Tónlistarstjóri Hörpu og trikkið hennar ...

Blaðamenn geta verið skelfing vitlausir, jafnt í nálgun frétta sem útvinnslu þeirra. Verri eru þó oft viðmælendur, fólk sem hefur til dæmis erfiðan eða slæman málstað að verja. Allir skynsamir ráðgjafar í almannatengslum gefa fyrst og fremst eitt ráð: Komdu hreint fram, ekki fela neitt eða sópa undir teppið. 

Einföld skynsemi bendir til þess að allt sem reynt er að fela kemst fyrr eða síðar upp á yfirborðið og þá verða málin miklu verri en áður.

Því er nú haldið fram að á menningarnótt hafi stjórnendur Hörpu leigt skip til einkaveislu fyrir 150 manns. Að minnsta kosti segir frá því í DV í dag. Út af fyrir sig getur verið réttlætanlegt fyrir fyrirtæki að bjóða til einkaveislu og þá miða við blaðamenn eða einhverja sem skipta máli fyrir rekstur hússins til framtíðar. Aumlegt er þó ef aðeins einhverjar silkihúfur hafi verið í þessari veislu og því enginn ábati að halda hana.

Blaðamaður DV leitaði upplýsinga hjá tónlistarstjóra Hörpu, Steinunni Birnu Ragnarsdóttur. Hún sagðist ekki mega vera að því að svara blaðamanni en sagðist ætla að senda honum tölvupóst. Þá segir í fréttinni:

Eftir að hún kvaddi blaðamann virðist sem hún hafi ekki slitið símtalinu en snéri sér að einhverjum sem var hjá henni og mátti greinilega heyra hana segja: „Núna nota ég trikkið sko, þeir eru að fara að blása þetta upp, að það hafi verið eitthvað elítuboð á Hafsúlunni. Hvort þetta sé rétt, þessi orðrómur. Þá nota ég trikkið sem Andrés kenndi mér, bara að segja þeim að senda þér, að þú sért að rjúka inn á fund, bara að senda tölvupóst,“ sagði Steinunn Birna. Gera má ráð fyrir því að Steinunn hafi þarna verið að vísa í almannatengilinn Andrés Jónsson. 

Þetta sem Steinunn Birna nefnir er ekki „trikk“ heldur einföld leið til að komast hjá því að svara réttmætri fyrirspurn. Tilraunastarfsemi tónlistarstjórans er algjörlega óviðeigandi og henni til háborinnar skammar, sé fréttin rétt.

Ég á afskaplega bágt með að trúa því að sá ágæti maður Andrés Jónsson, almannatengill, kenni viðskiptavinum sínum að brúka „trikk“ frekar en að koma heiðarlega fram. Ég gæti nú reynt að bera í bætifláka fyrir þennan kunningja minn og vil gjarnan trúa því, að hann hafi átt við í einhvers konar krísuástandi megi nota svona aðferð til að vinna tíma og undirbúa fréttatilkynningu. Á móti kemur að það á engan veginn við í þessu tilviki, einkaveislan varð ekki krísuástand fyrr en að henni lokinni.

Allir vita, hvort sem þeir bera titil tónlistarstjóra, almannatengils, blaðamanns eða einhvern annan, að 150 manna veisla, beint eða óbeint á kostnað skattborgaranna, verður ekki falin. Of margir koma að þessu máli til að hljótt geti farið.

Það verður svo spennandi að frétta meira af „trikkunum“ í Hörpu og enn ríkari ástæða til að hvetja blaðamann DV til að láta ekki niðurlægja sig og fjölmiðilinn á þennan hátt ... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband