum holt, að lesa fyrst bók Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar íslenskir kommúnistar. Þar kemur fram ofstæki kommúnista og trúarrugl þeirra á kommúnismann.Rannsóknarskýrsla Alþingis er fyrst og fremst pólitískt ruglrit.
Sigurgeir Jónsson, 17.1.2012 kl. 21:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.