Sýnilegar breytingar á gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi
30.9.2011 | 18:02
Miklar breytingar hafa orðið á eldfellunum tveimur á Fimmvörðuhálsi og umhverfi þeirrra frá því að gosi lauk og fram á þennan dag.
Frá goslokum í Eyjafjallajökli hef ég nokkrum sinni farið upp á Fimmörðuháls og tekið myndir mér til gamans eins og ég geri alltaf á ferðum mínum. Á minnið er ekki alltaf að treyst en ljósmyndin breytist ekki nema henni sé beinlínis breytt og það geri ég aldrei. Er þó aldrei þar í þeim tilgangi að taka myndir til samanburðar. Ég er bara ekki nógu fræðilega sinnaður til þess.
Myndir til samanburðar
Efsta myndin er af eldfellinu sem hlotið hefur nafnið Magni. Þessi mynd var tekin 22. maí 2010, er við tveir félagar óðum öskuna frá Skógum og yfir í Bása. Held að fáir hafi farið þessa leið á undan okkur eftir að gosi lauk í Eyjafjallajökli.
Næsta mynd var tekin 16. júní 2010 þegar við nokkrir Útivistarfélagar tókum að okkur að marka nýja gönguleið framhjá Magna og í gegnum Goðahraun.
Þriðja myndin, sú rauða, var svo tekin núna í byrjun september. Allar eru myndirnar klipptar út úr stærri myndum. Tilgangurinn er sá að hægt sé að skoða eldfjallið nánar og bera myndirnar saman. Munum að hægt er að tvísmella á þær til að stækka þær.
Gufustrókarnir
Margt er áberandi við þessar myndir. Hið fyrsta er hversu uppgufunin hefur minnkað. Líklega helst það í hendur við að fellið og hraunið kólnar. Kælingin virðist þó vera hraðari en mér hefur dottið í hug. Ekki getur verið að votviðri hafi aukið á uppgufunina því í júníferðinni var rigning en ekki þeirri í maí.
Rauði liturinn
Litamunurinn er þó hvað undarlegastur. Magni og umhverfi hans breytist frá því að vegar grár og gugginn í það að vera rauðleitur. Hvernig stendur á því?
Fræðilega séð get ég ekki skýrt gráa litinn. Frá sjónarhorni leikmannsins gæti hann stafað af einhvers konar útfellingum sem orðið hafa á heitum stöðum í fellinu. Þær mynduðu fljótlega um tommu þykka skel, afar brothætta. Fjórða myndin er tekin í júní 2010 ofarlega í Móða og sýnir skelina.
Grá skelin er nú að mestu horfin. Hvers vegna veit ég ekki. Dreg stórlega í efa að átroðningur göngumanna sé einum um að kenna. Margt annað kann að hafa valdið, t.d. rofi vegna vatns og vinda og einnig hrun úr fellinu.
Sprungan
Annað sem vekur athygli mína er að sprunga hefur myndast efst fellinu, eiginlega rétt við gönguleiðina. Ég man ekki eftir henni úr fyrstu ferðinni og sé hana hvergi á myndum.
Sprungan nær frá um það bil miðjum hlíðum austan megin, upp á fellið og örlítið niður að vestanverðu. Gönguleiðin upp hlíðina hefur troðist ofan í sprunguna. Uppi er hún rúmur metri á dýpt eins og má sjá af myndinni vinstra megin.
Neðri myndin sem tekin var 16. júní 2010 sýnir að engin sprunga er sjáanleg þar sem nú hefur troðist gönguleið.
Sé þriðja efsta myndin stækkuð (tvísmella á hana) má greina sprunguna og gönguleiðina nokkuð vel.
Litskrúðið að hverfa
Það sem mér þótti stórkostlegast er ég kom í fyrsta sinn á gosfellið Magna var litafegurðin. Hún er óðum að hverfa. Ástæðan kann að vera átroðingur göngumanna. Litirnir voru hreinlega stórkoslegir og mögnuðust auðvitað upp vegna þess að umhverfið var allt svo svart og kalt vegna öskunnar úr Eyjafjallajökli.
Berum til dæmis saman myndina hérna til vinstri við þá af fólkinu við sprunguna. Á þessum tveimur er talverður munur.
Fjallið sígur
Skoðum líka fleiri breytingar sem orðið hafa á Magna. Greina má á þremur efstu myndunum að fjallið sígur. Það má einna helst sjá þar sem gönguleiðin liggur. Víða hefur runnið úr fjallinu og það minnkað að ummáli.
Þetta sést líka á tveimur neðstu myndum sem eru úr norðri. Fjallið er grátt á annarri enda sú tekin 22. maí 2010 og hin var tekin núna í september.
Mér finnst greinilegt hversu hallinn frá vinstri og að fjallinu hafi lækkað. Takið líka eftir ummerkjum í framan fjallinu, þar hafa orðið talsverðar breytingar, runnið hefur úr því og það breyst nokkuð. Lítið á svæðið fyrir neðan fólkið á nýrri myndinni og stækkið gráu myndina til samanburðar. Þarna er stór munur.
Í lokin er ekki úr vegi að biðja lesendur afsökunar af lélegri jarðfræðilegri þekkingu minni. Vona að myndirnar séu skárri en frásögnin.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:42 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.