Er Hvammstangi höfuðstaður Norðurlands?
21.7.2011 | 08:02
Reykjavík er höfuðborg landsins. Ýmis rök má færa fyrir því. Ísafjörður er ekki eini höfuðstaður Vestfjarða og ekki er Akranes eini höfuðstaður Vesturlands, né eru Egilsstaðir eini höfuðstaður Austurlands eða Höfn í Hornafirði Suðurlands. Hins vegar eru margir höfuðstaðir í hverjum landshluta en fæstir eru með hausverk út af málinu eins og sá ritar grein í Morgunblaðinu í morgun, fimmtudag og hann segir einfaldlega, ... og ekki í fyrsta sinn:
Bara svo það sé á hreinu þá er best að upplýsa að veðrið er mjög gott í höfuðstað Norðurlands.
Þetta ritar hinn ágæti blaðamaður Skapti Hallgrímsson, mikill húmorist og fjölskyldumaður. Hann ku vera staðsettur á þessum höfuðstað og þykir eðlilega vænt um bæinn sinn.
Nú er það sosum ágætt að veðrið sé gott á Akureyri. Hitt veldur fleirum en mér með hvaða rökum Akureyri geti verið höfuðstaður. Ljóst er að það er ekki samkvæmt neinum lögum, reglum eða ályktunum, hvorki akureyrskum né frá Alþingi.
Þá er það hitt að yfirburðir Akureyrar sem menningar-, stjórnsýslu- og skemmtibæjar hljóti að vera slíkir að hann verðskuldi að vera höfuðstaður.
Þetta er áreiðanlega rétt ef um magn er að ræða. Hins vegar held ég að menning og skemmtun í Skagafirði sé alls ekki síðri og því verðskuldi Sauðárkrókur að vera höfuðstaður Norðurlands. Hlufallslega er meiri menning á Skagaströnd en víðast annars staðar. Þess vegna verðskuldar Skagaströnd að vera höfuðstaður Norðurlands. Ekki er lakara standið á Blönduósi og á Hvammstanga og því verðskulda báðir bæirnir titilinn. Ónefndur er Siglufjörður, sá fornfrægi bær og þar er meiri uppgangur en víðast annars staðar, Ólafsfjörður er yndislegur og fyrir það á hann mikið titilinn skilinn. Dalvík er nú eiginlega í sérflokki og verður stundum á sumrin stærri en Agureyris . Einnig má nefna Húsavík, sem hefur á síðustu árum gjörbreyst og er áreiðanlega hvalaskoðunarhöfuðstaður Íslands.
En auðvitað er Agureyris höfuðstaður Norðurlands þó hann sé í þeim skurði sem skerst langt inn í landið með uppgröftri á báða bakka sem útilokar oftar en ekki alla aðkomu, eins og einhver orðaði það. Þó það sé ekki nema fyrir loftið í þeim sem endilega vilja hnýta þessum marklausa titili til við nafn bæjarins. Aungvir aðrir gera slík með sína bæi. Og þegar nánar er út í málið farið eru allir bæir höfuðstaðir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:26 | Facebook
Athugasemdir
Hvurjum þykir sinn fugl fagur og er ekkert við það að athuga :)
Steinmar Gunnarsson, 21.7.2011 kl. 19:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.