Hurru góurinn, ertu á móti rafmagni eða hvað?

DSC_0215

Þó nú séu meira en eitt hundrað ár síðan skáldið Einar Benediktsson lagði fram hugmyndir sínar um virkjun fallvatna á Íslandi sýnist lítið hafa breyst. Enn byggist orkuframleiðslan að mestu leyti á því að búa til víðáttumikil lón og síðan er fallið nýtt skammt þar fyrir neðan.

Víða út um land má finna manngerð lón. Stöðuvötn hafa verið stækkuð og æ lengra hefur verið seilst inn á þau svæði sem landsmenn hafa jafnvel til daglegra nota. Landinu hefur verið breytt svo óskaplega mikið að víða er það til mikilla vansa.

Virkja eða ekki?

Og nú er það svo að þeim sem hreyfir við athugasemdum er beint eða óbeint  þröngvað til að taka afstöðu milli tveggja öfgafulltra stefna; að virkja eða virkja ekki. Báðar stefnurnar eru í raun og veru tómt bull, hrein vitleysta og ég hef ekki nokkra trú á því að önnur hvor þeirra njóti mikillar hylli.

Held raunar að meirihlutafólks sé farið eins og mér að vilja stíga varlega til jarðar og skoða málin út frá fleiri sjónarhólum en einum.

Þröngsýnin 

Oftar en ekki er afstaða jafnvel tekin með tilfinningakenndum rökum en ekki með gagnaugunum einum saman ef þannig má að orði komast. Þannig er bara lífið. Viðhorfið byggist ekki næstum því alltaf á þeim krónum sem eru í buddunni hverju sinni. Þetta skilja ekki hinir þröngsýnu í „virkjum“ og „virkjum ekki“ hópunum.

Einhver kann nú að segja að þessi aðferð sé bölvað miðjumoð. Við þurfum á rafmagni að halda og engar refjar. Annar heldur því fram að ekkert megi snerta, hvergi megi virkja.

Þetta er nákvæmlega það vandamál sem ég gat um hér á undan. Hin öfgafulla virkjunarstefna sem byggist á hinni lygilegu forsendu í spurnarformi. Ertu með eða á móti rafmagni? Nei, þannig á ekki pólitíkin að vera, ekki frekar en andstæðan, hin lygilega forsenda í spurnarformi: Ertu með eða á móti náttúru Íslands?

Einhliða forsendur 

Svona er nú engu að síður umfjöllunin. Öllu öðru en það sem einblínt er á er gleymt jafnvel því að viðhorf einstaklings hafi aldrei getað byggst á barnalega einhliða forsendum. Hafi svo viljað til er það einfaldlega þröngsýni og jafnvel öfgahyggja. Lítum bara á fleiri mál í þjóðfélaginu, þau sem eru ekki undirokuð áðurnefndum skilyrtum spurningum.

Þó mikill meirihluti landsmanna teljist kristinn býr hann yfir umburðarlyndi gagnvart öðrum trúarbrögðum. Við erum íslensk en ferðumst til annarra landa, kaupum ekki aðeins það sem íslenskt er. Vissulega teljum við okkur ekki hernaðarþjóð þó við samþykkjum aðild að Atlantshafsbandalaginu. Við eru flest hlynt frjálsu markaðskerfi en engu að síður byggjum við heilbrigðisstofnanir og menntasetur og í stað þess að sólunda fé í hernað menntum við unga fólkið og sinnum sjúkum og öldruðum án þess að ætlast til endurgjalds. 

Sami hatturinn 

Það er bara svo að tvær hliðar eru á hverjum peningi og fleiri á tengingnum. Og hvers vegna í ósköpunum ætti ég því að teljast á móti rafmagni, tækniframförum eða uppbyggingu atvinnulífs þó ég vilji fara varlega í virkjunarmálum. Ég er síst af öllu tilbúinn til þess að láta virkjunarfyrirtæki setja mér pólitíska línu í þeim málum sem þau snerta. Ekki frekar en ég er tilbúinn til að láta einhverja vinstri sinnaða öfgahópa leggja mér línu í andstöðu við virkjun. Fyrirgefið mér, kæru lesendur, þó ég setji báða þessa aðila undir sama hatt.

Gufuaflið 

Og þó langt sé um liðið frá því Einar Benediktsson sá fyrir sér að temja mætti fallvötnin til að búa til rafmagnið sem við þurfum vissulega svo mikið á að halda, þá hefur eiginlega lítið breyst. Jú, „þeir“ eru farnir að virkja gufuaflið sem býr í iðrum jarðar. Gufuaflið gæti verið mikil lausn gegn sóun á landi við gerð virkjana í fallvötnum.

Þannig hefur það ekki gengið, lítum bara á Hellisheiðarvirkjun. Þar hefur óskynsemin og hugsunarleysið ráðið. Byggð var virkjun sem lítur út eins og yfirgefin flugstöð í milljónaþjóðfélagi. Út um allar koppagrundir liggja svo risastór rör sem flytja gufuna í virkjunina og þeim fylgja vegir og stórkostlegt rask.

Smekkleysan sem ræður 

Þjóðin býr yfir gríðarlegri þekkingu en samt höfum við haft í forsvari lið sem veður um landið ... , raskar og byltir, og svarar gagnrýni á þesssa leið: Hurru góurinn, ertu á móti rafmagni eða hvað? Og maður svarar kokhraustur: Nei, en myndir þú ganga svona um heima hjá þér?

Hvað skyldi nú þjóðskáldið Einar Benediktsson segja mætti hann líta yfir landið sitt og senda okkur línu. Eflaust myndi hann lofa margt en ég er ansi hræddur um að hann muni frekar senda okkur tóninn og hrópa í vandlætingu sinni: „... og landið eins og lostið þrumudómi.“ Orð sem þó er að finna í ljóði hans til dýrðar Dettifossi og virkjun fallvatnsins ... fyrir meira en eitt hundrað árum.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband