Tvær hörmulega lélegar fréttir

Tvær hörmulega illa skrifaðar fréttir vöktu athygli mína. Önnur er af mbl.is og hin af visir.is. Veit ekki hvor er lakari en báðar finnst mér marka botninn í heimsku sinni.

Á visir.is segir í fyrirsögn „Þyrla sótti aldraðan mann í Hrafntinnusker“. Hér er fréttin sjálf:

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út undir kvöld í gær til að sækja göngumann á sextugs aldri inn í Hrafntinnusker, í grennd við Landmannalaugar. 

Hann hafði fegnið hjartsláttartruflanir og kölluðu félagar hans eftir aðstoð. Þyrlan lenti með manninn við Borgarspítalann rétt fyrir klukkan átta, þar sem maðurinn fékk viðeigandi meðferð. 

Maður sem er á milli fimmtugs og sextugs er aldraður að mati blaðamanns visir.is. Er það nú svo? Svari nú hver fyrir sig. 

Fréttin úr mbl.is fjallar líka um atvikið í Hrafntinnuskeri. Hún er svona:

Tilkynning barst til Neyðarlínunnar klukkan 17:57 um karlmann með hjartsláttartruflanir vestur af Hrafntinnuskerjum og norður af Mýrdalsjökli. Maðurinn mun hafa verið í hópi göngufólks.

Læknir í hópnum hafði samband við Neyðarlínuna og var ákveðið að senda björgunarþyrlu á staðinn. Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-GNÁ fór í loftið skömmu eftir að tilkynningin barst. Ekki liggur fyrir hvenær megi búast við henni aftur til Reykjavíkur. 

Landfræðilegri þekkingu blaðamannsins er þarna verulega áfátt. Í fyrsta lagi er Hrafntinnusker eintöluorð en er að vísu eins í nefnifalli og þolfalli í eintölu og fleirtölu. Hrafntinnuskerið er þó aðeins eitt og þykir nóg. Vissulega má til sannsvegar færa að það sé norðan Mýrdalsjökuls. Það er þó slök staðsetning af hálfu blaðamanns og furðulegt að hann skuli til dæmis ekki vita af gönguleiðinni milli Landmannalauga og Þórsmerkur og þeim áföngum sem eru á leið. Meðal þeirra er Hrafntinnusker. 

Réttara hefði veri að segja að Hrafntinnusker sé suður af Landmannalaugum eða þá norðan við Álftavatn.

Svo væri ágætt ef blaðamaður mbl.is og blaðamaður visir.is vendu sig af hinni ljótu fræðimannamállýsku. Best væri að hann læsi og tileinkaði sér reglur Jónasar Kristjánssonar, fyrrverandi ritstjóra. Á bloggi hans eru mjög skýrar og góðar reglur sem flestir ættu að geta tileinkað sér.

Reglur Jónasar (www.jonas.is) um stíl:

  1. Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn.
  2. Settu sem víðast punkt og stóran staf.
  3. Strikaðu út óþörf orð, helmingaðu textann.
  4. Forðastu klisjur, þær voru sniðugar bara einu sinni.
  5. Keyrðu á sértæku sagnorði og notaðu sértækt frumlag.
  6. Notaðu stuttan, skýran og spennandi texta.
  7. Sparaðu lýsingarorð, atviksorð, þolmynd og viðtengingarhátt.
  8. Hafðu innganginn skýran og sértækan. 

Á bloggi Jónasar eru margar lexíur sem blaðamenn ættu að lesa yfir. Margar þeirra eru þannig að skynsamlegra væri að skrifa ekkert fyrr en að loknum lestri þeirra. Enginn nær þó góðu valdi á skrifum nema með mikilli æfingu. Góður blaðamaður verður enginn nema sá sem hefur víðtæka þekkingu og góða ályktunarhæfni. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Tek undir að að maður á sextugsaldri telst fjandakornið ekki aldraður! Það hefur hingað til ekki verið almennur skilningur.

Frávik frá almennum viðmiðum um aldur, hrörnun og helgan stein kunna þó að eiga rétt á sér. Tók í fyrsta skipti þátt í Laugavegsmaraþoni um síðustu helgi, sextugur að aldri. Tæpum hálftíma á undan mér var sjötíu og tveggja ára gamall geðlæknir. Ég fullyrði að hann er ekki aldraður - og helgast það af líkamlegu ástandi hans, ekki síður en huglægri ímynd af eigin getu og færni.

Flosi Kristjánsson, 22.7.2011 kl. 10:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband