Einnota stjórnmálaflokkar og minniháttar spámenn
22.8.2011 | 15:47
Fjölmargt er aðeins ætlað til nota í eitt skipti. Sóunin er slík að mikill iðnaður hefur byggst utan um vörur sem aðeins eru ætlaðar til nota einu sinni. Sérstaklega má nefna umbúðir af ýmsu tagi. Þetta er ekki talið jákvætt.
Stjórnmálaflokkar eru og eiga að vera öðru vísi. Þeir geta ekki verið einnota. Félagar í þeim verða að taka afstöðu til fjölmargra mála. Ekki eru allir á eitt sáttir um t.d. einstök mál en láta sig hafa það.
Stjórnmálaflokkar geta verið einnota og er þá átt við að þeir hafi aðeins eitt stefnumál. Slíkir flokkar bera óhamingju með sér. Ástæðan er einfaldlega sú að fulltrúar þeirra þurfa í sveitarstjórnum eða á Alþingi að taka afstöðu til fleiri mála en þess eins sem flokkurinn var myndaður í kringum. Þar af leiðir að óánægja með slíkan flokk verður mikil.
Maður styður flokk vegna heildarinnar. Hrifning vegna eins málsflokks getur breyst í óbeit þegar skoðuð er afgreiðsla hans vegna annarra mála.
Til eru þeir sem styðja ekki Vinstri græna vegna afstöðu forystu hans í Evrópumálum. Þrír þingmenn flokksins hafa yfirgefið flokkinn vegna þessa en þeir eru ábyggilega jafn miklir sósíalistar og þeir sem ekki flúðu.
Kona nokkur sat í stjórnarskrárráði. Hún vill að ráðsliðar stofni sérstakan flokk sem hafi það eitt að markmiði að breyta stjórnarskránni. Hún hefur reynslu í þessu því hún sat á þingi fyrir kvennalista og barðist fyrir hugsjónum hans í kvenréttindamálum. Þeir sem kusu flokkinn vegna þessa síðarnefnda fengu aðrar skoðanir hennar í kaupbæti.
Eins málefnis stjórnmálaflokkur getur verið eins og umbúðir - einnota. Hann skilar engu af sér, allir eru óánægðir þegar fulltrúar slíkra flokka taka afstöðu til annarra mála en hins eina og sanna.
Og nú virðist nýr flokkur vera í startholunum, flokkur sem á að koma þjóðinni gegn vilja hennar í Evrópusambandið. Takk fyrir það, en ég held mig við minn gamla. Svo veltur maður því fyrir sér hvaða afstöðu hinn nýi flokkur ætlar að taka í umhverfismálum eða öðrum mikilvægum málaflokkum.
Hitt verð ég þó að segja að minniháttar spámenn geta verið óskaplega skemmtilegir. Þeir lífga upp á dægurþrasið og svo hin norræna velferðarstjórn verðu ekki lengur upphaf og endir alls ills.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:50 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.