2.644.730.110.000.000.000.000 lömb
16.11.2011 | 09:36
Þegar Þorgeir Ljósvetningagoði hafði heimt fé sitt af fjalli um haustið árið 1000 sá hann að hin nýju goð höfðu reynst vel.
Þannig byrjar Valdimar H. Jóhannesson grein sína í Morgunblaðinu í dag um verðtryggingu. Stíll greinarinnar er afskaplega skemmtilegur og hann er það ritfær að hann missir aldrei sjónar af dæmisögunni. Hann sýnir hversu fáránleg verðtryggingin er og býr til sögu um Þorgeir Ljósvetningagoða, forföður sinn (sem raunar er forfaðir allra Íslenginga ef út í það er farið).
Fljótlega barst honum notalegt þakkarbréf frá Sylvester II páfa í Róm. Með því var auglýsingabæklingur frá páfastóli sem upplýsti hverjar væru skyldur en einnig réttindi við aðild að heildarsamtökum kristinna. Páfastóll réð til að mynda yfir banka sem allir kristnir menn væru hvattir til að skipta við. Samkvæmt biblíunni væru greiddar rentur á innistæður en boðað væri að menn ættu að renta sínar talentur.
Þó að Þorgeir væri kominn á sjötugsaldurinn vildi hann taka þátt í nýmælum. Hann lagði því eitt lamb inn á reikning í Vatikan-bankanum sem bauð 5% fasta vexti án uppsagnarákvæða. Þorgeir þekkti ekki verðmæti mynta á suðrænum slóðum svo hann samdi við bankann um að innstæðan yrði ávallt reiknuð í lömbum. Án þess að gera sér grein fyrir því sjálfur hafði hann fundið upp verðtryggð bankaviðskipti þúsund árum á undan íslenskum hagfræðingum.
Og Valdimar segist hafa fundið innleggsnótuna í bréfasafni afa sína og vildi nú loka reikningnum. Þá urðu viðbrögð Vatikansins eðlilega ótrúleg:
Fyrst neituðu þeir því að reikningurinn væri til. Þegar það dugði ekki hótuðu þeir mér eilífri útskúfun frá himnaríki. Ég sagði þeim að þeir hefðu misst umboðið til að bannfæra mig eftir siðaskiptin. Síðan hafa þeir ýmist reynt að bera fyrir sig 36. gr. samningalaga eða höfða til miskunnsemi minnar. Benedikt XVI, sjálfur páfinn, liggur í símanum til mín kvölds, morgna og miðjan dag!
Ástæðan er einföld:
Samkvæmt reiknitölvu minni er innistæðan nú pr. 1. nóvember sl. 2.644.730.110.000.000.000.000 lömb eða til þess að segja þetta í mæltu máli: Rúmlega tvöþúsund sexhundruð og fjörutíu milljarðar milljarða lamba, sem svarar til 377 milljarða lamba á hvern jarðarbúa.
Og niðurstaða Valdimars er þessi og hver er ekki sammála?
Upplýstum mönnum hefur verið það ljóst um margar aldir að ekkert efnahagskerfi stenst það að vextir séu settir ofan á verðtryggingu. Slík viðkoma fjármuna gleypir öll heimsins verðmæti á skömmum tíma. Tímans tönn nagar allar eignir; fjármuni, fasteignir og jafnvel jarðir. [...]
Verðtryggða íslenska krónan er fáránleg hugmynd. Hún var réttlætanleg stutt tímabil en hefur fyrir löngu gengið sér til húðar. Engin mynt sögunnar hefur haldið verðgildi sínu frekar en aðrar eignir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.