Miklar breytingar á Fimmvörðuhálsi á 16 mánuðum
25.9.2011 | 10:59

Ég fór upp á Fimmvörðháls um daginn. Það kom ekki til af góðu. Félagar mínir í Útivist töldu nauðsynlegt að hafa skálavörð í Fimmvörðuskála félagsins. Búið var að leita að hæfileikaríkum manni út um allar trissur, margir voru kallaðir en enginn hafði lausan tíma. Ég var eiginlega síðasta sort ... Tók hugmyndinni strax illa. Sagðist vera hættur félagsstarfi í Útivist, mér leiddist fólk og Fimmvörðuháls væri ónýtur eftir eldgosið í Eyjafjallajökli. Auðvitað talaði ég þvert mér þvert um hug og reyndi hvað ég gat til að hrista þessa félaga mína af mér. Sérstaklega var Árni „heitinn“ Jóhannesson þrár. Hann er síður en svo dauður en hefur þetta viðurnefni vegna þess að hann var formaður félagsins í nokkuð langan tíma.

Til að gera langa sögu stutta hafði ég tíma, hættur starfi fyrir Sveitarfélagið Skagaströnd, og í hálf fúlu skapi ók ég suður á Fimmvörðuháls. Þar dvaldi ég svo í tvær vikur. Allt kom mér þar á óvart. Engin einsemd, fullt af fólki upp á hvern dag, frábærir einstaklingar, fróðir og skemmtilegir. Ég skemmti mér konunglega.

Fimmvörðuskáli er lítill. Þar geta með góðu móti gist um það bil 14 manns en í hallæri er hægt að tvímenna í kojur og dæmi eru um að í skálanum hafi um 24 einstaklingar sofið og raunar átt náðugan dag.

Skálinn stendur á háum hrygg sem raunar var ekki svo hár er húsið var byggt árið 1991. Á tuttugu árum hefur mikið breyst á Fimmvörðuhálsi. Jökull og snjór hefur hörfað og þar sem áður var þægileg skíðabrekka norðan við skálann er nú þverhnípi.

Fimmvörðuskáli er fallegur skáli og stendur á frábærum stað. Þegar gaus á Hálsinum í mars 2010 héldum við margir að hann færi, en gosstöðvarnar eru sem betur fer um tvo kílómetra norðan við hann og enn stendur hann.
Svo gaus í Eyjafjallajökli en afleiðingar gossins voru nokkuð alvarlegar fyrir Fimmvörðuskála. Mikið tjón var á honum vegna öskufoks. Hann varð svo að segja sandblásinn, rúður urðu margar mattar og aska barst inn á gólf og hún er þess eðlis að hún slítur öllu hraðar en sandur.
Strax eftir að gosi lauk í Eyjafjallajökli í fyrra gengum við tveir félagar yfir Fimmvörðuháls og enduðum í Básum. Þetta var 22. maí og þá höfðu fáir eða aungvir gengið yfir Hálsinn.
Ég tók margar myndir í þeirri ferð og nýtti núna tímann til að taka myndir svo eitthvað væri nú til samanburðar. Og hann er sláandi. Margt hefur breytst. Eldfjöllin, Magni og Móði, hafa breyst, Fimmvörðuskáli og landið allt, ekki síst Eyjafjallajökull.
Á næstunni ætla ég að birta nokkrar fallegar myndir frá dvöl minni á Fimmvörðuhálsi. Læt þessar duga í bili, þær skýra sig sjálfar. Merkilegast finnst mér hvernsu liturinn á eldfjöllunum hefur breyst. Útfellingarnar sem voru eins og skel á þeim eru horfnar, hafa veðrast eða fólk gengið þær niður. Enn er þó mikill hiti í báðum. Steikti pylsur á Magna um daginn. Veit af fólki sem hefur grillað þar kjöt og orðið gott af. Sjálfur er ég hálfslappur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.11.2011 kl. 16:32 | Facebook
Athugasemdir
Það eru eitthvað um 10 ár síðan ég gisti í Skálanum á Fimmvörðuhálsi en við komum að honum í brjáluðu roki og rigningu, varla stætt úti. Þvílík sæla að komast þar inn en ég var í hóp með Útivist og þurfti að tvímenna í kojur. Þreyttur fór ég í koju en þreyttari fór ég úr koju daginn eftir en hroturnar voru svo magnaðar að mér kom ekki dúr á auga alla nóttina, efast um að drunurnar í eldgosinu hafi verið meiri en þessa umrædda nótt. Daginn eftir fórum við niður í Þórsmörk í æðislegu veðri sól og blíðu. Þetta var æðisleg ferð sem seint gleymist.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 25.9.2011 kl. 11:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.