Stjórnlagaþingið á ekki að skipa Alþingi fyrir verkum
1.12.2010 | 15:10
Er stjórnlagaþingið ofar Alþingi? Getur það sett Alþingi fyrirmæli, beint eða óbeint? Ummæli Þorvaldar Gylfasonar, prófessors, stjórnlagaþingmanns, virðast benda til þess að báðum þessum spurningum eigi að svara játandi.
Væri ég þingmaður tæki ég ekki í mál að afsala mér stjórnarskrárbundnum rétti mínum til að mynda mér skoðun á tillögum þeim sem lagðar eru fram á Alþingi, hvort sem þær koma frá stjórnlagaþingi né einhverjum öðrum.
Verkefni Alþingis er einfaldlega það að setja þjóðinni lög og er síst af öllu afgreiðslustofnun, hvorki fyrir framkvæmdavaldið né stjórnlagaþingið.
Í Kastljósi Sjónvarpsins sem og í viðtali við visir.is kemur fram þessi skoðun Þorvaldar að mikilvægt að stjórnlagaþing gangi þannig frá tillögum sínum að Alþingi finni sig knúið til að senda þær óbreyttar í dóm þjóðarinnar til afgreiðslu. Þorvaldur segir að ný stjórnarskrá og uppgjör hrunsins séu náskyld mál.
Ég fæ ekki séð að þó Þorvaldur þessi hafi rætt við höfunda suður-afrísku stjórnarskrárinnar sé honum stætt á þeirri kröfu sinni að Alþingismenn afsali sér rétti sínum til að mynda sér sjálfstæðar skoðanir. Þeir kunna margir að verða sammála stjórlagaþinginu eða ekki.
Stjórnlagaþingið er ekki löggjafarsamkunda, einungis vinnunefnd, sem ætlað er að gera tillögur til Alþingis um breytingar á stjórnarskrá eða nýja stjórnarskrá. Um þetta verður ekki deilt.
Gerum okkur það ljóst að nú er Þorvaldur Gylfason og aðrir stjórnlagþingmenn orðnir stjórnmálamenn, hvorki meira né minna, og orð hans og annarra skal meta á sama hátt og annarra stjórnmálamanna. Munum það líka, að stjórnmálmenn eru ekki vörslumenn sannleikans, frekar en við hin.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þeir sem völdust á stjórnlagaþing eru að mestu fulltrúar "Silfurs Egils" og þar hafa komið fáir af landsbyggðinni. Til hamingju Egill Helgason. Sjálfsagt verður það þeirra hlutverk að "koma" ákvæði inn í stjórnarskrána, sem gerir það auðveldara fyrir Heilaga Jóhönnu & co að innlima landið í ESB.
Jóhann Elíasson, 1.12.2010 kl. 16:16
Ég skildi Þorvald ekki svona. Ég skildi hann þannig að tillögur Stjórnlagaþings ættu að fara beint til þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu án viðkomu í Alþingi að öðru leyti en til almennrar umsagnar þingmanna. Það er þjóðin sem á að kjósa, ekki Alþingi.
Hörður Sigurðsson Diego, 1.12.2010 kl. 23:44
27. gr. Frumvarp sent Alþingi.
Þegar stjórnlagaþing hefur samþykkt frumvarp til stjórnarskipunarlaga skal það sent Alþingi til meðferðar.
Ekki mikið hægt að misskilja þessi lög.
Svanur Gísli Þorkelsson, 2.12.2010 kl. 09:02
Eru Íslendingar ekki stórkostlegir.Farnir að skipta sér í lið með og á móti þeim sem voru kosni´r á stjórnlagaþing. Það virðist bara ekki vera möguleiki að fólk hér geti staðið að baki nokkru okkur til bóta . Það röflar yfir kosnaðinum sem fór í þetta en segir ekkert við fjáraustri til stjórnmálaflokkanna. Hægri menn fara á límingunum í hvert skipti sem Þorvaldur opnar á sér munninn,líklega af því að hann kemur yfirleitt hressilega við kaunin á þeim enda þeir með mörg ljót svöðusár eftir sjálfan sig.
Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 2.12.2010 kl. 10:22
Væri það ekki afar undarlegt ef enginn mætti gagnrýna það sem Þorvaldur prófessor segir? Hvet Rögnu Birgisdóttur til að fjalla málefnalega um efni bloggsins frekar en tala eins og hún gerir. Það skilar engu í þessu samhengi.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.12.2010 kl. 10:33
Það sem Þorvaldur var að ræða sérstaklega var að það mun reynast sitjandi Alþingismönnum ákaflega erfitt að samþykkja nokkrar þær breytingar t.d. á þingmannafjölda og kjördæmaskipan, sem myndi hafa áhrif á stöðu þeirra sjálfra, fjölda þingmanna í þeirra heimahéraði og mögulega endurkosningu þeirra sjálfra.
Alþingi hefur síðasta orðið um breytingar á Stjórnarskrá. Það stendur skýrt í Stjórnarskránni. Þess vegna er ekki hægt að breyta Stjórnarskránni með þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hygg ég að Þorvaldur viti mæta vel.
En ef Stjórnalagaþingi tekst vel um og skilar vel rökstuddum tillögum sem hafa hljómgrunn meðal þjóðarinnar - hvernig svo sem það er mælt - er erfiðara fyrir Alþingi að hunsa þær.
Skeggi Skaftason, 2.12.2010 kl. 11:03
Það sem ég á einfaldlega við, Skeggi, er að rökræða á Alþingi um tillögur stjórnlagaþings eru nauðsynlegar og þar á hver maður að tjá sig frá eigin brjósti rétt eins og þeir væntanlega gera á stjórnlagaþinginu. Það er svo ekki góð regla í rökræðu að gera fólki upp skoðanir. Mér finnst ekki rétt orðalag að tala um að Alþingi „hunsi“ tillögur stjórnlagaþingsins fari svo að þær nái ekki allar í gegn.
Sé hægt að draga einhverjar ályktanir af sögunni þá ætti Alþingi að vera auðvelt að samþykkja breytingar á kjördæmaskipan og fjölda þingmanna. Það var gert 1959 og einnig 1999.
Ef ég á að tjá mig persónulega er ég ekkert hrifinn af fækkun þingmanna. Tel að núverandi fjöldi sé góður og þar með meiri líkur á því að þingið sé skýrari þverskurður af þjóðinni. Einnig er ég ekki hrifinn af því að landið verði eitt kjördæmi. Tel að með kjördæmum sé einfaldara og betra fyrir þjóðina að velja þing sem endurspegli vilja þjóðarinnar. Enn hef ég ekki heyrt sannfærandi rök fyrir breytingu á þessu.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.12.2010 kl. 11:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.