191 milljóna fjárfesting fyrir hverja mínútu
6.2.2007 | 10:00
Þeir vilja eignast Kjöl og byggja þar upp hálendisveg til að stytta leiðina til Akureyrar um tuttugu og tvær mínútur. Er eitthvað að þeim sem standa að Norðurvegi?
Svo virðist sem sumir þeirra telji sér heimilt að leggja hreinlega undir sig stóra hluta af landinu fyrir tæpan hálftíma. Gangi allt eftir tekur það fjóra tíma og þrjátíu og átta mínútur að aka milli Akureyrar og Reykjavíkur, ekki fimm tíma. Kostnaðurinn er áætlaður 4,2 milljaðrar króna sem þýðir að hver mínúta í þessari stórkostlegu framkvæmd kostar 191 milljón króna. Höfum við ekkert betra við peningana að gera?
Sé það ákafur vilji að stytta ökutímann milli Akureyrar og Reykjavíkur er einfaldast og ódýrast að meðalhraðinn verði einfaldlega hækkaður úr 90 km á klukkustund í 100 km á klukkustund.
Þá hagnast menn um þrjátíu mínútur sem er að öllu öðru slepptu ódýrara en að leggja í gríðarlegt rask á hálendinu, spjöll á dýrmætum náttúruperlum landsins svo ekki sé talað um allan þann kostnað sem þessu er samfara.
Sæmast væri þeim sem að Norðurvegi standa að leggja krafta sína og fjármagn í að endurbæta vegakerfið, til dæmis milli Reykjavíkur og Akureyrar.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:14 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.