Snjóaði í andlit þeirra eða barði þá hríðin?
24.1.2011 | 08:28
Þó ég sé því fylgjandi að blaðamenn og aðrir sem skrifa í fjölmiðla eða á vefsíður tileinki sér rétt mál þá er ég svosem ekki barnanna bestur. Þetta er svona afsökun vegna þess sem á eftir fer. Um síðustu helgi gagnrýndi ég þá sem standa að uppbyggingu á nýju gufubaði á Laugarvatni fyrir að druslast nú ekki til að nota íslenskt heiti yfir starfsemina.
Við Íslendingar þurfum að vera vakandi yfir málinu okkar svo það taki ekki óeðlilegum breytingum eða jafnvel lognist útaf.
Að þessu sögðu þurfum við líka að hvetja alla til að lesa, lesa mikið. Með því skapast tilfinning fyrir tungumálinu. Þá er hugsanlegt að eftirfarandi gerist síður:
Það reyndist mjög erfitt því það var aftakaveður og það snjóaði í andlitið á okkur allan tímann.
Svo segir í viðtali Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur, blaðamanns á Morgunblaðinu, við tvo menn sem nýlega luku göngu sinni á skíðum þvert yfir landið. Þetta er svo sem ekki merkileg frétt, þó á baksíðu sé. Ég hef gengið yfir Sprengisand að vetrarlagi og fjöldi annarra. Margir hafa lent í hrakningum en að það skuli hafa snjóað í andlitið á manni er dálítið skrýtið til að hugsa.
Þetta er raunar ekki röng íslenska en ég geri frekar ráð fyrir hér sé átt við hríðina sem hafi verið ströng. Í þannig aðstæðum er betra að hylja andlitið og koma þá lambhúshettur að góðu haldi og stór skíðagleraugum.
Hitt er ótrúlegra að mennirnir hafi legið á bakinu og snjórinn sáldrast í andlit þeirra. Þetta er í raun það fyrsta sem mér datt í hug. Það snjóar vissulega í hríð en þeir sem tala þannig átta sig ekki á því að hríð er hugtak sem á við að það snjói og um leið sé hvasst.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:56 | Facebook
Athugasemdir
Var að fletta í gömlu bloggi og sá að eitt eigum við sameiginlegt og það er að hafa stigið fyrstu skrefin til sjós á síðutogaranum Úranusi. Þú 1972 en ég 1965. Sverrir Erlendsson var líka skipstjóri og Valdi vettlingur 1. stýrimaður. Okkur sem ólumst upp á síðutogurum finnst lítið til þess koma þótt snjói í andlit. það eru smámunir. Núna eru kröfurnar aðrar, núna má ekki manneskja villast í göngutúr í Heiðmörkinni án þess kallaðar séu út leitarsveitir og sporhundar!
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 24.1.2011 kl. 15:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.