Hreppamörk í Pakistan og alls kyns vígamenn
3.5.2011 | 09:05
Víg athafna- og auðmannsins Osama bin Ladens er talið vera þarft verk og gott, sérstaklega virðast Bandaríkjamenn fagna. Sama þjóð virðist sameinast í kristilegri bæn og trúarhita þegar þess er þörf en á milli þarf að vega mann og annan og fagna því.
Látum það nú liggja á milli hluta. Hins vegar vekur ýmsilegt varðandi víg mannsins athygli.
Pakistan gumar að því að vera lýðræðisríki með trausta stjórnskipan en engu að síður eru landamærin við Afganistan eins og íslensk hreppamörk - óljós á yfirborðinu og skipta ekki meginmáli.
Pakistan opið
Vígamenn Bandaríkjamanna virðast mega athafna sig að vild innan Pakistans, fljúga herþyrlum, ráðast á hvaðeina sem þeir telja ógn við sig án þess að bera það undir stjórnvöld innanlands. Þetta sama frelsi virðast alls kyns hryðjuverkahópar hafa og nýta sér það út í ystu æsar.
Pakistanir vita líklega ekki frekar en Bandaríkjamenn hverjir eru þegnar landsins. Engin almenn skráning er á íbúum né búsetu þeirra. Hver sem er virðist geta byggt sér þriggja hæða einbýishús (án bílskúrs) fyrir meira en 100 milljónir dollara eins og fjölmiðlar halda fram að athafna- og auðmaðurinn Osama bin Laden hafi gert. Hann virðist ekki einu sinni hafa þurft að skráð sig í símaskrá Landsíma Pakistans og komist upp með það.
Stafrófsröð
Vita menn hve dýrt það er að halda úti sérsveitum Bandaríkjahers. Njósna í tíu ár eftir bin Landen, rekja slóðir hans frá hellum í auðmannahverfi, hafa ekkert annað að byggja á en gaddavír ofana á rammbyggðum veggjum einbýlishússins. Hversu mörg slík hús eru til í Pakistan, hús sem kosta margföld laun alþýðumanns? Eða fara Bandaríkjamenn bara eftir stafrófsröð og byrja á víggirtum húsum í Abbottabad? Ekki er mér kunnugt um heiti sveitarfélaga og hreppa í Pakistan en varla eru mörg framar í stafrófinu.
Á bakvið konu
Svo er það þetta með konuna sem athafnamaðurinn átti að hafa skýlt sér á bakvið. Ég kaupi þessa skýringu eiginlega ekki. Eru ekki meiri líkur á því að hún hafi, rétt eins og konur almennt, farið að skipta sér af því að inn í húsið hafi ruðst brímuklættir menn með alvæpni, biluð þyrla á veröndinni, annað hjólið ofan í heita pottinum og í þokkabót bankaði enginn. Mér er sem ég sæi íslenska húsfreyju gera eitthvað allt annað en að varna slíkum mönnum inngöngu. Auðvitað komust vígamennirnir hvorki áfram né afturábak svo þeir hafa eflaust skotið konuna til að geta haldið áfram með ætlunarverk sitt.
Sofandi
Og svo er það þetta með dauða athafnamannsins. Ég trúi því ekki að til skotbardaga hafi komið og maðurinn hafi skýlt sér á bakvið konuna. Sá sem skýlir sér á bakvið einhvern er vopnlaus og eflaust hræddur um líf sitt. Dettur nokkrum manni í hug að konan hafi verið að verja manninn og brúkað til þess skotvopn. Meiri líkur eru til þess að hann hafi byrgt sig undir pilsfaldi hennar. Nærtækasta skýringin er hins vegar sú að maðurinn hafi verið sofandi enda þreyttur eftir tíu ára flótta.
Erann dauður?
Dauði bin Landens, sé hann yfirleitt dauður, er sigur hryðjuverkamanna. Auðmaðurinn verður því ávallt sigurvegari, jafnt dauður sem lifandi. Hvers vegna þá að drepa manninn? Samkvæmt heimildum mínum innan bandaríkjahers, Pentagon og varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna er Osama bin Laden lifandi. Meintur dauði hans var sviðsettur og Bandaríkjamenn tapa áróðursstríðinu hvort sem hann er lifandi og frjáls eða dauður, brenndur og í votri gröf.
Það er síðan allt annað mál sé hann lifandi í haldi á ókunnum stað. það léttir sálrænni pressu af stjórnvöldum í Bandaríkjunum. Nú geta þau kreist hann og snúið upp á hans stóra nef í langan, langan tíma. Fengið allt upp úr honum um alþjóðlegu samvinnuhreyfinguna Alkaída.
Við efasemdamenn vil ég segja þetta: Allir vita að John F. Kennedy var ekki drepinn í Dallas. Hann lifði lengi á eftir í Þýskalandi með konu sem hét Marlyn Monroe. Það hafa meiraðsegja verið gerða bíómyndir sem sanna þetta. Bróðir hans, Róbert, var ekki heldur myrtur, býr hins vegar í elli sinni í norðarlega í Svíþjóð með ástvini sínum. Nixon var hins vegar drepinn en tvífara hans auðnaðist að klúðra málum í Vietnam. Geimverur eru í haldi í Bandaríkjunum og ætla sér heimsyfirráð, það sannar sjónvarpsmyndin Event, ef enginn trúir mér.
Hins vegar býst enginn við því að athafn- og auðmaðurinn Osama bin Laden fái að njóta efri áranna. Allar nauðsynlegar upplýsingar verða tottaðar uppúr honum og manninum síðan komið fyrir í sama fangelsi og geimverurnar eru geymdar. Sagt er að þar sé hryllileg vist.
Leitin að bin Laden | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.