Smíði fornminja, sálfræði VG og ESB fléttan

Allt tal um að hér hafi verið unnin sú vinna sem valdið geti sárindum í stjórnarsamstarfi er með miklum ólíkindum og fer raunar ekki milli mála að hér eru spunameistarar ESB-fléttunnar að verki.

Þetta segir Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar - stéttarfélags í grein í Mogganum í morgun. Hann er einn fjórmenninganna sem í starfshópi um gerð tillagna í fiskveiðistjórnun á vegum sjávarútvegsráðherra. Það eru einmitt hugmyndir þessa starfshóps sem notaðar hafa verið sem yfirskin til að reka Jón Bjarnason úr ríkisstjórninni.

Aðasteinn fer vítt yfir og sparar ríkisstjórninni ekki kveðjurnar. Hann segir:

Þau einu fyrirmæli sem við fengum var að vinna sem best úr þeim tæplega 40 umsögnum sem bárust Alþingi um málið og flestar reyndust neikvæðar í garð þess frumvarps sem legið hafði fyrir. Hér höfðum við að veganesti skýrslu sáttanefndarinnar og stefnu ríkisstjórnarinnar. Við einsettum okkur að feta einstigi, fara millileið án þess að við hefðum mikla von um að hægt væri að sætta ólík sjónarmið. En þetta var reynt og svo er annarra að dæma um hvernig til hefur tekist. Ráðherra tók ekki þátt í stefnumótun hópsins eins og áður sagði enda ekki erindi okkar að leggja fram sérstakar tillögur hans heldur faglega nálgun á viðfangsefninu. 

Heimska og heimóttarskapur

Vinstri grænir eru annars sérstakt sálfræðilegt rannsóknarefni, þeir bentu á Kárahnjúka þegar vernda átti Eyjabakka, þeir bentu á gufuaflsvirkjanir þegar vernda átti Kárahnjúka, þeir bentu á ferðaþjónustu, þegar vernda átti gufuna, þeir bentu á skoska jarðfræðinema í Vatnajökulsþjóðgarði þegar banna átti hestamenn, þeir benda á hvað þegar stoppa á uppbyggingu í ferðaþjónustu?

Sigurði Ragnarssyni, framkvæmdastjóra á Egilsstöðum, er mikið niðri fyrir í grein sem hann skrifar í Moggann í morgun um synjun innanríkisráðherra á landakaupum Kínamannsins. Greinin er vel skrifuð og skemmtileg. Hann segir þetta í lokin:

Að lokum, ef einhverjum hefur dottið í hug að þetta sé skrifað í mikilli gremju og reiði þá hefur hann algjörlega rétt fyrir sér.

 Spurt um Þorláksbúð í Skálholti

Ótiltekinn hópur manna hefur tekið sig til og hafið smíði fornminja í hlaðinu á Skálholti. Þar virðist ekkert til sparað.

Það vekur auðvitað athygli því á sama tíma berst önnur og vitiborin starfsemi í Skálholti í bökkum, þannig að erfiðleikar eru á að taka á móti fólki til kirkju og tónleika, að ekki sé talað um ferðamenn vegna skorts á aðstöðu fyrir snyrtingu.

Þannig skrifar Vilhjálmur Bjarnason, lektor við HÍ, í grein í Mogganum í morgun. Hann leggur fram tuttugu og sjö spurningar sem hann vill fá svör við frá þeim sem höndla um Þorláksbúð, beint og óbeint. Hann vill til dæmis fá að vita hvaða sofnuður Þorláksbúðafélagið er, hver beri ábyrgð á verkinu fjárhagslega, kostnað, bókhald, endurskoðun, aðkomu sveitarfélagsins, húsafirðinarnefndar og loks kemur spurning númer tuttugu og sjö:

Og svo að lokum: Annast Árni Johnsen alþingismaður, fyrrverandi formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins, fjárreiður Þorláksbúðarnefndar, eða hefur einhver afskipti af þeim?

Allar ofangreinar greinar eru á blaðsíðu 27 í Mogganum og engin ástæða til að láta þær framhjá sér fara. Þær eru vel skrifaðar og upplýsingagildi þeirra er mikið hvort sem lesendur séu sammála efni þeirra eða ekki.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband